Hleypið okkur úr þessu pulsupartýi!

Ásthildur Ósk Ragnarsdóttir og Kristín Sigurgeirsdóttir

Eftir fréttir af prófkjörum síðustu daga hefur læðst að okkur sú tilfinning að jafnréttissjónarmiðum hafi verið sturtað niður um klósettið. Fréttir af sumum listum eru æpandi skilaboð um að konur eigi að halda sig heimavið, það sé engin þörf fyrir þeirra sjónarmið í stjórnmálum. En er það ekki bara allt í lagi? Eru konur svona mikið verri í pólitík? Svona eins og þær eru betri í að skúra? Stjórnmálaheimurinn er afar karllægur heimur. Eiginlega eitt stórt pulsupartý þar sem guggunum er ekkert boðið.

Íslenskt samfélag þarf bráðnauðsynlega á fleiri konum að halda í pólitík og ekki síst inn á þing. Þar þarf virkilega á nýjum vinnubrögðum að halda. Það getur ekki annað en hallað á annað kynið ef hitt kynið setur alla strauma og stefnur og meitlar þær í stein.  Þar sem margar pulsur koma saman, þar er lítið pláss fyrir feminisma. Tökum dæmi af byggðastefnu. Hingað til hefur hún verið stórkarlaleg, samin af körlum, fyrir karla. Áhersla hefur verið lögð á mjög svo hefðbundnar atvinnugreinar; einhæfan landbúnað, sjávarútveg og stóriðju. Þessar áherslur hafa haft þau áhrif að karlastörfum hefur fjölgað en kvennastörf orðið útundan. Þar er reiknað með að konur fái þjónustustörf, afleidd frá karlastörfunum. Þetta hefur orðið til þess að konur í dreifbýli búa við einhæft atvinnuframboð og gjarnan hafa eggin verið öll í sömu körfunni.  Það er kominn tími til að mýkja byggðastefnuna og leggja áherslu á fjölbreyttara atvinnulíf sem hentar fleirum. Leggja meiri áherslu á nýsköpun og þekkingariðnað, stuðning við sprotafyrirtæki og minni fyrirtæki, efla vinnumiðstöðvar fyrir fjölbreytta listsköpun o.s.frv. Það þarf að skoða allar stefnur út frá umhverfissjónarmiðum og mannréttindum og sérhagsmunir og einhæfni þurfa að víkja.

Björt framtíð er flokkur sem leggur mikla áherslu á fjölbreytni og jafnrétti, er lausnamiðaður og réttlátur og treystir bæði körlum og konum til þess að sinna því mikilvæga þjónustustarfi sem starf alþingismanna er.

 

Ást og friður.

Ásthildur Ósk Ragnarsdóttir

Höf. skipar 3. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi

Kristín Sigurgeirsdóttir

Höf. skipar 2. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar