
Hvað er auðlind?
Jóhannes Finnur Halldórsson
Mér brá svolítið þegar ég hlustaði á viðtal við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann upplýsti okkur um þann vafa sem hann hefði: „Ég veit ekki hvort að ég sé sammála um að rokið sé auðlind,“ sagði hann. Þegar við vorum saman ungir Sjálfstæðismenn, hefðum við eflaust geta tekið umræðu um þessa spurningu. En nú er ég ekki lengur ungur og alls ekki í Sjálfstæðisflokknum, fyrst og fremst vegna hvernig flokkurinn hefur þróast til sérhagsmunagæslu.
Ein skýring sem ég tók upp af netinu og er í samræmi við það sem ég lærði ungur: „Auðlind er eitthvað sem getur verið nýtt eða notað til að skapa verðmæti eða veita þjónustu. Auðlindir geta verið af ýmsum gerðum, og eru yfirleitt flokkaðar í nokkra meginflokka.“ Hér vil ég nefna tvo í samhengi við umræðuefnið:
Nr. 1. Náttúruauðlindir: Þetta eru auðlindir sem koma beint úr náttúrunni, eins og vatn, jarðvegur, olía, gas, málmar, trjáviður, fiskur og vindur. Þessar auðlindir eru grunnurinn að mörgum iðnaði og eru nauðsynlegar fyrir mannkynið til að lifa af.
Nr. 2. Vistfræðilegar auðlindir: Þetta eru auðlindir sem tengjast vistkerfum og umhverfi, eins og ferskt loft, hreint vatn, og heilbrigð vistkerfi sem stuðlar að líffræðilegri fjölbreytni.
Guðlaugur virðist ekki vera með á hreinu hvað auðlind er, en ég vona að þetta hjálpi honum sem alþingismanni og ráðherra í ríkisstjórn Íslands, við ákvörðun um nýtingu auðlinda og að finna út sanngjörn auðlindagjöld. En við vorum sammála um það áður fyrr að markaðurinn væri best til þess fallinn.
Jóhannes Finnur Halldórsson.
Höf. er af þriðju kynslóð.