Hlutafélag með skylduaðild?

Steinar Berg

Í Skessuhorni fyrir þremur vikum birtist frétt þar sem sagt var frá að Veiðifélag Grímsár og Tunguár hefði verið sýknað að kröfu ábúenda í Fossatúni um að gisti- og veitingasala væri ekki heimil utan laxveiðitímans. Þetta mál á sér langa forsögu og rétt að útskýra í stuttu máli hvernig það er til komið.

Við hjón keyptum lögbýli og lögðum í uppbyggingu atvinnureksturs í Fossatúni árið 2001 og urðum þar með aðilar í Veiðifélag Grímsár og Tunguár. Árið eftir ákvað veiðifélagið að fara út í almennan samkeppnisrekstur í veiðihúsi sínu utan veiðitímans. Við spurðumst fyrir um þessa ákvörðun og var sagt að veiðifélaginu bæri skylda skv. lögum að „hámarka arð“ aðildarfélaga og þessi leið hefði verið valin. Við tókum þetta trúanlegt, vildum góða sambúð og undirritaður tók að sér að verða endurskoðandi fyrir veiðifélagið. Eftir að hafa kynnst rekstrinum tók ég eftir að rekstur veiðihúsins var taprekstur á hverju ári eða samtals um 31 milljón króna samkvæmt ársreikningum tímabilið 2000-2009. Þetta jafngilti að Fossatún greiddi 1,6 m.kr. (núvirt) með rekstri veiðihússins á þessu tímabili. Ég lét af endurskoðendastörfum eftir 2009. Við fögnum eðlilegri samkeppni, en fannst sérkennilegt að vera skylduð til að vera í félagi sem lagði í miklar fjárfestingar og ódýra leigu húsnæðis síns til að standa í almennum samkeppnisrekstri gegn okkur. Efasemdir ágerðust eftir að hafa fengið staðfest að svartur atvinnurekstur var stundaður í veiðihúsinu. Við vorum sem sagt að niðurgreiða með laxveiðitekjum rekstur sem skapaði okkur ójafna samkeppnisaðstöðu og fjárhagslegan skaða.

Við kynntum okkur málið, lásum lögin um lax- og silungsveiði og fengum lögfræðiálit. Fannst blasa við að lögbundið hlutverk veiðifélaga takmarkaðist við hið skilgreinda markmið, sjálfbærni og fiskrækt. Ekki væri hægt að víkka það út til almenns samkeppnisreksturs með hámörkun arðsemi að markmiði. Við bárum okkur upp við stjórn en var vísað á Fiskistofu og dómstóla. Úr varð nokkurra ára kostnaðarsöm þrautaganga sem lauk í Hæstirétti Íslands í mars 2014. Niðurstaðan þar staðfesti að almennur samkeppnisrekstur utan veiðitíma væri ekki í nánu samhengi við markmið lax- og silungveiðilaganna og ekki heimill nema að fengnu samþykki allra félagsmanna. Sem sagt, við unnum málið. Gátum loks aftur hafist handa og fjárfestum á næstu misserum 100 m.kr. til uppbygginar í Fossatúni.

Réttum tveim árum eftir Hæstaréttardóminn fréttum við að veiðifélagið hefði tekið upp þráðinn og hafið rekstur í veiðihúsinu. Lærðum líka hvernig það kom til. Að höfðu samráði við formann veiðifélagsins átti formaður Landssambans veiðifélaga fund með landbúnaðarráðherra skömmu eftir niðurstöðu Hæstaréttar 2014. Í framhaldi fól ráðherrann formanninum að vinna tillögu að lagabreytingu til að gera Hæstaréttardóminn í máli okkar óvirkan og að veiðfélögum yrði heimilt að standa að almennum samkeppnisrekstri utan laxveiðitímans. Frumvarpið var lagt fram og formaðurinn varð síðan leiðbeinandi atvinnuveganefndar í málinu. Frumvarpið var afgreitt óbreytt, án umræðu í kranaafgreiðslu á síðasta degi þings 2015.

Alþingi ber að leita eftir víðtækum og andstæðum sjónarmiðum við undirbúning lagasetningar. Sé ákveðið að bregðast við dómsniðurstöðu með lagasetningu er sjálfsagt að sjónarmið beggja málsaðila komi fram. Atvinnuveganefnd ákvað að leita hvorki eftir áliti aðilans sem vann í Hæstarétti, né annarra sem lögin kynnu að varða s.s. Samtök ferðaþjónustunnar. Heldur reiða sig gagnrýnislaust á ráðgjöf hagsmunaaðilans sem tapaði málinu og skrifaði lagabreytinguna. Þá þótti óþarft að kanna hvort lagaákvæðið samræmdist markmiðum lax- og silungsveiðilaganna og þar með stjórnarskránni.

