Hugleiðingar um íbúasamráð

Kristleifur Skarphéðinn Brandsson

Undanfarið hef ég mikið velt fyrir mér hugtakinu íbúasamráð. Þetta er fremur fallegt orð og getur meðal annars falið í sér þá merkingu að við íbúar bæjarfélags ráðum saman. Það er enginn einn sem ræður heldur erum við heild sem reynum að komast að niðurstöðu um viss mál, saman.

Íbúasamráð er þó oftast notað í þeirri merkingu að þeir sem kosnir hafa verið til að stjórna bæjarfélagi/samfélagi leiti ráða hjá íbúum þess. Sveitarstjórn/bæjarstjórn getur þannig leitað eftir samráði við íbúa um ákveðin verkefni. Eins og ég sagði, fallegt orð með fallega merkingu.

En þó orðið og merkingin sé falleg þá getur framkvæmd íbúasamráðs verið flókin eins og ég hef komist að undanfarið þegar ég hef verið að lesa mér aðeins til um hugtakið. Meira að segja svo flókin að Samband íslenskra sveitarfélaga gaf út sérstaka handbók um íbúasamráð og þátttöku íbúa árið 2017.

Hvað er íbúasamráð?

Ég ætla ekki að fara djúpt í skilgreiningar, en í grunninn er talað um fimm stig samráðs; upplýsingagjöf, samráð, samtal, samstarf, ákvörðun. Mælt er með því að í upphafi verkefnis leggi sveitarstjórn línurnar um hve miklu samráði hún ætlar að leitast eftir frá íbúum. Verður samráðið eingöngu miðað að upplýsingagjöf til íbúa eða verður gengið alla leið og lokaákvörðun lögð í hendur íbúa? Svo er hægt að fara einhvers konar milliveg en áhersla er lögð á að það sé ljóst í upphafi verkefnis hvaða leið á að fara og einnig hvað eigi að gera við þær niðurstöður sem fást úr íbúasamráðinu.

Sveitarstjórnir hafa frjálsar hendur með hvaða leiðir eru farnar því það er ekki nema í sambandi við skipulagsmál þar sem lagabókstafur segir til um lágmarks íbúasamráð sem felst í kynningu á skipulaginu og möguleika íbúa til að skila inn athugasemdum við það. Í handbókinni er mælt sérstaklega með góðu íbúasamráði ef farið er í stórt skipulags-, framkvæmda- og umhverfisverkefni.

Samkvæmt rannsókn sem Gunnar Helgi Kristinsson prófessor gerði þá er bein tenging á milli ánægju íbúa með þjónustu sveitarfélaganna og hversu vel sveitarfélögin standa sig í samráði við íbúa. Það er því til mikils að vinna í þessum málum fyrir sveitarfélagið.

Bæjarfélagið mitt, Akranes, hefur að mörgu leyti staðið sig vel í íbúasamráði og nægir þar að nefna Bæjarstjórn unga fólksins, Okkar Akranes, kosningu um framtíð sementsstrompsins og skipulag Sementsreitsins. Mælt er með því í handbókinni að sveitarfélög búi sér til meginreglur um íbúasamráð en eftir því sem ég kemst næst þá hefur Akraneskaupstaður ekki sett sér slíkar reglur.

Langisandur fyrir alla

Ástæða þess að ég hef velt fyrir mér íbúasamráði er mikill áhugi minn á ferli sem hófst í desember 2020 þegar Akraneskaupstaður fór af stað með „Hugmyndasamkeppni um svæði Langasands.“ Þar var farið af stað með það að markmiði að íbúar hefðu sem mesta aðkomu að skipulagi og uppbyggingu á svæðinu kringum Langasand. Greinilega mikill metnaður varðandi íbúasamráð sem þáverandi bæjarstjóri sagði réttilega að önnur sveitarfélög gætu tekið til fyrirmyndar. Þar sem Covid geisaði og því ekki aðstæður til að halda íbúafundi eða íbúaþing, þá var ráðist í að gera viðamikla viðhorfskönnun meðal íbúa. Hvort þátttakan í könnuninni teljist góð er erfitt að meta en ein af áskorunum íbúasamráðs er að fá fólk til að taka þátt. Alls tóku 348 íbúar þátt og sögðu sína skoðun, gáfu sín ráð. Kannski ekki há tala en til að setja hana í samhengi þá voru 319 atkvæði á bak við hvern bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í síðustu sveitarsjórnarkosningum hér á Akranesi 2022.

