Húsnæði fyrir venjulegt fólk

Guðjón S Brjánsson

Samfylkingin hefur sett fram snjalla hugmynd til að koma til móts við ungt fólk og aðrar fjölskyldur sem vilja eignast húsnæði. Við ætlum bjóða fólki að taka út vaxtabætur til fimm ára fyrirfram og nýta í útborgun.

Vandinn núna er að ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð nær ekki kljúfa útborgunina, en myndi frekar ráða við afborganir af húsnæðislánum heldur en himinháa leigu. Margar fjölskyldur eru einnig fastar á ótryggum leigumarkaði, þar sem stærstu útgjöld heimilisins eru leiga og minna er til skiptanna fyrir aðrar nauðsynjar.

 

4.000 almennar íbúðir og 1.000 námsmannaíbúðir

Forskot á fasteignamarkaði er einn liður í kosningastefnu Samfylkingarinnar, en í henni felst einnig að byggja upp alvöru leigumarkað fyrir börn og fjölskyldur. Fjölskyldur verða að geta leigt til langs tíma og greiða fyrir það raunhæfa leigu ef leigumarkaðurinn á að vera raunhæfur kostur. Samfylkingin ætlar að fjölga almennum leiguíbúðum um 4.000 á kjörtímabilinu, auk 1.000 námsmannaíbúðum um allt land, með stofnstyrkjum.

Betri leigumarkaður er markmið jafnaðarmanna, en það tekur tíma að byggja hús og breyta markaðnum. Á meðan er ungt fólk og fjölskyldufólk í miklu basli við að greiða himinháa leigu. Þess vegna ætlum við að bjóða forskot verður hægt að nýta strax.

 

Forskot á fasteignamarkaði

Þær fjölskyldur sem nýta sér forskot á fasteignamarkaði fengju vaxtabætur næstu fimm ára greiddar út fyrirfram til kaupa á íbúð. Miðað við tekju- og eignamörk vaxtabóta í dag myndi það þýða 3 milljónir fyrir fólk í sambúð, 2,5 milljónir fyrir einstætt foreldri og 2 milljónir fyrir einstakling.

Þrjár milljónir króna duga til dæmis fyrir útborgun á 20 milljóna króna íbúð m.v. 85% lán, eða sem stór hluti útborgunar í dýrari eign. Forskotið ætti því að nýtast fólki á landsbyggðinni  sérstaklega vel, þar sem húsnæðisverð er lægra.

 

Betri stuðningur

Á undanförnum árum hefur stuðningur í formi vaxtabóta minnkað gríðarlega, þar sem viðmiðin um hámarkstekjur og eignir hefur ekki breyst í samræmi við launaþróun og fasteignaverð. Munurinn er reyndar sláandi en kostnaður ríkissjóðs vegna vaxtabóta hefur lækkað úr 25 milljörðum króna á núvirði 2012 í um 13 milljarða króna í ár, sem þýðir bara eitt; færri fjölskyldur fá stuðning en áður. Þessu ætlar Samfylkingin að breyta. Samhliða því að veit forskot á fasteignamarkaði ætlum við að styðja betur við barnafjölskyldur en nú er gert og láta vaxtabætur ráðast af fjölda barna, sem er nýmæli.

 

Kjósum heilbrigðari húsnæðismarkað.

 

Guðjón Brjánsson.

Höf. skipar fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar í NV kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar