Hin tignu embætti

Finnbogi Rögnvaldsson

Í íslensku samfélagi ríkir flókin lagskipting eins og í öðrum samfélögum. Að sumu leyti er hún dulin og torræð en að mörgu leyti er hún augljós þeim sem vilja sjá. Þannig eru t.d. fangelsi landsins nær eingöngu setin þeim sem lægst sitja í samfélagsstiganum og „Breiðuvíkurbörnin“ voru sótt í sömu þrep. Sumir leggja nokkuð á sig til að feta sig upp metorðastiga þá sem liggja um afkima þjóðfélagsins, aðrir láta sig þetta litlu varða og enn aðrir taka raunverulega ekki eftir þessu.

Að sumu leyti er okkar þjóðfélag þó einsleitt, talað mál hefur til dæmis lengi vel verið  nokkuð óháð þessari skiptingu í hólf en þó má greina, að minnsta kosti upp á síðkastið, nokkurn mun á orðfæri fólks eftir því hvar það er í „virðingarröðinni.“ Annars staðar, t.d. í Englandi, er þetta rótgróið. Valda- og virðingarkerfi íslensku þjóðarinnar er líka að sumu leyti ungt eins og sjálfstæði þjóðarinnar og því talsverðum breytingum háð í rás tímans. Trúlega er þetta hvergi skýrara en í efstu lögum virðingarstigans þar sem menn þurfa að kunna að umgangast sína líka, kóngaslekti í útlöndum þarf að sýna tilhlýðilega virðingu. Þekkt dæmi um klaufaskap Íslendinga meðan menn voru alvöru sveitamenn var við konungskomuna 1907 þegar Hannes Hafstein og Ragnheiður kona hans gengu eftir rauðum dregli en Friðrik og Louise gengu þeim við hlið utan dregils! Það er því ljóst að okkar æðstu embættismenn og höfðingjar þurfa að kunna sitt af hverju!

Biskup

Nú er valið í tvö embætti hinna efstu laga. Biskup og forseta. Eitt af því sem breyst hefur í tímans rás er einmitt þetta val, samfélagið breytist og tæknin breytist. Fólk er smátt og smátt að gerast afhuga hinum kreddufullu trúarbrögðum sem boða eilífa sælu í handan heimum en hafa lítið til málanna að leggja hérna megin annað en löngu úrelta heimsmynd, fædda frelsara og himnasmiði. Samt sem áður er meirihluti þjóðarinnar skráður í þjóðkirkjuna og trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar þynnra en þunnildi í meðal þyrsklingi! Líklegasta skýringin er trúlega rótgróið valdakerfi kirkjunnar sem teygir anga sína um allt samfélagið með hefðir sem ná frá sólargangi til merkra tímamóta í þroska fólks, fæðingu, kynþroska, mökunar og dauða. Það er meira en að segja það að hrófla við slíku.

Forseti

Hitt er óneitanlega sérkennilegra að sjá hvernig hitt embættið, embætti þjóðhöfðingjans sem einn af fyrrverandi forsetum vildi meina að væri enn merkilegra en lýðum væri ljóst með því að benda á að í útlöndum héti þessi starfi „Head Of State,“ virðist hafa náð að verða eitt af því sem menn tengja við sjálfstæði þjóðarinnar. Að við getum ekki verið án forseta!

Samt er spurningin um hlutverk forsetans alltaf það sem mest ber á við forsetakjör …hvað á forsetinn að gera? Ef stjórnarskráin er lesin verður fljótlega ljóst að lýsing á þessu embætti er nær hin sama og lýsing á stöðu konungs var eftir að hann afsalaði sér einveldi um miða 19. öld. Hugmyndir manna um forsetann hafa enda oft tengst þeirri mynd sem menn hafa af þjóðhöfðingjum í útlöndum, oft kóngum og drottningum. Sem landsfeðrum og mæðrum sem koma þjóðum sínum til varnar á ögurstundu. Í fyrra stríði börðust Evrópskar þjóðir sem áttu sér kóngaslekti sem meira og minna var náskylt hvert öðru og hittist reglulega til að láta taka af sér myndir saman. Þjóðhöfðingjar hafa sjaldnast verið fyrir aðra en sjálfa sig og svo verður áfram.

Íslendingar eyða um 500 milljónum á ári í rekstur embættis forseta og kjör hans. Á tímum þegar vinnustöðum fatlaðra er lokað sökum dýrleika ættu menn að spyrja sig hvort þeir gætu ráðstafað þeim hálfa milljarði betur.

Finnbogi Rögnvaldsson