Hringvegur um Borgarnes

Ragnar Frank Kristjánsson

Undanfarin 40 ár hefur Vegagerðin og Borgarbyggð lagt til að fara með þjóðveg nr. 1 út í Hvítá austan við Brúartorgið og Bjargsland í Borgarnesi. Í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar 2022-2034 þá er eitt erfiðasta verkefni sveitarstjórnar að ákveða framtíðar staðsetningu þjóðvegar nr. 1 í gegnum Borgarnes. Allir sem hafa farið í gegnum Borgarnes vita að bærinn er langur og mjór, því ekki margir kostir er varðar nýtt vegstæði fyrir þjóðveg nr. 1, sem tekur tillit til umferðaröryggis, náttúruverndar og íbúabyggðar. Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu um málið enda mun hún hafa mikil áhrif á umhverfi, landslag og íbúa í Bjargslandi. Undirritaður hefur hugleitt málið í mörg ár, ritaði m.a. grein í Mbl. 22.6.2013 „Hjáleiðir til góðs“. Núverandi vegur í gegnum Borgarnes um Borgarbraut og að hringtorgi við Snæfellsnesveg er ekki góður m.t.t. umferðaröryggis og flæði umferðar.

Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022.

Vegagerðin hefur ekki látið kanna umhverfisáhrif leiðarinnar eða aðra kosti. Hjáleið út í Borgarfjörðinn hefur marga ókosti og margt bendir til að veglínan eigi erfitt með að komast í gegnum mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.  Kynna þarf fyrir íbúum í Borgarnesi hvað fyrirhuguð hjáleið út í Borgarfirði hafi á umferðarhávaða, breytingar á landslagi og útivistarsvæði.

Núverandi þjóðvegur fer um Brúartorg og Borgarbraut framhjá íbúabyggð og honum fylgir töluverður umferðarþungi og hávaði. Vegagerðin hefur bent sveitarfélaginu á að nauðsynlegt sé að fækka gatnamótum til að auka umferðaröryggi, en tíu aðkomuleiðir eru inn á núverandi þjóðveg. Skipulagslega séð er erfitt að fækka gatnamótum án þess að íþyngja íbúum.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar ákvað 2014 að fara í samræður við fulltrúa Vegagerðarinnar um umferðaröryggi á þjóðvegi 1 í gegnum Borgarnes, í framhaldi var skipuð nefnd af fulltrúum sveitarstjórnar og Vegagerðinnar. Árið 2017 kom út skýrsla þar sem m.a. var ákveðið að tryggja betra umferðaröryggi í gegnum Borgarnes með því að koma upp umferðarstýringu á Borgarbraut við tvö gatnamót í gegnum Borgarnes, en þau verða væntanlega komin upp í byrjun sumars.

Íbúabyggðin norðan við Brúartorg (Sandvíkin) liggur í um 2,5 metra hæð yfir sjó. Í aðalskipulagi Borgarbyggðar 2000-2022 er miðað við 5 metra flóðahættusvæði Hvítá, það er því nauðsynlegt að finna leið til verja byggðina. Það væri hægt að gera með uppbyggðum vegi sem byggður yrði út í fjörðinn framan við Sandvíkina á milli Brúartorgs og vestan við bæinn Bjarg.

Undiritaður leggur til að skoðaður verði nýr valkostur, það er að fara á milli Borgarbrautar og fyrirhugaðar hjáleiðar út í Borgarfjörðinn. Veglínan myndi liggja frá núverandi þjóðvegi við Brúartorg (bensínstöðvarnar), þar kæmi hringtorg til að leiða þá sem eiga erindi inn í Borgarnes. Meðfram strandlengjunni yrði um 800 metra langur vegur að klettunum vestan við bæinn Bjarg. Grafin yrðu 540 metra löng jarðgöng sem myndu liggja að Hrafnakletti og síðan kæmi 650 metra nýr vegur að núverandi hringtorgi við Snæfellsveg. Úr jarðgöngum yrði hægt að fá um 22.000 rúmmetra af burðarlagsefni sem hægt væri að nýta í vegagerðina. Fyrrnefnd leið hefur ekki verið skoðuð og metin, en margt bendir til að hún sé betri m.t.t. náttúruverndar, umferðarhávaða og fjáhagslegra hagsmuna.

Lagt er til að unnið verði mat á umhverfisáhrifum þriggja vegalína:

  1. Núverandi leið í gegnum Borgarnes, um Borgarbraut að hringtorgi Snæfellsnesvegar.
  2. Hjáleið út í Borgarfjörðin í samræmi við aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022.
  3. Vegstæði sem færi austan við Brúartorg og Sandvík, með jarðgöngum undir Bjarg og inn á núverandi þjóðveg norðan við Hrafnaklett og að hringtorgi við Snæfellsnesveg.

Rauð lína sýnir hugmynd að nýrri veglínu þjóðvegar nr.1.

 

Gera þarf arðsemismat framkvæmda. Ef hægt er að finna leið sem er hagkvæmari og meira í sátt við umhverfið þá er æskilegt að skoða þann kost.

Virðingarfyllst,

Ragnar Frank Kristjánsson, landslagsarkitekt FÍLA, hjá RFK umhverfisráðgjöf.