Hugleiðing eftir kjördæmaviku

Sigurður Páll Jónsson

Í kjördæmavikunni á dögunum voru þingmenn í sínum kjördæmum á fundum. Í Norðvesturkjördæmi er mjög fjölbreytt flóra mannlífs og um leið misjöfn aðstaða atvinnuhátta, heilbrigðismála, raforkuöryggis, netsambands, ástand samgangna og svo mætti áfram telja. Við sem berum hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti og viljum stuðla að uppbyggingu hennar á öllum sviðum verðum að taka mið af röddum fólks á hverjum stað.

Í þau sex ár sem ég hef komið að pólitík í landsmálum hefur margt áorkast en annað gengið hægar svo sem samgöngubætur og raforkuafhendingar öryggi. Sjávarútvegur í Norðvesturkjördæmi á undir högg að sækja og spilar þar margt inn í svo sem veiðigjöld og fleira. Landbúnaður og þá sauðfjárbúskapur sérstaklega er með þeim hætti að sauðfjárbændur margir hverjir þurfa að vinna aðra vinnu með búskapnum til að komast af.

Fyrir ekki svo mörgum árum var atvinnuástand á Vestfjörðum sérstaklega suðurfjörðum frekar bágborið. Nú síðustu árin hefur uppbygging laxeldis á svæðinu gjörbreytt þessari mynd. En þeirri uppbyggingu fylgja töluverðar fæðingar hríðir, leyfi ég mér að segja. Saga vegasamgangna um Gufudalssveit á Barðaströnd er sorgarsaga sem er um tuttugu ára gömul og kannski orðin efni í heila bók.

Af þeim fjölmörgu þáttum sem þessir fundir í áðurnefndri kjördæmaviku fjölluðu um, er tvennt af mörgu, sem mig langar að nefna öðru fremur, það er að vinna úr stöðunni sem blasir við á hverjum stað lausnarmiðað og án mikillar notkunar á baksýnisspeglinum.

Talandi um baksýnisspegil þá byggðist Borgarnes upp á sínum tíma sem verslunar- og þjónustustaður að mestu fyrir héröðin í uppsveitum Borgarfjarðar og eins fyrir vestan og sunnan fjörðinn. Þar var sláturhús sem slátraði um og yfir 80 þúsund fjár á hausti, mjólkursamlag sem þjónaði öllu héraðinu og vestur á Snæfellsnes. Þar byggðist upp Sparisjóður Mýrasýslu sem kallaður var, hornsteinn í héraði og var vakandi fyrir allri uppbyggingu á þeim tíma, fleira mætti telja. Þessi þjónusta er fyrir nokkrum árum ekki á staðnum í dag, þó hefur hafist slátrun aftur að einhverju marki á ný og er það vel. Með tilkomu Borgarfjarðarbrúar (Halldóru) hefur þjónustan í kringum hana gert mikið fyrir staðinn. Það sem Borgarnes og nærsveitir misstu með því sem ég á undan taldi hefur reynst staðnum erfitt. Af því sögðu gladdi það mig mjög á fundi með sveitarstjórnarmönnum frá Snæfellsnesi, Vesturlandi, Borgarbyggð og Akranesi sem haldinn var á nýju og glæsilegu Hóteli B59 í Borgarnesi að menn skildu vera einróma um það að vinna úr málum sveitarfélaga eins og þau blasa við í dag með bjartsýnina að vopni. Tækifærin liggja í loftinu, við þurfum bara að rétta úr bakinu til að sjá þau.

 

Sigurður Páll Jónsson.

Höf. er þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

 

 

 

 

Fleiri aðsendar greinar