Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?

G. Sigríður Ágústsdóttir

Svörin láta sjaldan á sér standa þegar lítil börn eru spurð þessarar spurninga sem varpað er fram hér að ofan og oftast bera þau með sér ríkan vilja til að gera heiminum gott. Mörg okkar rata svo í draumastarfið en fyrir annað fólk er þetta spurning sem kemur reglulega upp í huga okkar. Þannig er því ástatt með mig sjálfa. Nú dreymir mig um að verða þingmaður. Og ekki bara einhver þingmaður heldur vil ég verða þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Mig langar til að verk mín í því starfi komi samfélaginu til góða og tel mig geta gert mikið gagn. Þótt ég búi í Reykjavík kom aldrei annað til greina en að bjóða mig fram í Norðvesturkjördæmi, þar liggur hugur minn og hjarta og það er fólkið sem ég vil vinna fyrir. Ég er uppalin í kjördæminu og hef haldið miklum tengslum við svæðið, auk þess sem eiginmaður minn, elskulegur starfar fyrir hið öfluga nýsköpunarfyrirtæki Skagann 3X sem er sprottið upp af hugviti fólks af svæðinu. Mannauðurinn er gríðarlega sterkur og ekki skrítið hve mörg slík fyrirtæki hafa í reynd orðið til á þessu svæði. Ég veit að það eru heilmörg tækifæri til enn frekari uppbyggingar og framþróunar.

Ég vil vinna að því að leggja grunn að þeim jarðvegi sem gerir slíkum fyrirtækjum kleift að verða til og skapa enn frekari tækifæri sem örva og efla nýsköpun og framþróun á svæðinu. Það hefur sýnt sig að tækifærin eru fyrir vestan! En til að skapa samkeppnishæft samfélag þarf að huga að fleiru en framleiðslutækjum og auðlindum, það vitum við flest. Ég vil því leggja mikla áherslu á að bæta aðgengi fólks á svæðinu að heilbrigðisþjónustu og vinna að sanngjarnari dreifingu fjármuna til heilbrigðismála eftir landshlutunum. Það þarf líka að gera sumu fólki á höfuðborgarsvæðinu betur ljóst hve mikil verðmæti verða nú þegar til á landsbyggðinni og hve mikil tækifæri eru til að gera enn betur ef við hugum frekar að innviðum svæðanna. Þarna eru öflug framleiðslufyrirtæki sem þurfa á greiðum samgöngum að halda til koma vörum sínum til viðskiptavina, eins og staðan er þarf að bæta mjög viðhald vega og tryggja öryggi fólks á ferðum sínum og sjá til þess að fyrirtæki lendi ekki í forsendubresti vegna vondra samgangna. Og eitt enn að sinni, raforkuöryggi víða á svæðinu þarf að bæta sem fyrst. Það þarf í raun ekki mikið til að stórbæta ástandið ef vilji er fyrir hendi. Hægt er að bæta raforkuöryggi á svæðinu tífalt með því að leggja línur í jörð á bilanagjörnustu svæðunum, styrkja kerfið til mikilla muna með staðbundnum jarðstrengjum, nýjum tengivirkjum og öðrum úrbótum auk þess sem hægt er að bæta vinnslu á raforku á svæðinu. Að þessum verkefnum og mörgum fleiri vil ég vinna að. Ég heiti því að vera harðdugleg í mínum störfum og hlakka til þess að takast á við verkefnin framundan og veit að þú munt ekki sjá eftir því að ráða mig í þína þjónustu með því að greiða mér atkvæði þitt í prófkjörinu þann 16. og 19. júní næstkomandi.

Ég sæki því hér með um vinnu hjá þér og heiti þér dugnaði og heilindum í störfum.

 

G. Sigríður Ágústsdóttir

Höf. sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í NV kjördæmi