Hugum strax að sameiningu alls Snæfellsness

Laufey og Þröstur

Með því að taka strax það stóra og nauðsynlega skref að sameina allt Snæfellsnes tökum við alla málaflokka þar undir og skoðum þá sem eina heild.

Hvað skólamál varðar er áhugavert að líta á þann málaflokk í heild sinni. Hér á Snæfellsnesi er rekinn Fjölbrautaskóli Snæfellinga sem sveitarfélögin koma að. Sveitafélögin á Snæfellsnesi reka sameiginlega skóla- og félagsþjónustu. Við erum komin langleiðina með sameiginlega sýn á verkefni í þessum málaflokki. Að klára skrefið og taka grunnskólana, tónlistarskólana og leikskólana í sameiningarferlinu á öllu Snæfellsnesi er einboðið með heildarsameiningu.  Skoðum aðeins hvað gerst hefur í skólamálum á landsvísu; í Vestur- Húnavantssýslu er rekinn einn skóli á Hvammstanga og er börnum ekið norðan úr Strandasýslu um 80 km veg til að komast í stærra og öflugra skólaumhverfi, engum þar um slóðir dettur í hug að stofna aftur fámenna skóla. Í eystri hluta Rangárvallarsýslu eru börnin keyrð á Hvolsvöll, þau sem lengst fara koma austan frá Skógum undir Eyjafjöllum. Í uppsveitum Árnessýslu (Bláskógabyggð) eru reknir skólar á Laugarvatni og Reykholti en mikið samstarf er þar á milli og hefur vilja barnanna þar verið framfylgt að nokkru leyti með það samstarf. Í Borgarbyggð eru reknir 3 skólar í uppsveitum og einn í Borgarnesi, þar eru börn að fara ofan úr sveitum niður í Borgarnes í skóla til að komast í öflugra félagsumhverfi (tómstundir og íþróttir) og jafnframt eru börn að fara úr Borgarnesi í skólana upp í sveitum á móti.  Því er ljóst að mikilvægt er að taka skólamál heildstætt yfir Snæfellsnes því þarfir fjölskyldna og barna/unglinga eru mismunandi. Sumir kjósa fámennið en aðrir vilja fjölmennið til að eiga möguleika á því að vaxa og dafna félagslega, í íþróttum og tómstundastarfi.  Skólaumhverfi er ekki bara að læra að lesa, skrifa og reikna. Þar þroskast börn/unglingar líka félagslega og eru að læra það öll árin í leik- og grunnskóla. Sumir þurfa mikla örvun á þeim þætti og stuðning út í lífið.  Öll viljum við að börnin okkar verði fær félagslega þegar þau hleypa heimdraganum.

Í þessu ljósi er áhugavert að skoða hvað gerst hefur í Eyja- og Miklaholtshreppi undanfarin ár. Þó nokkur fjöldi barna hafa horfið til stærri skólasamfélaga þar sem þeim stendur til boða meiri sérfræðiþjónusta, sé þess þörf, félagslegi þátturinn er öflugri, stærri bekkjarárgangar, fjölbreytt tónlistarnám og blómlegt íþróttastarf. Allt að 14 börn á umliðnum átta árum hafa sótt í stærra skólumhverfi og hefur straumurinn legið að mestu leyti inn í Stykkishólm. Öflugt skólasamfélag verður ekki með 20-30 barna skóla til að bjóða upp á alla þessa þætti svo vel sé. Við skulum taka umræðu um skólamál á heildstæðan hátt fyrir allt Snæfellsnes. Grunndvallaratriði er að gera fólki kleift að velja skólasamfélag sem það telur henta sínum börnum.

 

Laufey Bjarnadóttir og Þröstur Aðalbjarnarson

Stakkhamri, Eyja- og Miklaholtshreppi, 342 Stykkishólmi

Fleiri aðsendar greinar