Húsið

Finnbogi Rögnvaldsson

Það er eflaust hægt að alhæfa um hópa fólks með nokkru sanni, þó oft séu slíkar alhæfingar málum blandnar. Mér virðist hins vegar hægt að segja um íslenskt samfélag að eftir að Íslendingar eignuðust peninga hafi þeir aldrei náð neinum teljandi tökum á því að ráðstafa þeim skynsamlega.

Bílar

Bílar eru gott dæmi um þetta. Þegar ég var krakki þekkti ég dæmi þess að menn slægju víxil til að kaupa sér bíl. Sennilega er ekki hægt að ráðstafa fé á verri máta en að slá lán til að kaupa bíl. Vissulega geta menn verið í þannig stöðu að þá bráðvanti bíl til einhverra nota og sjái sér hag í að kaupa ódýran bíl á lánum en oftar en ekki kaupa menn dýra bíla á dýrum lánum og hafa jafnvel lítið við þess konar apparat að gera. En þetta eru smámunir.

Ríkisfjármálin

Á árunum 2020 til 2022 var halli á rekstri ríkissjóðs að meðaltali um 207 milljarðar hvert þessara þriggja ára. Sem er allnokkurt fé. Þessar tölur benda til þess að tækifæri séu til að fara í saumana á því hvernig ríkissjóður hefur varið því fé sem er úr að spila. Eitt af því sem blasir við er að laun opinberra starfsmanna eru væntanlega full rausnarleg (og gildir þá einu hvað menn vilja segja um „löndin sem við viljum bera okkur saman við“ hvað sem það þýðir). Auk þess er kostnaður við framkvæmdir og rekstur eigna væntanlega of hár. Að síðustu er líklegt að skattkerfið sé ekki að skila ríkissjóði nægum tekjum til að standa undir eðlilegum rekstri. Engu að síður er oft látið þannig um opinberan rekstur að hann sé í raun allur í skötulíki. Heilbrigðiskerfið er ónýtt, skólarnir risavaxnar símstöðvar, samgöngumannvirki úr sér gengin og anna ekki umferðinni sem um vegina fer og svo mætti telja. Þetta er líka að einhverju leyti satt og rétt. Til eru embætti og störf sem mætti leggja af og spara nokkurt fé – má þar nefna embætti forseta Íslands, biskups þjóðkirkjunnar og ótal stóla innan stjórnsýslunnar mætti setja í geymslu.

Harpa, Perlan, skóli, ráðhús, leikhús, sjúkrahús… hús

Hús eru byggð utan um starfsemi stofnana. Ég man að þegar ég kom til Björgvinjar í Noregi árið 1990 átti ég erindi á skrifstofu tollstjóra. Það fannst mér aumi kontórinn! Þar var afgreiðsluborð frá því fyrir stríð í húsnæði sem virtist ekki hafa verið „tekið í gegn“ frá því það var byggt. Það var hins vegar í fullum notum og öll erindi sem ég þurfti að reka þarna fengu greiða úrlausn.

Hér vill brenna við að menn byggi af framsýni og myndarskap. Byggingartíminn og kostnaður vill hins vegar fara úr böndum og öll fyrirhyggja virðist lögð til hliðar þegar sérfræðingarnir hitta stjórnmálamenn og taka að véla um hvað gera skuli. Fyrir um 15 árum hófst vinna við byggingu nýs Landspítala, trúlega er enn lengra síðan einhverju var farið að kosta til verksins. Mikið var talað um nýtískulegt hátækni sjúkrahús þar sem hægt yrði að græða flest mein. Enn er byggt og kostnaðurinn sem þá var nefndur er öllum gleymdur – enda krónan nú önnur en þá. Þeir sem þá voru veikir að nokkrum mun eru flestir komnir úr hinu jarðneska syndastraffi undir græna torfu. Og þeir sem nú eru að læra að stíga fyrstu skrefin munu borga fyrir ósköpin komnir á fullorðins ár.

Glæsilegar skólabyggingar eru svo mikil prýði að þar er ekki hægt að ráða aðra til að skúra en pólska tannlækna (sem auðvitað fá ekki nám sitt metið hér enda séríslenskar aðstæður í veginum) eða álíka ódýrt vinnuafl. Þar til öllu er lokað og farið að vinna á myglunni. Einhvern tímann kemur vonandi þar að við náum á þessu tökum.

 

Finnbogi Rögnvaldsson