Hjartað er í molum

Kristján Gauti Karlsson

Mig langar að rifja upp fjórðu viku lönguföstu, anno Domini Nostri Iesu Christi MMXIX. Það er föstudagur, 22. mars og klukkan slær þrjú. Niðurtalning með þokulúðri. Mikill hvellur heyrist. Það er sprenging.

Nú er liðið eitt ár og örfáum dögum betur frá því sementsstrompurinn á Akranesi, kennileiti allra kennileita hér í bæ, var felldur. Þegar efri hluti hans skall á grundu sandþróarinnar sálugu þyrlaðist upp mikið ryk. Það byrgði okkur sýn, en nú er rykið að mestu sest og því rétt að líta til baka yfir þennan atburð og athuga hvað raunverulega gerðist, ekki í sandþrónni sálugu heldur innra með okkur öllum.

Það breyttist eitthvað þegar strompurinn féll. Skaginn er ekki sá sami og hann var og við sem eftir stöndum erum það ekki heldur. Við vissum öll að fall hans var óhjákvæmilegt. Við vorum í einhverjum skilningi undir það búin og biðum þess. En nú er strompurinn farinn og þó við séum flestöll ánægð með örlögin berum við á sama tíma einhverja eftirsjá í brjósti. Það er vandlifað í veröld eftir strompinn.

„Ef þú vildir ekki fella strompinn þá ertu ekki með heila, en ef þú saknar hans ekki þá ertu ekki með hjarta.“ Þannig komst Kristján Alexander Friðriksson svo listilega að orði um Akranes eftir strompinn, þar sem hann fór um Faxann einn daginn. Enginn hefur orðað þessa tilfinningu betur, hvorki fyrr né síðar. Í orðum Kristjáns kristallast togstreita hugans og hjartans frammi fyrir tveimur sviðsmyndum sem báðar eru bæði góðar og slæmar í senn. Heilinn hafði betur og hjartað er í molum.

Þessi togstreita í henni veröld eftir strompinn knýr okkur til að líta inn á við og horfast í augu við tilvist okkar sjálfra. Sprengingarnar tvær föstudaginn 22. mars MMXIX minna okkur á að ekkert varir að eilfíu. „Allt er í heiminum hverfult,“ eins og skáldið kvað, „og stund þíns fegursta frama, lýsir sem leiftur um nótt.“ – Hallgrímsson, Jónas. Ort ca. 1835 (líklega um strompinn).

Rétt eins og tilvist strompsins varði ekki að eilífu mun tilvist okkar sjálfra taka enda einn daginn. Lífinu fylgir dauðadómur, farmiði fyrir einn með ferjunni hans Karons, yfir ána Styx en ekki til baka. Öll vildum við gjarnan geta lifað að eilífu, en á sama tíma viljum við öll á endanum fá að deyja. Þrátt fyrir að innst inni vildum við bæði hafa getað haldið strompnum og hent, notið hans en niður rifið á sama tíma, þá vitum við að lífið undir festingunni fúnkerar ekki þannig. Köttur Schrödingers getur ekki bæði verið lífs og liðinn í línulegri tilveru mannskepnunnar. Skoffínið er dautt og skorsteinninn er fallinn.

En sú vitneskja breytir engu um þrána; að innst inni þráum við öll þennan skorstein Schrödingers sem á sama tíma er til og ekki til, fyrir allra augum en enginn sér. Að fá að lifa til eilífðarnóns en ekki samt, á sama tíma. En það er ekki hægt og það vitum við öll. Heilinn hefur betur og hjartað er í molum.

Greinin birtist fyrst sem leiðari í 13. tbl. Skessuhorns miðvikudaginn 25. mars.