Stjórnarskránni er ætlað að vernda rétt einstaklinga og kveður á um félagafrelsi þ.e. að ekki megi skylda fólk til þátttöku í félögum. Komi til undantekningar þar á skal það grundvallað á skýrum sameiginlegum hagsmunum. Í veiðifélagi er það sameiginlegt fiskisvæði sem aðildarfélögum ber að rækta og stuðla að sjálfbærni á. Bygging og rekstur veiðihúsa til þjónustu við veiðimenn var skiljanlegt á sínum tíma enda gistimöguleikar til sveita strjálir á síðustu öld. Lúxusvædd heilsárs gisti- og veitingaþjónusta á tímum nægs framboðs slíkrar þjónustu er hins vegar áhættufjárfesting og -rekstur, sem rýrir arð aðildarfélaga í veiðfélögum og hækkar verð til veiðimanna. Veiðifélag er í raun umönnunaraðili sameiginlegrar fasteignar og heildsali fyrir heildarveiðirétt fiskisvæðis en leigutakinn er smásali, sem selur stök veiðileyfi. Starfsemi veiðifélaga fellur undir lax- og silungsveiðilögin en sölu- og markaðsstarfssemi leigutaka gerir það ekki.

Við leituðum eftir við Alþingi hvort ferli og niðurstaða lagasetningarinnar fengist rædd þar innandyra og hugsanlega endurskoðuð. Svarið var sniðganga. Við ákváðum að leita aftur til dómstóla. Eins og í fyrri umferðinni þá var niðustaða Héraðsdóms Vesturlands sú að almennur rekstur veitinga- og gistiþjónustu utan laxveiðitímans samræmist lögum um lax- og silungsveiði og þar með skylduaðildinni. Hæstiréttur Íslands komst að annarri niðurstöðu árið 2014 og við ábúendur í Fossatúni þá eins og nú erum ósammála Héraðsdómi Vesturlands og höfum því aftur áfrýjað niðurstöðunni.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur boðað endurflutning á frumvarpi frá síðasta þingi um minnihlutavernd í lax- og silungsveiðilögunum. Við skiluðum inn umsögn og fögnuðum umræðu og áherslu á aukna minnihlutavernd í veiðifélögum. Bentum á að Hæstiréttur dæmdi okkur minnihlutavernd sem Alþingi reyndi að afnema. Nú væri tækifæri til að leiðrétta það t.d. til samræmis við hæstaréttardóminn. Væntanlegt frumvarp um minnihlutavernd á sér upphaf í að enskur auðmaður eignaðist laxveiðijarðir á Austurlandi. Nú óttast bændur sem eru i veiðifélagi með honum að hann kunni að nota meirihlutavald sitt til þess að friða árnar og svipta þá veiðirétti. Við í Fossatúni höfum bent atvinnuveganefnd og ráðherra á lausn. Að skylduaðild að veiðifélögum fiskisvæða sé barn síns tíma og sérstakt íslenskt fyrirbæri sem tímabært sé að endurskoða. Byrja t.d. með að gera skylduaðildina valkvæða. Að hún taki einungis til veiðiréttareigenda sem vilja láta veiða fyrir sínu landi en ekki þeirra sem vilja friða sitt svæði.

Við ábúendur í Fossatúni leituðum upphaflega réttar okkar vegna óeðlilegrar samkeppni og fjárhaglegs skaða sem stefndi uppbyggingu reksturs okkar í hættu. Núna erum að leita eftir skýrum leikreglum. Að virkni laganna sé í samræmi við lagabókstafinn. Vegna skylduaðildar er veiðifélögum ætlað að starfa innan þröngs og skýrs lagaramma. Þessi mörk hafa óskýrst og verið teygð inn á vettvang starfsemi leigutaka. Þá hefur meirihlutaræði orðið ráðandi og minnihlutavernd allt að því horfið. Virknin er víða orðin eins og hjá hlutafélögum. Er hægt að hafa skylduaðild að hlutafélögum?

 

Steinar Berg í Fossatúni

Fleiri aðsendar greinar