Höldum áfram!

Rakel og Ólafur

Við lok kjörtímabils og þegar kosningabarátta um skipan næstu bæjarstjórnar stendur hæst er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og huga að þeim kostum sem íbúar á Akranesi standa frammi fyrir í kjörklefanum á laugardaginn.

Í síðustu kosningum hlaut Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í bæjarstjórn og hefur því ásamt Bjartri framtíð borið höfuðábyrgð á rekstri og stefnu bæjarfélagsins síðustu fjögur ár. Meirihlutinn setti sér mörg markmið en í stuttu máli voru þau helst að veita bæjarbúum góða þjónustu með hagsmuni þeirra að leiðarljósi en jafnframt að tryggja ábyrga stjórnsýslu og fjármálastjórnun og stuðla að góðu samstarfi við alla flokka í bæjarstjórn.

Um margt er erfitt að mæla á einhlítan hátt hvort stór samfélög stefni í átt til blómlegri byggðar og betra mannlífs.  Til þess eru þarfir og væntingar íbúanna of ólíkar og mælitækin óræð á köflum. Fjárhagslegu mælitækin hafa alltaf verið til staðar og á síðari árum hefur með könnunum og samanburði á milli sveitarfélaga tekist að greina betur hversu góða leið samfélögin stefna.

Undanfarna daga og vikur hafa borist fjölmargar fréttir sem með óyggjandi hætti staðfesta að á allra síðustu árum hefur rekstur Akraneskaupstaðar og mannlíf í bæjarfélaginu stefnt hraðbyri í rétta átt.

Fjárhagslegur styrkur Akraneskaupstaðar er nú einn þriggja bestu á landinu þegar horft er til sveitarfélaga og á sama tíma er hér ódýrast að búa með tilliti til skatta og gjalda bæjarfélagsins. Þá eru íbúar á Akranesi með þeim ánægðari þegar kemur að þjónustu leik- og grunnskóla bæjarins. Eftirsókn eftir búsetu hér sannar þetta líka ágætlega, enda fjölgar íbúum hratt. Hér er einfaldalega best að búa.

Þrátt fyrir staðfestu bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarfélagsins hefði sá góði árangur, sem náðst hefur á yfirstandandi kjörtímabili, ekki orðið raunin nema með miklum stuðningi bæjarbúa. Þeim stuðningi hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fundið fyrir og vilja þakka hann nú.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins vilja halda áfram á þessari braut. Aukinn fjárhagslegur styrkur hefur nú skapað meira rými til framkvæmda og ennþá betri þjónustu við bæjarbúa. Á undanförnum vikum höfum við kynnt viðamikla stefnuskrá okkar. Við viljum áfram stuðla að iðandi mannlífi í fallegum bæ með sterku skólasamfélagi og fjölbreyttu atvinnulífi sem byggir á traustum innviðum. Margvíslegar framkvæmdir eru nú þegar hafnar og fleiri hafa verið skipulagðar til að mynda þjónustuíbúðir fyrir aldraða við Dalbraut og undirbúningur á uppbyggingu nýs íbúðakjarna fyrir fólk með skerta færni. Þetta getum við gert með góðu skipulagi án þess að raska fjárhagslegum styrk.

En baráttan fyrir betra samfélagi snýst ekki einungis um rekstur bæjarfélagsins sjálfs. Við munum berjast áfram fyrir hagsmunum íbúa á Akranesi á landsvísu hvar sem því verður við komið. Þar horfum við sérstaklega til löngu tímabærra aðgerða í samgöngumálum og uppbyggingu atvinnulífs.

Á laugardaginn er komið að vali íbúa Akraness. Í góðum byr með rétta og árangursríka stefnu viljum við áfram halda um stjórnvölinn. Með góðum stuðningi bæjarbúa tekst okkur það. Höldum áfram og kjósum XD.

 

Rakel Óskarsdóttir og Ólafur Adolfsson

Höfundar skipa 1.sæti og 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi við bæjarstjórnarkosningarnar í vor.

Fleiri aðsendar greinar