Holtavörðuheiðarlína

Sigurður og Ragnhildur Eva skrifa

Mikið hefur verið rætt og ritað um orkuskipti, raforkuskort, orkuöflun og bætt flutnings mannvirki raforku. Til að mögulegt sé að þróa íslenskt samfélag og atvinnulíf til framtíðar er mikilvægt að bæta flutningskerfi og raforkuöflun. Raforka sem framleidd er á vistvænan hátt og nýting hennar, er lykilatriði í framtíðarmöguleikum Íslands til aukinnar velmegunar.  Lagning Holtavörðuheiðarlínu er eitt af þeim atriðum sem þarf til að bæta flutningskerfið, skapa möguleika á bættri nýtingu virkjana og auka raforkuöryggi t.d. í Borgarbyggð, en farið er að bera á bilunum í raforkuafhendingu í Borgarbyggð, sem meðal annars hefur verið rakið til mikils álags á raforkukerfinu.

Landsnet ber ábyrgð á megin flutningskerfi landsins og hefur undanfarin ár unnið að því að styrkja byggðalínuna frá Austurlandi um Norðurland til Suðvesturlands.  Leiðin sem áformuð er frá Holtavörðuheiði til Brennimels í Hvalfirði, nefnd Holtavörðuheiðarlína, á að liggja um sveitir Borgarfjarðar og Hvalfjarðar, leiðin liggur um fjögur sveitarfélög og tugi jarða. Að leggja Holtavörðuheiðarlínu er mjög krefjandi verkefni svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Nokkuð ljóst er að Holtavörðuheiðarlínan mun hafa neikvæð áhrif á jarðir sem línan mun liggja um. Áhrifin á jarðirnar eru mismikil. Þegar horft er til umræðunnar og þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið við matsskýrslu Landsnets, gefur það tilefni til að ætla að greiðslur fyrir fyrir afnot af landi þar sem línan fer um, séu ekki ásættanlegar hjá þeim sem láta land undir línuna.  Það vekur upp þá spurningu, hvort eðlilegt sé að ákveðnum hópi þjóðfélagsins beri að færa fórnir til þess að annar þjóðfélagshópur njóti aukinna gæða, án þess að fá sanngjarnt endurgjald fyrir.

Í þessu umhverfi, þar sem landeigendum finnst troðið á sér án nægjanlegra bóta, er Landsnet að vinna við undirbúning að Holtavörðuheiðarlínu og veldur því að verkefnið er mjög snúið fyrir alla aðila.  Landsnet er búið að vinna undanfarin misseri að valkostagreiningu á línulögninni og hefur kynnt sinn aðalvalkost og lagt fram matsskýrslu með aðalvalkosti Landsnets fyrir línuna. Þó Landsnet sé búið að gefa út sinn aðalvalkost, þá er mikil vinna eftir hjá þeim, þar sem ekki er búið að semja endanlega um línulögnina við hvern og einn landeiganda og fyrr er ekki æskilegt að leggja fram skipulag til meðferðar hjá sveitarfélögunum fjórum eða til raflínunefndar ef hún verður skipuð.

Landsnet hefur tvisvar óskað eftir því við ráðuneytið að skipuð verði sérstök raflínunefnd fyrir Holtavörðuheiðarlínuna til að auðvelda skipulagsferlið og framkvæmdaleyfið. Fyrri ósk Landsnets frá fyrri hluta árs 2024 var hafnað af ráðuneytinu, þar sem ekki var talið tilefni til skipunar nefndarinnar að svo stöddu enda enginn ágreiningur uppi milli sveitarfélaga á línuleiðinni. Í kjölfar víðtæks rafmagnsleysis óskaði Landsnet aftur eftir því við ráðuneytið að raflínunefnd Holtavörðuheiðarlínu yrði stofnuð. Sveitarstjórn Borgarbyggðar taldi ekki ástæðu til að skipa í raflínunefnd að svo komnu máli í sinni umsögn til ráðuneytisins.  Fyrir því eru í raun tvær ástæður. Landsnet hefur ekki lokið samningum eða eignarnámi á línuleiðinni og því er ekki endanlegt skipulag fyrir línuna klárt til umfjöllunar. Því til viðbótar er ekki ágreiningur á milli sveitarfélaga um línuleiðina.

Áhersla Landsnets á að stofna raflínunefnd í fyrsta skipti virðist byggjast á þeirri skoðun Landsnets að það flýti fyrir verkefninu á þessu stigi. Mjög erfitt er að sjá að það verði raunin, þar sem næsta verkefni Landsnets er, og verður að vera, samningar við landeigendur. Það verkefni verður Landsnet að klára áður en það kemur að endnlegri afgreiðslu skipulags og veitingu framkvæmdaleyfis. Þegar samningar við landeigendur liggja fyrir þá ætti að vera auðvelt að klára skipulagið og samþykkja það hjá sveitarfélögunum eða eftir atvikum raflínunefndinni. Stofnun raflínunefndar getur á þessum tíma punkti ekki hjálpað eða flýtt fyrir verkefninu. Eitt af því sem getur hjálpað Landsneti í þessari vinnu er að nálgast samningaviðræður við landeigendur á þann hátt að bæta raunverulega og á sanngjarnan hátt þær fórnir sem landeigendur færa til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

 

Sigurður Guðmundsson

Ragnhildur Eva Jónsdóttir

Höfundar eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar

 

Háspennumastur reist. Ljósm. Landsnet