Hjúkrunarrýmaskorturinn og sérstakar myndir hans

Jón G Guðbjörnsson

Mikil umræða hefur átt sér stað um málefni hjúkrunarheimila undanfarin ár og færist sífellt í aukana. Upp úr stendur viðvarandi skortur á hjúkrunarrýmum og hins vegar fjölþættur vandi sem af því leiðir, en einnig fjárhagslegur rekstrarvandi þeirra heimila sem starfandi eru. Ráðandi stjórnvöld á hverjum tíma bera við skorti á hjúkrunarrýmum; mjög sérkennilegt vandamál því fjölgun þeirra er  algjörlega undir sömu stjórnvöldum komin. Ekki hjálpar að stjórnvöld virðast sjá það sem vanda einhvern tíma í framtíðinni, að öldruðum fjölgi umfram aðra aldurshópa. En sú framtíð er núna. Það má bezt marka á því að þrátt fyrir þá fjölgun hjúkrunarrýma sem þó hefur orðið, þá hafa biðlistarnir ekki tæmzt nema síður sé. Það á fullkomlega við um Brákarhlíð í Borgarnesi.

Brákarhlíð (DAB) var upphaflega byggt sem dvalarheimili og heimilisfólk alls 55 þegar flest var enda gert ráð fyrir tvíbýli í sumum herbergjanna sem þó voru lítil. Fyrir réttum 30 árum voru fyrstu hjúkrunarrýmin þar samþykkt, 12 alls, sem komu í stað jafn margra dvalarrýma. Þarna var eingöngu um að ræða viðurkenningu á þeirri staðreynd að margt heimilisfólks var í brýnni þörf fyrir hjúkrunarþjónustu og nutu hennar við erfiðar aðstæður því húsnæðið sjálft var hið sama. Það gat ekki gengið til lengdar en samt og þrátt fyrir ítrekaða eftirgangsmuni stjórnenda dvalarheimilisins, liðu tuttugu ár þar til heimild fékkst til nýframkvæmda og þá skv. svokallaðri leiguleið. Eigi að síður fjölgaði hjúkrunarrýmum nokkuð á þessu tímabili á kostnað dvalarrýma en eftir sem áður við alls óviðunandi aðstæður. Satt bezt að segja er þetta ekki falleg lesning þegar horft er til baka en mestu réð gott og hæft starfsfólk að allt lánaðist.

Svo kom að því fyrir tæpum fimm árum að tekin var í notkun ný álma búin 33 fullkomnum hjúkrunarrýmum og í kjölfarið fylgdu breytingar og endurbætur á eldra húsnæðinu. Þannig eru nú alls yfir fimmtíu íbúðarrými í Brákarhlíð sem öll uppfylla skilyrði hjúkrunarrýma. Þar af eru 17 rekin sem dvalarrými og 35 sem hjúkrunarrými. Tvö rými hafa nú á annað ár verið nýtt sem biðrými tímabundið í þágu bráðabirgðalausnar svonefnds fráflæðisvanda Landsspítalans. Stjórnendur Brákarhlíðar hafa ítrekað leitað eftir því við stjórnvöld að fá þessi rými samþykkt varanlega og að fjölga hjúkrunarrýmum á kostnað dvalarrýma en án árangurs. Stjórnvöld mega að vísu eiga það að hafa boðið eitt hjúkrunarrými á móti hverjum tveimur dvalarrýmum. Með öðrum orðum að loka aukalega einu dvalarrými á móti hverju hjúkrunarrými sem yrði samþykkt.

Svona lagað meikar ekki sens eins og sagt er á nútíma gullaldaríslenzku. Að leggja það til að loka íbúðarrýmum sem uppfylla öll skilyrði hjúkrunarrýma, já láta þau standa auð, er eins og að menn hafi ekki heyrt ákall samfélagsins eftir úrræðum fyrir þá einstaklinga sem eru í brýnni þörf fyrir sólarhrings umönnun á sínum efstu dögum. Stjórn Brákarhlíðar hefur ekki og mun ekki ganga að slíkum tilboðum. En rétt er að minna á í þessu samhengi að kostnaðarauki Sjúkratrygginga Íslands við að gera hvert dvalarrými sem þegar er til staðar að hjúkrunarrými er aðeins rúmlega helmingur þess sem það kostar að reka nýtt rými í nýju húsnæði og framkvæmdakostnaður enginn. Stjórnendur Brákarhlíðar telja að vísu nauðsynlegt að heimilið hafi upp á nokkur dvalarrými að bjóða en þau séu óþarflega mörg við núverandi aðstæður. Þeim mætti fækka til muna og samþykkja sem hjúkrunarrými í staðinn. Með því að leggja eitt dvalarrými á móti hverju hjúkrunarrými sem samþykkt væri má fjölga þeim síðarnefndu um 8-10 í Brákarhlíð

Og Brákarhlíð býr yfir fleiri möguleikum. Í nýju álmunni eru nokkur vannýtt sameiginleg rými. Þau eru þannig til komin að þegar nýja álman var byggð var það sögð afdráttarlaus stefna stjórnvalda að heildarrými fyrir hvern heimilismann á hjúkrunarheimilum skyldi vera 75 m2., þar af u.þ.b. helmingur einkarými. Nú hefur þetta heildarrýmisviðmið verið lækkað í 65 m2. Það skapar svigrúm til fjölgunar hjúkrunarrýma í nýju álmunni um fjögur með nokkurra vikna fyrirvara. Fyrir Brákarhlíð væri það sanngirnismál að orðið yrði við ósk um þá breytingu sem hér er nefnd í ljósi lækkaðs viðmiðs stjórnvalda um heildarrými fyrir hvern heimilismann. Nú miða Sjúkratryggingar húsnæðisframlagið við lægra viðmiðið og taka því engan þátt í kostnaði við þá 10m2 sem út af standa fyrir hvert rými.

Hér hefur verið vakin athygli á möguleikum til fjölgunar hjúkrunarrýma í Brákarhlíð um ein 10 -14 rými með skjótum hætti og ýmist með engum eða litlum stofnkostnaði. Það virðist ekki ná eyrum þeirra sem eiga að heyra. Um það vitnar nýlegt svar heilbrigðisráðuneytisins við tveggja ára gömlu erindi stjórnar Brákarhlíðar. Að beita því sem rökum að ekki séu biðlistar eftir hjúkrunarrýmum í fjarlægum héruðum eru léttvæg rök gegn því að verða við óskum um fjölgun hjúkrunarrýma í Brákarhlíð þar sem eru viðvarandi biðlistar. Sama má segja um það að beita fyrir sig fjárskorti. Ef það eru heilindi að baki fyrirheitum um fjölgun hjúkrunarrýma í hundruðavís þá er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir rekstrarfé til þeirra.

 

Jón G. Guðbjörnsson.

Höf. er formaður stjórnar Brákarhlíðar hjúkrunar- og dvalarheimilis í Borgarnesi.

Fleiri aðsendar greinar