Horfum saman til framtíðar

Kristinn Jónasson

Í vor verða 28 ár síðan Snæfellsbær varð til við sameiningu fjögurra sveitarfélaga; Staðarsveitar, Breiðavíkurhrepps, Neshrepps utan Ennis og Ólafsvíkurkaupstaðar. Segja má að sú sameining hafi heppnast vel og íbúar sveitarfélagsins séu ánægðir hvernig til tókst bæði í dreifbýli og þéttbýli.  Okkur hefur tekist að byggja upp öflugt samfélag með sterka innviði og góða þjónustu. Hins vegar er mikilvægt að skoða stöðuna á hverjum tíma og hugsa til framtíðar hvað varðar uppbyggingu samfélagsins, íbúum til heilla. Þess vegna tók bæjarstjórn Snæfellsbæjar þá ákvörðun að óska eftir sameiningarviðræðum við Eyja- og Miklaholtshrepp.

Ástæða þess að bæjarstjórn Snæfellsbæjar telur skynsamlegt að sameina þessi sveitarfélög er sú að með því munum við efla bæði sveitarfélögin á svo margan hátt og þá sérstaklega dreifbýlið á sunnanverðu Snæfellsnesi.  Með sameiningu yrði ein landfræðileg heild frá Haffjarðará að Búlandshöfða sem skapar mikil tækifæri til framtíðar fyrir íbúa svæðisins alls.

Það er ekkert launungarmál að stærsta málið hvað varðar sameininguna er framtíð skólastarfs á sunnanverðu Snæfellsnesi. Það er mín skoðun að með sameiningu sveitarfélaganna getum við rekið einn öflugan dreifbýlisskóla, sem er lykilatriði fyrir öflugri byggð á svæðinu. Sú staðreynd að börnum á svæðinu hefur fækkað mikið er verkefni sem þarf að bregðast við með öflugri viðspyrnu og það gerum við með því að efla skólastarfið. Þannig fáum við unga fólkið til að vera áfram og nýja íbúa til að koma og búa á svæðinu.

Við í Snæfellsbæ erum ákaflega stolt af okkar skólastarfi og er skólinn á Lýsuhóli þar engin undantekning. Þar hefur í gegnum árin verið ákaflega kröftugt skólastarf með ýmsum skemmtilegum áherslum sem hafa vakið athygli á landsvísu. Nemendur sem hafa lokið námi frá Lýsuhólsskóla hafa skarað fram úr á mörgum sviðum sem segir margt um skólastarfið.

Atvinnutækifæri í dag eru það fjölbreytt að fólk getur í æ meira mæli unnið vinnu sína að stórum hluta heima frá sér sem er afar jákvætt. Bæði sveitarfélögin hafa byggt upp ljósleiðarakerfi sem er bylting í fjarskiptum fyrir fólkið í dreifbýlinu og jafnframt eykur möguleika á atvinnuþátttöku frá heimili.

Fjárhagsstaða beggja sveitarfélaga er góð og hefur því umræða um fjármál sveitarfélaganna ekki verið eins áberandi eins og í mörgum öðrum sameiningum sem er jákvætt.

Sú staðreynd að við sameiningu sveitarfélaganna komi tæpar 600 milljónir inn í samfélagið frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga gefur okkur síðan tækifæri á að efla svæðið og samfélagið í heild, enn frekar en nú er.

Sú spurning hefur komið fram hvort það muni breytast hvar fólk sæki þjónustu eins og t.d. verslun, læknisþjónustu og almenn aðföng svo eitthvað sé nefnt. Þá er því til að svara að sjálfsögðu breytist það ekkert og fólk sækir þjónustu á hverjum tíma sem hentar hverju sinni enda binda hreppamörk ekki hvert fólk vill fara í þeim efnum.  Hins vegar bind ég vonir við að samstarf og samvinna fólksins í dreifbýlinu verði enn meiri en nú er m.a. vegna þeirrar staðreyndar að einn öflugur skóli getur orðið „límið“ sem drífur það áfram eins og við þekkjum frá starfsemi Lýsuhólsskóla.

Starfsemin í Breiðabliki hefur verið að eflast á undanförnum árum og sé ég fyrir mér að hún muni eflast enn frekar og segja má að Breiðablik sé hliðið inn á Snæfellsnes fyrir ferðaþjónustuna. Halda má áfram að efla það sem boðið verður upp á þar með fjölbreyttari þjónustu fyrir svæðið og þá sem okkur heimsækja.

Ágætu íbúar! Þann 19. febrúar næstkomandi munu íbúar Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar kjósa um sameiningu sveitarfélaganna og skora ég á alla að mæta og nýta sér kosningarrétt sinn, það ætla ég að gera og segja JÁ.

 

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar.

Fleiri aðsendar greinar