Öll framkvæmd þessarar samkeppni var til fyrirmyndar. Út frá viðhorfskönnuninni komu fram þrjár tillögur frá arkitektastofum um framtíðarskipulag við Langasand. Íbúar ásamt dómnefnd völdu tillöguna „Langisandur fyrir alla“ sem bestu tillöguna og virtist góð sátt með þá niðurstöðu sem Akraneskaupstaður og íbúar tóku þátt í að velja saman.

Viljayfirlýsing

Í desember 2022 fer að berast á milli manna að ráðast eigi í byggingu hótels á Jaðarsbökkum. Þann 7. mars 2023 skrifar þáverandi bæjarstjóri undir viljayfirlýsingu þess efnis að Akraneskaupstaður vilji í samstarfi við Knattspyrnufélag ÍA, ÍA og fasteignafélagið Ísold ráðast í framkvæmdir á Jaðarsbökkum og meðal annars byggja þar hótel og jafnvel íbúðir.

Viljayfirlýsing er skemmtilegt orð, í því felst yfirlýsing um að vilja eitthvað og þáverandi bæjarstjóri kvittar upp á þennan vilja fyrir hönd okkar íbúa vitandi að eitt af því sem kom afgerandi fram í viðhorfskönnun meðal íbúa (íbúasamráð) var að íbúar vildu ekki hótel eða aukna íbúðabyggð á þessu svæði.

Í handbók um íbúasamráð og þátttöku segir: „Málamyndasamráð grefur undan trausti íbúa á sveitarstjórnum og á aldrei rétt á sér. Þá er betra að sleppa samráði og kynna frekar ákvörðun og hvað liggur að baki hennar.“

Vantraust var sú tilfinning sem margir íbúar Akraness og þar með talið ég fundum fyrir þegar viljayfirlýsing þessi var undirrituð. Vorum við að taka þátt í íbúasamráði sem skipti engu máli? Af hverju voru niðurstöðurnar ekki notaðar til að taka ákvarðanir? Af hverju fengum við íbúar ekki að koma að ákvörðun um þá kúvendingu sem nú átti að taka í þessum málum?

Í viljayfirlýsingunni er ekki vörðuð leið í sambandi við íbúasamráð og það í raun ekki nefnt og Akraneskaupstaður gaf ekki út neina áætlun um íbúasamráð eftir að forsendur verkefnisins breyttust við undirritun viljayfirlýsingarinnar.

Frá því að viljayfirlýsing var undirrituð er hægt að nefna þrjá þætti sem lúta að íbúasamráði í því ferli sem nú fer fram um nýtt skipulag á Jaðarsbökkum, utan þess lögbundna.

Nr. 1. Á vef Akraneskaupstaðar var sett upp síða með spurningum og svörum um verkefnið og íbúum gefinn kostur á að senda inn spurningar. Gott dæmi um upplýsingagjöf.

Nr. 2. Starfshópur sem skipaður var samkvæmt viljayfirlýsingu, tók það sem kallað var íbúasamtöl en samkvæmt fundargerðum þá voru það aðallega samtöl við hagaðila. Í glærukynningu starfshópsins, sem var jafnframt lokaafurð þessa hóps, er talað um þessi samtöl við íbúa/hagaðila, en hvergi tekið fram hvaða aðferðafræði var beitt í þessum viðtölum, við hverja var talað, hve marga, aldursdreifingu o.s.fv.

