Horft til baka

Gunnar Svanlaugsson

Það eru og hafa alltaf verið forréttindi að fá að vera félagi í ungmennafélagi. Ég undirritaður hef haft töluverða aðkomu að starfi Umf. Snæfells í tugi ára. Mest hef ég starfað með knattspyrnudeildinni, fyrst sem leikmaður og síðar þjálfari. Þá frjálsíþróttadeildinni, fyrst sem þátttakandi og síðar þjálfari og nú síðustu árin með körfuboltadeildinni, áður leikmaður og síðan stjórnarmaður.

Eftir námsár og átta ára kennslu við Héraðsskólann í Reykholti kom ég heim í Hólm 1984. Mjög fljótlega fór ég að láta mig starfið hjá Snæfelli skipta. Við Lára eignuðumst fjóra krakka sem öll ákváðu að stunda hvers kyns íþróttir. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé mjög farsælt fyrir foreldra að taka sem virkastan þátt í félagsstarfi barna sinna. Þeirri skoðun minni hef ég fylgt mjög eftir og svo mikið að krökkunum mínum hefur örugglega á einhverjum tímapunkti fundist nóg um.

Ég tók þátt í starfi frjálsíþróttaadeildarinnar sem formaður stjórnar á árunum 1996-2008. Á þessum árum voru innanfélagsmót, héraðsmót og landsmótin stærstu viðburðirnir og það var ávallt mjög gaman. Þáttakendur í Snæfelli og HSH voru til fyrirmyndar og stóðu sig frábærlega vel. Krakkarnir okkar unnu mörg afrekin á þessum landsmótum. Sannarlega var það fyrirmyndarbikarinn sem HSH fékk sem stendur upp úr og það nokkrum sinnum.

Árið 2009 var tekin sú ákvörðun að sameina stjórnir kvenna og karla í meistaraflokkum Snæfells í körfubolta. Fram að þeim tímama voru öflugar stjórnir í karladeildinni. Hjá stelpunum tóku nokkrir foreldrar sig til og stýrðu starfinu. Þjálfarar stelpnanna, Högni Friðrik og Baldur, sýndu starfinu mikinn metnað og öll þessi mikla samvinna skilaði liðinu upp í efstu deild hjá stelpunum.

Ég er þeirrar skoðunar að á þessum tímapunkti hafi þetta verið hárrétt ákvörðun. Með þessu nýtum við betur mannauð okkar til stjórnarsetu, einfölduðum ýmis prakísk atriði og nýtum peningana enn betur. Við tókum strax þá ákvörðun að hafa áfram metnað í þjálfarateyminu. Árin þarna á undan höfðum við verið mjög heppin með þjálfara

Ingi Þór Steinþórsson kom í Hólminn og stóð vaktina í 10 ár eða allt til vorsins 2019. Með honum fengum við hina ýmsu þjálfara til aðstoðar og tel ég mig enga móðga þótt ég nefni hér tvo þeirra, þ.e. Baldur Þorleifsson og Gunnlaug Smárason, en þeir hafa sýnt félagi okkar einstaka hlýju og gera enn. Hafið bestu þakkir fyrir það kæru vinir.

Þá vil ég senda Inga Þór sérstakar kveðjur og þakka honum fyrir allt og allt. Það var algjör unun að fá að vinna með slíkum meistara. Gangi þér og þinni fjölskyldu áfram vel, með góðum kveðjum og þakklæti frá Snæfellsfjölskyldunni.

Mér finnst við hæfi að renna yfir alla þá titla sem að hóparnir okkar skiluðu í Hólminn undir stjórn Inga Þórs, aðstoðarþjálfara og okkar í stjórninni. Við skulum aldrei gleyma öllum þeim gleðistundum sem að við veittum okkur sjálfum sem og stuðningsfólki úti um allan heim.

Á árunum 2009-2018 náðu liðin okkar að vinna alla titla einu sinni í meistaraflokki karla og kvenna. Það er meira en mörg stærri félög hafa náð að afreka.

