Hugsum stórt

Sigurður Guðmundsson

Borgarbyggð er landstórt sveitarfélag sem býður uppá breytilega búsetumöguleika. Innan Borgarbyggðar eru misstórir þéttbýliskjarnar, hefðbundnir sveitabæir, smá býli og sumarhús þar sem fólk dvelur til lengri og skemmri tíma. Þessi fjölbreytni í búsetumöguleikum býður uppá breytt val fyrir þá sem hafa hug á að setjast hér að og er einn af helstu styrkleikum okkar góða sveitarfélags. Þrátt fyrir það er þessi þróun einnig ein helsta áskorun sveitarstjórnar m.a. í því samhengi hvar eigi að heimila þéttbýli í dreifbýlinu og hvernig skuli fara með skipulagsvaldið við þessa þróun byggðar því sveitarfélaginu ber að veita lögbundna þjónustu á sem jafnastan og bestan hátt.

Borgarbyggð er einnig sérstakt samfélag að því leyti að hér tvöfaldast íbúafjöldi yfir sumartímann sem veldur álagi á innviði og gerir það erfitt að ná utan um nákvæma þjónustuþörf. Stórar sumarhúsabyggðir eru innan sveitarfélagsins og hafa þær þróast í gegnum árin úr því að vera eingöngu sumarhús yfir í að vera heilsárshús. Þetta veltir upp þeirri spurningu hvort ekki séu tækifæri fólgin í því fyrir sveitarfélagið að heimila búsetu í sumarhúsum sveitarfélagsins. Þannig má með auðveldari hætti ná utan um það hversu margir raunverulega búa í sveitarfélaginu allt árið, við fáum útsvarstekjur frá þessum íbúum og munum mögulega bæta nýtingu á þeirri þjónustu sem þegar er veitt um allt sveitarfélagið eins og t.d. skólastarf, skólaakstur, sorphirðu o.fl. þjónustuþætti sem sveitarfélagið sinnir nú þegar um allt sveitarfélagið. Fjölgun íbúa með þessum hætti ætti því að bæta nýtingu á þessum þjónustuliðum ef vel tekst til þar sem t.d. fjölgar í skólabílum sem þegar eru keyrðir um svæðið, fjölgar í starfstöðvum skólanna sem þegar eru reknar og svona er hægt að halda áfram.  Ég tel því rétt að skoða vandlega kosti þess og galla að leyfa búsetu í sumarhúsum því ef vel tekst til, þá gætum við séð töluverða íbúafjölgun í dreifbýli Borgarbyggðar sem mundi styrkja skólastofnanirnar og aðra þjónustu sem miðuð er við íbúafjölda t.d. heilbrigðisþjónustu ásamt því að auka tekjur sveitarfélagsins.

Ægifögur náttúra ásamt mörgum af helstu náttúruperlum Íslands gerir það að verkum að ferðaþjónusta hefur byggst hér upp í mjög langan tíma. Uppbygging ferðaþjónustu í Borgarfirði hófst með uppbyggingu í kringum laxveiði þar sem t.d. er vitað um enska stangveiðimenn í Grímsá um 1862.  Þjónustu við ferðalanga á leið í gegnum héraðið á sér langa sögu enda liggja þjóðbrautir norður og vestur um sveitarfélagið. Þannig var Húsafell viðkomustaður ferðamanna fyrr á öldum eins og enn í dag, þegar þjóðleið milli Norður- og Suðurlands lá um Arnavatnsheiði, reglulegar siglingar til Borgarness hófust 1897 og síðan þá hefur þjónusta við ferðamenn verið ein af aðalatvinnugreinum Borgarness.  Á seinni árum hefur orðið mikil uppbygging á hótelum og gististöðum, uppbygging verið við náttúruperlur og ýmis afþreyingarferðaþjónustu byggst upp á hinum ýmsu stöðum innan sveitarfélagsins.  Fá svæði á Íslandi búa yfir eins ríkum sagnaarfi eins og Borgarfjörður og hefur bæði Landnámssetur og Snorrastofa byggst upp í kringum sögu héraðsins. Ferðaþjónustan í Borgarbyggð hefur einungis nýtt lítinn hluta af þeim tækifærum sem liggja í Borgarbyggð og bíða eftir að verða nýtt.  Við Sjálfstæðismenn munum leggja okkur fram um að styðja eins og kostur er við að ferðaþjónustan blómstri í sveitarfélaginu.

Í Borgarbyggð er gróskumikill landbúnaður en þrátt fyrir það er enn mikið af ónýttu eða lítið nýttu landbúnaðar landi innan sveitarfélagsins.  Nægt heitt vatn er víða að finna þar sem m.a. hefur byggst upp talsverð ylrækt.  Þessi landgæði ásamt nálægð við aðalmarkað landsins gerir það að verkun að Borgarbyggð er góður kostur til matvælaframleiðslu og ef rétt er á spilum haldið þá getur matvæla framleiðsla eflst mikið innan sveitarfélagsins á næstu árum. Innan sveitarfélagsins er einnig mikið af ónýttum möguleikum til skógræktar og endurheimts votlendis án þess að það komi niður á annarri starfsemi.

