Hjálparkerfin okkar, eru það hjálparkerfi í raun?

Bergur Þór Jónsson

Við höfum hér á landi ótal kerfi sem mig langar að kalla hjálparkerfi, en það langar mig að geta kallað öll þau kerfi sem við erum skyldug til að borga í með okkar sköttum, lífeyrisgreiðslum, tryggingar (sem er reyndar ekki alltaf skylda) og fleira.

En eftir nánast ótal skipti þar sem ég og þó aðallega mínir hafa þurft á þessum hjálparkerfum að halda höfum við í mörgum tilfellum fengið „NEI“ sem fyrsta svar og svo jafnvel ekki já fyrr en í þriðju umferð. En hvernig stendur eiginlega á því að þessi nei-kerfi/hjálparkerfi reyna ekki eftir mesta mætti að hjálpa okkur frá fyrstu spurningu eins og ég tel eðlilegt og líklegt að þeim hafi verið ætlað í upphafi?

Það er að mínu mati vegna þess að örfáir aðilar hafa reynt að ná út úr hjálparkerfunum okkar einhverjum aurum til að framfleyta sér, en samt ekki átt rétt á því. Og þannig hafa síðan verið búnar til reglur í hjálparkerfunum til að reyna að koma í veg fyrir misnotkun og starfsfólk kerfanna verið kennt í misskilningi að aðalhlutverk þeirra væri að koma í veg fyrir að kerfið „þeirra“ væri misnotað. Þann misskilning má svo væntanlega rekja til yfirmanna og rekstraraðila sem hafa enga tilfinningu fyrir því hversu mikilvægt hjálparhlutverk þeirrar stofnunar er, heldur sjá eingöngu hversu mikill kostnaður er við reksturinn.

En þar komum við einmitt að líklega grunnvandamálinu við öll hjálparkerfin okkar, nefnilega því að allt of mikill kostnaður er settur í að vernda fjármuni kerfisins, t.d. í lögfræðikostnað við að finna leiðir til að vernda kerfið, lögfræðikostnað við málaferli vegna misnotkunar á kerfinu og mörgu fleiru. En einmitt á meðan fólki, sem er vel meinandi í grunninn er sett fyrst og fremst fyrir að passa að veita þeim ekki aðstoð sem gætu mögulega ekki átt rétt á því, þá missir það fólk alltof fljótt sjónar á því að hugmyndin er í grunninn að hjálpa fólki en ekki fæla það frá.

Ef fólk í ríkis- og sveitarfélaga hjálparkerfunum okkar gerði sér til dæmis betur grein fyrir sínu hjálpar hlutverki og þau kerfi starfi betur saman við að hjálpa og hafa beint samband fyrir fólk á viðeigandi stað mætti mögulega leysa stórt hlutfall af málum í stað þess að fólk þurfi að hlaupa á milli stofnana með misnákvæmar upplýsingar, eða jafnvel gefast upp á kerfunum og verða þannig líklega að mun stærri og erfiðari kostnaði fyrir kerfin í framtíðinni.

Að vita um dæmi þess að kerfin okkar séu að vísa hvert á annað til þess eins að reyna að losna við að hafa t.d. langveikt fólk á sínum kostnaðarlið, og valda því þannig að fólk fær mun minni og verri þjónustu, á þeim tíma sem það þyrfti sérstaklega að auka þjónustuna við fólk, er að mínu mati viðbjóðslegt, og ekki nokkurri manneskju bjóðandi.

Á kosningaári er full ástæða til að velta fyrir sér hverju og hverjum það er svo að kenna að hjálparkerfin okkar virka svona illa?

Fyrir mér er það mjög augljóst! Öll stjórnvöld og allir flokkar sem hafa komið að stjórn landsins undanfarna áratugi hafa staðið fyrir nánast algjörlega óbreyttu ástandi á Íslandi og það mun ekkert breytast ef þið haldið áfram að kjósa eiginhagsmuna potara sem hugsa ekkert um þann möguleika að allir Íslendingar geta lifað mannsæmandi lífi hér.

Hvernig væri að við settum allsstaðar inn þá kröfu að allt fólk notist við þá setningu sem líklega öll trúarbrögð hafa viljað gera að sínu, nefnilega; „þú skalt aldrei gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér,“ en við það vil ég bæta; „þú skalt heldur aldrei sætta þig við frá öðrum sem þú myndir aldrei gera þeim.“ Með þeim orðum er ég reyndar að ætlast til þess að við séum ekki þröngsýn, og séum fær um að setja okkur í spor annarra og sýna þannig samhug. Eini kosturinn fyrir mig er því að halda áfram að kjósa Flokk Fólksins.

 

Bergur Þór Jónsson.

Manna,- dýra- og skynsemisvinur.