Nr. 3. Kynningarfundur í Bíóhöllinni þann 28. október 2023. Þessi fundur flokkast undir upplýsingagjöf þar sem artkitektar kynntu fyrir bæjarbúum tillögur sínar að skipulagi á Jaðarsbökkum. Hvorki bæjarfulltrúar né forsvarsmenn starfshópsins sátu fyrir svörum en bæjarbúum gafst kostur á að spyrja arktitektana spjörunum úr. Höfðu þeir verið undirbúnir fyrir fundinn með þeim orðum að þetta væri „erfiður salur“. Þessi fundur var ekki beint til þess gerður að liðka fyrir íbúasamráði. Þess ber að geta að fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn gáfu kost á samtali nokkrum dögum eftir kynningarfundinn með því að boða til kaffispjalls. Það var vel og er gott dæmi um íbúasamráð.

Framhaldið

Mér finnst það bagalegt að í svo stóru máli eins og skipulag Jaðarsbakkasvæðisins er að það skuli ekki vera vandað til verka varðandi íbúasamráð. Þetta er ekki bara spurning um hótel eða ekki hótel heldur er um að ræða gríðarlega umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir á svæði sem skiptir íbúa Akraness miklu máli. Bæjarfulltrúar hafa lítið tjáð sig opinberlega og virðast ekki vera með neitt plan varðandi íbúasamráð. Lítið íbúasamráð skilar sér í lélegri upplýsingagjöf og veldur því að alls konar staðreyndavillur fara af stað, fólk skrafar eitt og annað á kaffistofum og á samfélagsmiðlum. Þetta veldur því einnig að bæjarbúar skiptast upp í tvær fylkingar, með og á móti og erfitt verður að gera hlutina saman. Þetta verkefni er þannig að sátt verður að ríkja um það meðal bæjarbúa. Þetta verður að vera okkar verkefni, verkefni sem við vinnum að saman.

Ég skora á bæjarstjórn að girða sig í brók og gefa okkur bæjarbúum meiri aðkomu að þessu verkefni. Með því fáið þið gagnlegar hugmyndir og getið um leið lagt fram ykkar rök fyrir þeirri vegferð sem þið eruð á. Ég veit að viljinn er fyrir hendi því að formaður bæjarráðs sagði fyrir síðustu kosningar: „Við eigum að vera ófeimin við að auka samtalið við íbúana, gera viðhorfskannanir og fáum raddirnar upp á borðið.“

Sjálfstæðismenn og Samfylking hafa svo fylgt þessum orðum eftir við myndun þess meirihluta sem nú starfar í bæjarstjórn. Í upphafsorðum málefnasamnings meirihlutans stendur: „Lögð verður áhersla á gott samstarf við íbúa og áframhaldandi uppbyggingu og þróun á virku íbúalýðræði.“

En bæjarstjórnin er ekki ein í þessu máli því KFÍA og ÍA eru það líka. Eftir því sem ég best veit hefur hvorugt þessara félaga kynnt þetta verkefni fyrir sínum félagsmönnum. Félagasamráð er jafn mikilvægt og íbúasamráð. Þetta verkefni er ekki einkamál stjórnar KFÍA og stjórnar ÍA. Eðlilegt væri að stjórnir þessara félaga myndu halda félagsfundi, kynna verkefnið og fá skoðanir og ráð hjá sínum félögum.

 

Kristleifur Skarphéðinn Brandsson

Höfundur býr á Skaganum, þar sem er skemmtilegt að búa.

 

Heimildir og gagnlegt lesefni

https://www.samband.is/wp-content/uploads/2020/05/lydraedisrit_loka.pdf

https://www.samband.is/verkefnin/lydraedi-mannrettindi/handbok-um-ibuasamrad-og-thatttok

u-ibua/

https://www.akranes.is/static/files/baejarstjorn/malefnasamningur-samfylkingar-og-sjalfstaedi

sflokksins-2022-2026-1-.pd