Höfum unga fólkið með í ráðum

Thelma Harðardóttir

Eitt af mínum fyrstu verkefnum sem frambjóðandi í komandi sveitarstjórnarkosningum var að sitja ungmennaþing Vesturlands sem haldið var á Lýsuhóli um miðjan mars síðastliðinn. Um fyrsta ungmennaþingið var að ræða síðan 2018, en líkt og svo margt annað hefur það þurft að liggja í dvala vegna heimsfaraldursins. Ungmennin sem tóku þátt á þinginu komu málefnum sínum skýrt á framfæri og voru glæsilegir fulltrúar yngri kynslóðarinnar á Vesturlandi. Opnuðu þau jafnframt augu mín fyrir mikilvægi þess að hafa þau með í ráðum, ekki bara á tillidögum endrum og sinnum, heldur með reglubundnum hætti.

Á þinginu komu fram frábærar hugmyndir og tillögur, m.a. um hvað hægt væri að bæta í starfi grunnskólanna á Vesturlandi. Var helst að sjá ákall eftir aukinni kyn- og kynjafræði ásamt fræðslu um andlega heilsu, og aukið fjármálalæsi. Námsgreininni lífsleikni er ætlað að stuðla að því að byggja upp alhliða þroska nemenda. Hafa þeir þættir sem ungmennin nefndu á þinginu því fallið að mestu undir þá námsgrein. Af framsögu ungmennanna mátti þó heyra að lífsleiknikennslu væri ekki eins háttað í hverjum skóla og skýrist það af stöðu hvers skóla fyrir sig við val á áhersluatriðum í kennslunni. Ekki ætla ég að lengja mál mitt með skoðunum mínum um mikilvægi þess að endurskoða aðalnámskrá grunnskólanna, en skemmst er frá því að segja að sú námskrá sem í gildi er í dag byggir á úreltum viðmiðum að mati unga fólksins. Þar er ég sammála.

Aðalnámskrá verður vissulega seint breytt á sveitarstjórnarstigi, en sveitarfélagið getur engu að síður gert ýmislegt til að koma til móts við stöðu grunnskólabarna hvað varðar þessa málaflokka sem falla undir lífsleikni. Aukin áhersla á heimsóknir sérfræðinga á ofangreindum sviðum inn í grunnskólanna með fræðsluerindi og -fyrirlestra er úrræði sem gæti leyst hluta vandans. Það þarf ekki síður að leggja áherslu á að við getum orðið sjálfbær um þessa þekkingu innan sveitarfélagsins með því að styðja grunnskólakennarana okkar til endurmenntunar og sérhæfingar í fögum sem tengjast lífsleikni. Með þessari nálgun getum við komið til móts við vilja unga fólksins okkar. En hvernig vitum við hvað börnin hafa áhuga á að læra sérstaklega um?

Áhugi á lýðræðinu helst í hendur við fræðsluna

Með ungmennaráði Borgarbyggðar er ungu fólki í sveitarfélaginu veittur vettvangur til að koma skoðunum sínum á framfæri, um þau málefni sem þau snerta, við þá sem stýra sveitarfélaginu. Tækifærin til þess að leyfa unga fólkinu okkar að hafa áhrif eru því sannarlega til staðar. Með þessu fyrirkomulagi fylgir Borgarbyggð jafnframt eftir ákvæðum 12. og 13. greinar Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. En betur má ef duga skal.

Til þess að auka þátttöku unga fólksins í samfélaginu, fá þau til þess að láta í sér heyra og kynna þau fyrir kröftum lýðræðisins þurfum við að fræða þau um þá möguleika sem þeim bjóðast til að hafa áhrif þó þau hafi ekki kosningarétt. Möguleiki þeirra á áheyrn skólastjórnenda, fræðslunefndar og sveitarstjórnar á að vera þeim augljós og þau ætti að hvetja til þess að nýta sér þessi verkfæri lýðræðisins. Fræðslan á þessum möguleikum þarf að bjóðast inni í skólakerfinu, í tómstundunum og þá þarf samtal við sveitarfélagið að vera þeim aðgengilegt, til að mynda í gegnum netmiðla. Að sama skapi þurfa kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins að vera tilbúnir til þess að hlusta og taka mark á því sem við erum krafin um.

Á þetta munu frambjóðendur Vinstri grænna í Borgarbyggð leggja áherslu, að tryggja bæði fræðslu og tækifæri til þess að unga fólkið geti látið okkur vita hverjar þeirra kröfur til samfélagsins eru. Það er partur af farsælli framtíð unga fólksins okkar og sveitarfélagsins í heild.

 

Thelma Harðardóttir

Höfundur er oddviti Vinstri grænna í Borgarbyggð