Hugmynd sem skapaðist eftir umræður á íbúafundi 6. nóvember 2018

Ragnheiður Pálsdóttir

Það er nokkuð ljóst að þegar við horfum til framtíðar þá erum við öll sammála um að íþróttaaðstaða er nauðsynleg fyrir unga jafnt sem aldna í Dalabyggð. Við megum samt ekki gleyma því að áhugamálin geta verið fleiri en íþróttir og passa uppá að gera ávallt okkar besta til þess að muna eftir öllum.

Við ættum að hugsa stórt til framtíðar og taka frá lóð í nýju deiliskipulagi fyrir íþróttahús af flottustu gerð ásamt sundlaug.

Staðan í dag er þannig að ef við ætlum að byggja og reka íþróttahús í dag þá munum við ekki geta lagt af mörkum gagnvart öðrum áhugamálum eins og t.d. að reka tónlistarskóla en tónlistarnám hefur ekki verið í boði fyrir eldra fólk en grunnskólanemendur. Hestamennska (sem er reyndar líka íþrótt) en hestamannafélagið Glaður er með hvorki meira né minna en 154 félaga og telst stórt í ekki stærra samfélagi.

Ég hef verið að hugsa þessi mál mikið út frá því hvernig við getum gert eitthvað fyrir alla eða allavega sem flesta.

Gætum við byrjað á því að taka þá innviði sem þegar eru fyrir hendi og reyna að bæta þá og aðlaga að þörfinni sem við stöndum frammi fyrir í dag?

Getum við nýtt Dalabúð betur? Getum við sett dúk sem hentar til íþróttaiðkunar á gólfið í salnum í Dalabúð, nýtt kjallarann betur og komið upp viðunandi aðstöðu búningsklefa og lagað þetta húsnæði betur að þörfum okkar þar til við höfum efni á að byggja og reka íþróttahús í Búðardal.

Getur Dalabyggð orðið hluthafi í Nesodda gegn því að einangra Nesoddahöllina og setja upp salernisaðstöðu?

Ef við gerðum það þá sé ég fyrir mér að þar væri hægt að gera ýmislegt fleira en gert er á hestbaki. Til dæmis væri hægt að vera með frjálsíþróttaæfingar, fótbolta, strandblak, skátastarf, eldri borgarar gætu gengið innan dyra ýmist í Nesodda eða Dalabúð, það mætti jafnvel halda tónlistarviðburði og ótal margt annað sem félögum og einstaklingum dettur í hug.

Ennþá er ekki búið að ákveða hvaða umræðuefni verða tekin fyrir á íbúaþinginu sem ákveðið hefur verið að halda.

Hvort sem þú ert sammála þessum hugmyndum eða bara alls ekki, væri ekki bara gott að nota íbúaþing til að finna lausn á vöntun á íþróttaaðstöðu í Búðardal?

 

Ragnheiður Pálsdóttir

Höf. er í sveitarstjórn Dalabyggðar.