Borgarbyggð býr vel að því að vera í nálægð við stór atvinnusvæði eins og Grundartangasvæðið og höfuðborgarsvæðið. Þessi nálægð skapar tækifæri fyrir íbúa Borgarbyggðar að sækja vinnu og afþreyingu en jafnframt búa í fallegu og kyrrlátu sveitarfélagi og njóta þess sem það hefur uppá að bjóða.  Breyttir atvinnuhættir með t.d. störfum án staðsetninga gerir Borgarbyggð að góðum valkosti fyrir fólk að setjast að í og hafa samt gott aðgengi að höfuðborgarsvæðinu. Nálægð Borgarbyggðar við helsta markaðssvæði landsins gerir það að verkum að sveitarfélagið hentar vel fyrir ýmsan iðnað þar sem gott aðgengi að markaði er lykilatriði.  Það er því góður kostur fyrir framleiðslufyrirtæki að velja sér stað í Borgarbyggð.  Við sjálfstæðismenn munum leggja áherslu á að byggt verði á þessum styrkleikum sveitarfélagsins m.a. með því að koma á starfi atvinnumálafulltrúa sem mun hafa það hlutverk að auka til muna samskipti við atvinnulífið bæði núverandi og þá aðila sem eru að velta fyrir sér að hefja starfsemi í sveitarfélaginu.

Í Borgarbyggð eru öll skólastig frá 12 mánaða aldri upp í doktorsnám sem er einstakt í tæplega 4000 manna samfélagi og má því með sanni segja að mennta starfsemi sé stóriðja og fjöregg sveitarfélagsins. Það er mjög mikilvægt að hlúa vel að þessu fjöreggi og að þessar menntastofnanir vaxi, þróist og dafni í samfélaginu.  Staðsetning starfsstöðva leik- og grunnskóla þurfa á hverjum tíma að taka mið af þörfum samfélagsins sem getur verið breytilegar eftir því sem byggð og samfélag þróast og við því þarf að bregðast á hverjum tíma með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.  Við í Sjálfstæðisflokknum viljum sjá háskólana dafna og styrkjast og ætlum að efla og bæta starf í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins og að taka þátt í að þeir þróist eftir þörfum samfélagsins á hverjum tíma og hverjum stað.

Borgarbyggð er framarlega þegar kemur að umhverfismálum. Frárennslismálin eru í góðu lagi með nýlegum hreinsistöðvum á helstu þéttbýlisstöðunum, Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti, Varmalandi og Bifröst.  Sorp er sótt á öll heimili í sveitarfélaginu, sorp er flokkað, búið er að innleiða m.a. brúna tunnu og hirðingu dýrahræja í dreifbýli. Góð vatnsveita er í Borgarnesi og víða til sveita eru vatnsveitur, þó eru til staðir innan sveitarfélagsins sem eru í vandræðum með vatn og því þarf að finna lausn á.  En heilt yfir er staðan góð og mun styðja vel við eflingu byggðar sem við í Sjálfstæðisflokknum höfum trú á að gerist og ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að byggð eflist.

Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins teljum að það séu allar forsendur fyrir því að íbúar og sveitarfélagið Borgarbyggð hugsi stórt því tækifærin eru í Borgarbyggð og við í kjörstöðu að nýta þau. Við Sjálfstæðismenn höfum mótað stefnu fyrir helstu málefni sveitarfélagsins fyrir næstu fjögur ár sem mun styðja við samfélagið og vöxt þess. Við ætlum m.a að leggja áherslu á að fjölga byggingalóðum til úthlutunar, byggja íþróttahús í Borgarnesi og bæta húsnæði grunnskóla Borgarfjarðar með nýbyggingu á Kleppjárnsreykjum.

Ég hef búið í Borgarbyggð síðustu 24 ár og á þeim tíma hefur sveitarfélagið stækkað með sameiningum og fjölgun íbúa.  Miklar breytingar hafa einnig átt sér stað í atvinnulífi á svæðinu þar sem oft hefur reynt á aðlögunarhæfni samfélagsins.  Ég hef mikla trú á Borgarbyggð og að samfélagið haldi áfram að þróast og hafi þann sveigjanleika sem það hefur haft í gegnum tíðina. Ég tók annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins til að leggja mitt af mörkum til að gera góða Borgarbyggð enn betri og til að styðja við og stuðla að því að tækifærin sem liggja hér verði nýtt til hagsbóta fyrir sveitarfélagið og íbúa þess næstu fjögur árin.  Ég óska eftir stuðningi ykkar í sveitarstjórnarkosningunum þann 14 maí með því að þið kæru kjósendur í Borgarbyggð setjið X við D.

 

Sigurður Guðmundsson

Höf. skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð