Hvað ætlum við að verða þegar við verðum stór?

Tinna Steindórsdóttir

Fjölskyldubærinn Akranes – Grein 2

Nú þegar ég er búin að opinbera mig sem bæjartuðari og kaffifýkill í mínum fyrri greinaskrifum þá get ég alveg eins haldið áfram að skrifa um það sem mér liggur á hjarta varðandi bæinn minn. Þó ég sé að röfla hérna yfir ýmsu sem mér finnst að betur mætti fara þá er það bara vegna þess að mér þykir svo vænt um Akranes! Ég hef alltaf verið stolt af því að vera fædd hér og uppalin og sem íbúi þá hef ég mikinn metnað og skýra framtíðarsýn fyrir mitt góða og fína bæjarfélag.

Eftir að HB Grandi flutti út og fiskmarkaðnum lokaði um tíma þá hef ég verið hugsi undanfarið yfir því hvert nútíminn er að leiða okkur Akurnesinga. Hér hafa orðið miklar breytingar síðan 5 ára ég valhoppaði um göturnar (helst ofan í polla ef ég gat) og leitaði að peningablómum eða fjögurra blaða smárum. Við Skagamenn vorum þekktir fyrir fallegar konur, kartöflur og knattspyrnumenn sem voru jafn snöggir að bruna niður völlinn eins og að bruna niður Vesturgötuna á 20 feta trukki. Við vorum fiskiþorp, iðnaðarþorp, íþróttaþorp og alls konar fleira. Í minningunni iðaði bærinn einhvern veginn alltaf af lífi. Höfnin var full af smábátum og skipum, marglittum og marhnútum. Maður fór aldrei niður á bryggju með pabba án þess að hitta nokkra góða kunningja. Það var alltaf stanslaus umferð af bátum og bílum, Akraborgin og allt lífið í kringum hana og ys og þys í kringum verksmiðjurnar.

Þegar ég flakkaði til annarra landa og hitti fólk sem spurði hvort ég byggi í snjóhúsi og ætti mörgæs í búri þá sagði ég því einmitt að ég kæmi nú reyndar bara frá litlu fiskiþorpi á Vesturlandinu og ætti heima í ósköp venjulegu húsi með rafmagni og rennandi vatni og ætti bara einn loðinn og geðstirðan kött. Um daginn hins vegar var ég að tala við ferðamenn sem ég hitti á förnum vegi í höfuðborginni og var að reyna að útskýra fyrir þeim hvaðan ég væri en rak mig á það að ég gat bara ekki með góðri samvisku sagt að ég kæmi frá fiskiþorpinu Akranesi.

Það fékk mig til þess að hugsa… „ef við erum ekki fiskiþorp – hvað erum við þá?“ Við eigum mikið af góðu og hæfileikaríku íþróttafólki – en við höfum samt eiginlega ekki efni á því að kalla okkur íþróttabæ miðað við það sem áður var. Ég held að aðal ástæðan fyrir því sé að íþróttamannvirkin okkar anna ekki lengur þörfinni og bjóða ekki upp á þá toppaðstöðu sem þarf til að styðja við framúrskarandi íþróttafólk. Við erum heldur ekki iðnaðarþorp, enda er það ekki í takt við umhverfisvitund nútímans að vera með stóriðjur inni í miðju bæjarfélagi svo sú þróun er að mínu mati af hinu góða. En eftir stendur samt spurningin: Hvernig bæjarfélag erum við þá?

