Höldum áfram og gerum lífið betra

Sandra Margrét Sigurjónsdóttir

Fyrir fjölskyldufólk er mikilvægt að börn og ungmenni hafi góða umgjörð. Það er gott að búa á Akranesi með börn og tækifærin til að gera það enn betra eru í höndum okkar Skagamanna. Öll erum við ólík og höfum hæfileika hvert á sínu sviði. Það er mikilvægt að veita börnum og ungmennum tækifæri til þess að þroska og efla sína hæfileika. Þar búum við Akurnesingar vel með öflugt skólastarf, tónlistarskóla, fjölbreytt atvinnulíf, sterka íþróttahreyfingu, virka menningarstarfsemi og frístundastarf þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þá er nálægðin við náttúruna, bæði fjall og fjöru, sveitina og sjóinn mikil auðlind í þessu sambandi.

 

Sterkt skólasamfélag

Skólar- og leikskólar og tónlistarskóli Akraneskaupstaðar eru vel mannaðir vel menntuðu fólki og umgjörðin er góð. Leik- og grunnskólar bæjarins byggja á ólíkum straumum og stefnum í skólastarfi og hver skóli hefur sinn skólabrag. Þessi fjölbreytileiki er styrkur sem styður við að ólíkir hæfileikar fái notið sín á Akranesi. Mikilvægi framhaldsskólans, FVA, verður seint ofmetið. Þar býðst ungmennunum okkar fjölbreytt nám, bæði bóklegt og verklegt sem gefur unga fólkinu kost á að stunda nám lengur í bæjarfélaginu og það er mikilvægt verkefni bæjarstjórnar að hlúa að Fjölbrautaskólanum. Þrátt fyrir að skólinn sé ríkisrekinn þá geta bæjaryfirvöld á hverjum tíma haft áhrif. Þar má velta því upp hvort frekara samstarf milli tónlistarskólans og FVA sé tækifæri til að styrkja stoðir beggja skóla og skapa sérstöðu. Það var flottur afrakstur slíkrar samvinnu á fjölum Bíóhallarinnar nýlega, leiksýningin „Með allt á hreinu“. Frammistaða nemenda var stórkostleg og fyllti mitt Skagahjarta af stolti.

 

Heilsuefling og forvarnir

Samstarf kaupstaðarins við íþróttafélögin er gott en þar eru engu að síður sóknarfæri. Það er mikilvægt að horfa til forvarnargildis íþrótta ekki síður en að hlúa að afreksfólki. Það er frábært að eiga íþróttamenn í fremstu röð og það er mikilvægt að styðja við þá.  Jafnframt er mikilvægt að halda börnum og ungmennum í skipulögðu íþróttastarfi eins lengi og kostur er. Þar tel ég að sé sóknarfæri í því að fylgjast betur með brottfalli og rýna hvað veldur á hverjum stað, aðlaga starfið og leita leiða til að minnka brottfall. Rannsóknir hafa sýnt að þátttaka í íþróttum og öðru tómstundastarfi hefur verulegt forvarnargildi þegar kemur að notkun ávana- og fíkniefna og því eru það hagsmunir allra að við náum árangri saman í þessu.

 

Samfella í skóla- og frístundastarfi

Nálægðin í samfélaginu gefur okkur tækifæri til að búa til enn frekari samfellu í skóla- og frístundastarfi. Í dag er það áskorun fyrir foreldra barna í yngstu bekkjum grunnskólans að veita börnunum tækifæri til að velja sér íþróttir eða tómstundir óháð búsetu og óháð því hvar foreldrarnir stunda vinnu. Við þurfum að jafna þennan aðstöðumun og tryggja að börn geti valið íþróttir og tómstundir út frá áhugasviði. Það getum við gert með því að hafa skipulagða fylgd til og frá íþrótta- og tómstundastarfi fyrir yngstu börnin. Jafnframt þarf að huga að opnunartíma frístundamiðstöðvar fyrir yngstu bekki grunnskólanna. Í dag er frístundamiðstöðin í Grundaskóla opin til 16:30 og frístundamiðstöðin í Brekkubæjarskóla til 16:15. Ég þekki það af eigin raun að það er flókið að púsla því saman að ná að sækja barnið á réttum tíma fyrir fólk sem sækir vinnu annars staðar en á Akranesi. Við þurfum að halda áfram, gera betur og laga þessi atriði til að minnka álag á barnafjölskyldur á Akranesi.

 

Gerum lífið betra á Akranesi

Á Akranesi eiga fjölbreyttir hæfileikar barna og ungmenna að fá að njóta sín í faglegu og metnaðarfullu skólasamfélagi sem byggir á styrkleika nærumhverfisins, samstarfi og samfellu í skóla- og frístundastarfi. Það er gott að búa á Akranesi og við Akurnesingar eigum alla möguleika á að gera lífið hér á Skaganum enn betra.

 

Sandra Margrét Sigurjónsdóttir.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Fleiri aðsendar greinar