Hjartans þakkir og áramót!
Ingibjörg Davíðsdóttir
Kæru kjósendur og stuðningsfólk!
Árið 2024 hefur verið gefandi og viðburðarríkt, þar sem ég hef stigið allverulega út fyrir þægindarammann. Mæli eindregið með því!
Í aðdraganda alþingiskosninganna steig ég nokkuð óvænt inn á svið stjórnmálanna sem oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi þar sem ræturnar mínar eru svo djúpar og hafa hafa togað í mig sl. ár. Ég vildi og vil vinna landsbyggðinni gagn, sem á svo mikið í mér. Í kjölfar heimkomu frá sendiherrastörfum í Noregi og eftir um 25 ár á flakki um heiminn í utanríkisþjónustunni, þá nefnilega leyfði ég aðdráttarafli rótanna að ráða ferðinni og fór á árinu 2023 í leyfi frá störfum utanríkisþjónustu, til þess að vinna að eigin hugmynd. Ég veit að sumum þótti þetta nokkuð djarft hjá mér, en mér fannst það nauðsynlegt, því ég veit að flestir geta verið embættismenn en færri hafa elju og kraft til að stíga út úr því öryggi, og inn í óvissu frumkvöðulsins. Að leiðarljósi hafði ég fallegt hvetjandi listaverk sem dóttlan mín hafði búið til handa mér fyrir nokkrum árum, með textanum: „Ekki láta draumana þína alltaf vera drauma“. Ég hafði uppgötvað að það vantaði hvetjandi stoðkerfi á Íslandi fyrir nýsköpun í fæðutengdri starfsemi og landbúnaði, með áherslu á styrkingu byggða – hannað að íslenskum aðstæðum og veruleika. Eftir miklar vangaveltur og enn fleiri fundi og ferðalög um landið þá teiknaðist upp fyrirbæri sem heitir nú Íslenski fæðuklasinn. Fæðuklasinn var stofnaður sumarið 2024 og er hvetjandi vettvangur samstarfs fyrirtækja, frumkvöðla og stofnana með verðmætaskapandi verkefni í fyrirrúmi. Geggjað skemmtilegt og hefur fengið frábærar viðtökur.
Ég var einmitt á Vestfjörðum í fundaferð vegna Fæðuklasans upp úr miðjum október! Og svo aftur í byrjun nóvember en þá af öðru tilefni, sem nýr oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þetta nýjasta ævintýri hefur verið skemmtilegt, gefandi og lærdómsríkt. Frambjóðendur óku um allt kjördæmið, við heimsóttum fjöldann allan af fyrirtækjum, stofnunum og heimilum – og héldum fjölda funda. Hvarvetna var okkur tekið opnum örmum og var veðrið og færðin að mestu leyti án vandræða! Bara ein hraðasekt, á sjálfan kjördag, rétt fyrir utan Borgarnes – en þeir sem eru reyndari en ég í kosningabaráttu, segja það vel sloppið. Ég vil þakka öllum sem tóku þátt í þessari vegferð – þeim sem lögðu sitt af mörkum við skipulagningu, stóðu vaktir, komu á fundi, tóku þátt í samtölum og lögðu hart að sér fyrir flokkinn. Þið vitið hver þið eruð.
Hjartans þakkir fyrir ómetanlegan stuðning í aðdraganda Alþingiskosninganna og það traust sem þið sýnduð Miðflokknum á kjördag, í Norðvesturkjördæmi og um land allt. Fram undan eru spennandi tímar og verkefnin eru mörg. Ég hlakka til þess að vinna að hag Norðvesturkjördæmis, lands og þjóðar inni á Alþingi Íslendinga, fyrir okkur öll.
Ég vona að þið hafið haft það gott yfir hátíðarnar, þakka yndislegheitin og samfylgdina og óska ykkur heillaríks árs 2025.
Ingibjörg Davíðsdóttir
Höfundur er oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi