Hugleiðingar í hagræðingu

Þórdís Ingibjartsdóttir

Hagræðing getur verið af hinu góða en getur einnig snúist í andhverfu sína. Þetta er upplifun mín sem starfsmanns Fjöliðjunnar á Akranesi til 28 ára. Þau ár hafa verið lærdómsrík á marga vegu og m.a. kennt mér hvað það er sem skiptir máli. Hef ég stundum haft orð á því að það þyrftu allir að prófa Fjöliðju einhvern tímann á lífsleiðinni. Af hverju nefni ég það? Jú, það er svo mikill auður að tilheyra fjölskyldu sem er bara með eitt að markmiði; að efla fólk með fötlun eða skerta starfsgetu til þátttöku í samfélagi sem við erum stolt af og láta viðkomandi líða vel í vinnu og fara sátt heim. Það er ekkert sem toppar það að vera þátttakandi í að fólki líði vel og eflist á allan hátt með þeim verkfærum sem við leiðbeinendur notum í okkar vinnu.

Öryggi er stór þáttur í okkar stefnu í vinnunni því starfsmaðurinn verður að finnast hann öruggur og finna öryggi og traust frá leiðbeinendum og það öryggi getur tekið langan tíma að nást, en er að sjálfsögðu einstaklingsbundið.

Hvar er öryggi Fjöliðjunnar í dag?

Hvar er öryggi fólksins okkar sem við höfum lagt hjörtu okkar í að vinna með til margra ára?

Hvar er öryggið í framtíðinni?

Getum við byggt upp öryggi með misvísandi upplýsingum sem margir hverjir eiga erfitt með að vinna úr, hvað þá ef um algjöra U-beygju er að ræða?

Það er ekki auður í því að getað hagrætt tilfinningum annarra á excel skjali.

Við urðum fyrir því áfalli sem að flestir þekkja að Fjöliðjan brann og erum við búin að vera á hrakhólum í tæp þrjú ár. Það eina sem hefur drifið okkur áfram og gert okkur kleift að halda haus var traustið og trúin um það að þetta tæki enda og að Fjöliðjan yrði endurbyggð og að allt yrði gott. Hafist var handa við að setja saman vinnuhópa sem komu saman til skrafs og ráðagerða. Ekki ætla ég að fara út í það sem rætt var eða ákveðið því að það skiptir ekki máli lengur þar sem að stóra strokleðrið kom og þurrkaði út allt það sem niður var hripað og ákveðið sem innihélt hagsmuni Fjöliðjunnar. Eitthvað hefur þetta kostað en það skiptir heldur ekki máli í dag. Það sem skiptir máli er hagræðing. Það mætti kannski gera stuttmynd um hryllilega stóra strokleðrið sem réðist á mannauðinn í Fjöliðjunni?

En ég hef nú lítið um þetta að segja og ræð engu en það sem skiptir mig máli er fólkið okkar.

Með þeirri hagræðingu sem að bæjaryfirvöld kynna vilja þau varpa sprengju á Fjöliðjuna þannig að við höfum ekki kost á því að vinna sem ein heild og að okkar markmiðum sem hefur gefist svo vel fyrir okkar fólk.

Við viljum vera stolt af okkar samfélagi, ekki satt, og trúi ég og treysti að þetta verði ekki að veruleika. Við viljum halda áfram að vera Fjöliðjan og vinna sem ein heild.

 

Þórdís Ingibjartsdóttir.