Á Akranesi er svo margt flott í gangi. Það er alveg sama hvern ég tala við hér í bæ, allir hafa sýn fyrir bæinn sinn og svo ótal margir vinna hér óeigingjarnt starf við að efla og auðga bæjarlífið. Við eigum svo margt sem er algjörlega til fyrirmyndar. Til dæmis þá eru leikskólarnir okkar ár eftir ár á lista yfir fyrirmyndarstofnanir ársins og börnin okkar njóta þar algjörra forréttinda innan um dásamlegt starfsfólk. Bókasafnið okkar er líka algört uppáhalds hjá mér og mínum börnum og alltaf jafn notalegt að koma þangað. Þar er líka alltaf eitthvað sniðugt í gangi og starfsmennirnir sérlega duglegir að standa fyrir alls konar skemmtilegum viðburðum fyrir okkur bæjarbúa. Ég elska að það sé kaffihús á torginu og ég er svo ánægð að hafa möguleikann að geta kíkt með vinkonum mínum þangað á kvöldin í kósý kaffi og köku – ég mæli með því að bæjarbúar fari að nýta sér þessa þjónustu meira og styðji við þetta góða framtak sem þetta kaffihús er. Verslanirnar okkar eru líka til fyrirmyndar – við þurfum ekki að leita langt fyrir skammt! Allt höfuðborgarfólkið sem ég dreg með mér hingað í búðir er orðlaust yfir frábærri þjónustu og góðu úrvali. Hér á Akranesi höfum við allt til alls, við erum alveg ótrúlega sjálfbær ef að er gáð. Við fólkið hér í bæ þurfum bara að nýta það betur.

Við búum auðvitað líka að því að vera stutt frá Reykjavík og héðan af Skaga er auðveldlega hægt að sækja nám og vinnu til höfuðborgarinnar, svo ég tali nú ekki um ef ákveðnir aðilar skammast nú til að bæta úr ástandinu á Kjalarnesinu og hendi jafnvel í hina margrómuðu Sundabrú. Atvinnutækifæri höfuðborgarsvæðisins standa okkur Akurnesingum opin en við höfum um leið þann lúxus að búa í þorpi á landsbyggðinni. Hversu mörg bæjarfélög bjóða upp á slíka möguleika? Ég gæti auðvitað haldið endalaust áfram að telja upp alla fjársjóðina sem við Skagamenn njótum hér á nesinu okkar en þar sem þetta er tuðgrein ætla ég að halda mig við efnið.

 

Það sem mig langar að spyrja ykkur, elsku Skagamenn, er þetta:

Hvað ætlum við að verða þegar við verðum stór?

Hvernig bær ætlum við að verða núna þegar við þurfum að endurskilgreina okkur í kjölfar allra breytinga síðustu ára?

 

Fyrir mig er svarið auðvelt. Ég vil að við verðum fjölskyldubær. Ég vil að hérna í þessu frábæra bæjarfélagi þar sem við höfum einstakar kjöraðstæður til þess að skapa algjöra fjölskylduparadís að fjölskyldan verði kjarninn í allri stefnumótun. Ég vil að ungt fólk sem getur ekki keypt sér heimili á höfuðborgarsvæðinu horfi hingað til okkar á Akranesi þegar það leitar að stað til þess að festa rætur. Ég vil að bærinn okkar skari fram úr í allri umgjörð í kringum fjölskylduna, alveg frá litla bróður og upp í langömmu. Bæði vegna þess að það er gott fyrir bæjarfélagið okkar að fá hingað alls konar mannauð og líka vegna þess að ég veit hvað það eru mikil forréttindi að fá að alast upp hérna á Akranesi og vil að fleiri njóti.

Ég ætla að taka smá Martin Luther King á þetta og segja hér afar háfleygt og væmið fyrir framan ykkur öll, að mig dreymir um að geta sagt einn daginn að ég komi frá þorpi sem markaði tímamót á Íslandi og setti tóninn um nýja og heilbrigða forgangsröðun í okkar hraða efnishyggjuþjóðfélagi.

Mín sýn fyrir bæinn minn er kannski einföld en er þetta í alvörunni eitthvað flóknara? Eins og ég sé þetta þá er það bara einfaldlega þannig að hamingjusamar fjölskyldur búa til hamingjusamt bæjarfélag og þar er eftirsóknarvert að búa.

 

Tinna Steindórsdóttir