Karlaliðið náði eftirfarandi árangri:

  • Bikarmeistarari í unglingaflokki karla, Snæfell/Skallagrímur (2009-2010)
  • Íslands- og bikarmeistarar karla, Snæfell (2009-2010)
  • Deildarmeistarar – Lengjubikarmeistarar – Meistarar meistaranna í mfl. karla, Snæfell (2010-2011)

Kvennaliðið náði eftirfarandi árangri:

  • Bikarmeistari í unglingaflokki kvenna (2010-2011)
  • Bikarmeistari í unglingaflokki kvenna (2011-2012)
  • Meistarar meistaranna – Lengjubikarmeistarar kvenna 2012-2013
  • Deildarmeistarar í Domino‘s deild kvenna og Íslandsmeistarar 2013-2014
  • Deildarmeistarar í Domino‘s deild kvenna, Íslandsmeistarar og Meistarar meistaranna 2014-2015
  • Bikarmeistarar Poweradebikars kvenna, Íslandsmeistarar, Meistarar meistaranna 2015-2016
  • Deildarmeistarar, Meistarar meistaranna 2016-2017

Á þessum tímamótum í lífi mínu hef ég ákveðið að stíga til hliðar. Það er hverju ungmennafélagi hollt að fá nýtt fólk til starfa. Ég lái engum að halda því fram að menn eins og ég hafi dvalið allt of lengi við stjórnvölinn. En þar sem að krakkarnir mínir hafa haft svo ótrúlega gaman af þessu sporti þá hef ég einnig elskað að vera með þeim í liði og það held ég að sé ein af betri uppskriftum að farsælu uppeldi eins og ég hef áður komið að.

Allir saman í liði!

Ég vil þakka öllum þátttakendum, innan vallar sem utan, foreldrum, stuðningsfólki, styrktaraðilum og síðast en ekki síst frábæru stjórnarfólki fyrir skemmtilegt og gefandi samstarf. Þá vil ég sérstaklega þakka Davíð Sveinssyni fyrir hans miklu vinnu fyrir Snæfell i gegn um árin. Það er

töluvert léttara að sinna formennsku í hvaða félagi sem er ef að gjaldkera starfið er í lagi og þannig hefur það verið hjá meistara Dabba alla tíð. Aðalstjórn Snæfells sendi ég mínar bestu þakkarkveðjur sem og formanni og stjórn HSH. Öflugt samstarf yngri flokka og meistaraflokka er gríðarlega mikilvægt hverju félagi. Þeirri vinnu hefur Jón Þór Eyþórsson formaður og stjórn hans sinnt með frábærum hætti og ber að þakka það. Þá vil ég senda mínar bestu þakkir til Vignis, Arnars og starfsfólks Íþróttamiðstöðvarinnar í Stykkishólmi. Íbúar sem og bæjaryfirvöld í Stykkishólmi – bestu þakkir fyrir ykkar öfluga stuðning hingað til.

Þá vil ég einnig senda stjórnarfólki KKÍ innilegar kveðjur með þakklæti fyrir frábært samstarf. Öllum öðrum körfuboltaliðum þakka ég samstarfið. Ég hef notið hverrar stundar í þessu félagsstarfi og vona svo innilega að það hafi átt við okkur fleiri.

Ég hvet alla til að styðja unga fólkið til áframhaldandi þátttöku í einhverju því sem ungmennafélögin bjóða upp á á sínu heimasvæði. Það skiptir í raun litlu hvert viðfangsefnið er. Eina sem við skulum kappkosta, á hvaða aldri sem að við erum, er að allir séu að gera eitthvað – við skiptum öll máli. Eingöngu þannig höldum við áfram að efla okkar mikilvæga starf og gera lífið ennþá skemmtilegra. Ég skora á alla að styðja áfram við öflugt ungmennafélagsstarf á Islandi.

Brostu – þá er líklegra að þú fáir bros á móti.

Takk fyrir mig,

Gunnar Svanlaugsson.

Gunnar Svanlaugsson ásamt Láru Guðmundsdóttur og dætrum þeirra Gunnhildi og Berglindi með Íslandsmeistarabikarinn. Ljósm. úr safni/ þe.

Karlalið Snæfells sem varð Íslandsmeistari 2009-2010. Ljósm. úr safni/ þe.

Snæfellskonur fagna bikarmeistaratitli í Laugardalshöll. Ljósm. úr safni/ sá.

Stuðningsmenn Snæfells á pöllunum í Stykkishólmi. Ljósm. úr safni/ sá.

Fleiri aðsendar greinar