HM – Fótbolti – Siðferði

Trausti Gylfason

Það hefur varla farið fram hjá neinum að heimsmeistarakeppnin í fótbolta karla er hafin (HM). Af því tilefni var gerð könnun meðal nemenda FVA á rafiðnaðarbraut. Spáð var hvaða land myndi standa sig best og  verða sigurvegari. Á meðan nemendur hugsuðu sig um var tekin umræða um réttlætingu þess að halda keppnina í Katar. Mikil mismunun er í menningunni. Konur hafa ekki sama rétt og karlar. Hinsegin fólk má t.d. ekki leiðast opinberlega. Knattspyrnuvellirnir hafa verið reistir af erlendum farandverkamönnum, vegabréf tekið af þeim og laun þeirra lág og þeir hafa takmarkaðan rétt. Margir nemendur voru upplýstir um þessa mismunun og vissu til þess að skv. opinberum tölum í Katar hafa 6500 verkamenn látið lífið í byggingaframkvæmdum fyrir HM.

Um 1/3 nemenda ætla ekki að horfa á HM. Ýmist vegna misréttisins eða að þeir hafa ekki snefil af áhuga á knattspyrnu. Um ¼ nemenda hefur mikinn áhuga og ætla ekki að missa af leikjum. Aðrir ætla að horfa á einn og einn leik en ætla að horfa í lok keppninnar þegar mest spennandi leikirnir fara fram.

Hvað sem líður afstöðu nemenda í rafvirkjun í FVA til HM komst enginn upp með að nefna ekki liðið/landið sem þeir halda með. Það má heldur ekki gleyma fagurfræðinni í íþróttinni en knattspyrnuíþróttin er væntanlega vinsælust í heimi. Aðeins ein íþrótt er vinsælli hér á Íslandi en það er sund. Þau sem sækja sundlaugar landsins eru fjölmennari en allir þeir sem iðka knattspyrnu eða kaupa sig inn á leiki. Skráning á sundstaði landsins staðfesta það.

Niðurstöður nemenda rafiðnaðardeildarinnar má finna í meðfylgjandi grafi.

Áfram Ísland!

Trausti Gylfason
Höfundur er kennari í FVA