Hinir síðustu verða fyrstir!

Ásta Kristín Guðmundsdóttir

Oft verður mér hugsað til þess hvað einkennir okkur íslensku þjóðina. Þegar ég segi „okkur” þá meina ég auðvitað okkur, sem rekja megum ættir okkar til forfeðranna sem löptu dauðann úr skel í saggakenndum torfkofum og síðar ísköldum bárujárnshjöllum. Okkur, þessi duglegu. Það er ekki laust við að þjóðin líti stórt á sig og hæli sér fyrir dugnaðinn og eljusemina. Að vera komin á þann framfarastað sem við erum í dag, búandi við velferð í háþróuðu samfélagi. Á tyllidögum berjum við okkur á brjóst fyrir sjálfstæði okkar og útsjónarsemi. Við hyglum kraftmiklum einstaklingum sem láta ekkert stoppa sig. Einstaklingum sem fara sínar leiðir og vita oftast betur en flestir aðrir. Sjálfstæðir, duglegir Íslendingar sem heyra ekki undir neitt yfirvald, þeir ráða sér sjálfir. Sterk þjóð! Við teljum okkur örlát og hjálpsöm eða a.m.k. hljómar það fallega út á við. Við erum snillingar í að taka okkur saman í tímabundna góðgerðarstarfsemi. Gefa fjármuni í hópsafnanir þegar mikið stendur til. Í safnanir sem blásnar eru upp af fjölmiðlum með fræg andlit í fararbroddi. Þá skiptir máli að láta til sín taka og vera áberandi, taka þátt, fylgja hjörðinni og baða egóið í glimmeri. En erum við sem þjóð í raun og sann að hlúa að okkar minnsta bróður eða systur? Erum við tilbúin að gefa af okkar stórkostlega rými og forréttindum og deila með þeim sem minna mega sín? Hver er sjálfsmynd okkar sem þjóðar? Er það myndin sem birtist svo glöggt og ítrekað í stórmarkaðnum? Í aðstæðunum sem skapast þegar aðeins einn afgreiðslukassi er opinn og myndast hefur löng röð? Fólk verður óþolinmótt eins og gefur að skilja því það er vissulega að missa af lífinu. Það má ekki vera að því að standa í röð og bíða eftir því að viðskiptavinurinn á undan ljúki sér af. Sam-mannlegt viðfangsefni ekki satt? Óþolinmóð andlitin skima inn í búðina og bíða eftir bjargvættinum, starfsmanni sem opnar næsta kassa. Þau sjá glitta í kollinn á honum bak við rekkann með pastavörunum. Hann nálgast. Röðin tekur að ókyrrast og fólk fer í viðbragðsstöðu, einkum þeir sem aftastir eru og hafa mesta svigrúmið. Kona í miðri röðinni fylgist sannarlega með atburðarrásinni og hugsar með sér að það sé nú freistandi að skjóta sér fremst í nýju röðina, vera fyrst. Hún áttar sig hins vegar fljótlega á því að hún er ekki næst í röðinni. Það er eldri maður á undan henni sem er búin að bíða lengur og þar á undan ungt par með grátandi smábörn í sitthvoru fanginu. Þau eru einnig búin að bíða lengur. Konan finnur að kappið hjaðnar og það slaknar á innbyggðum viðbrögðunum. Það vill reyndar þannig til að hún er vön að gefa eftir og bíða. Hún veit að ekkert er sjálfgefið enda hefur hún oft þurft að bíða eftir úrræðum í mörgu af því sem hún hefur þurft að kljást við í gegnum tíðina. Hún réttir því úr sér þegar hún sér starfsmanninn nálgast hinn kassann og færir sig aðeins til. Hún býr sig undir að bjóða þeim sem á undan eru að fara fyrstir í nýju röðina, það væri eitthvað svo eðlilegt. Meðan á þessum kurteisislegu hugsunum stóð stukku þeir sem aftastir voru í röðinni fremst í þá nýju og hrósuðu happi að hafa náð fyrsta sætinu. Það er jú einu sinni þannig að fyrstur kemur fyrstur fær ekki satt? Þeir vinna sem hlaupa hraðast og það er engin ástæða til að líta í kringum sig. Það sannast einnig hið fornsagða sem ómar einhversstaðar lengst inni í þokukenndu minni konunnar, eitthvað á þá leið að… „hinir síðustu verða fyrstir.“ Hvaðan komu þau orð? Hún velti því vandlega fyrir sér þar sem hún stóð allt í einu aftast í röðinni. Skyldi vera komið að henni núna?

 

Ásta Kristín Guðmundsdóttir