Heimsókn frá Ástralíu

Þórólfur Sigurðsson

Nú í vor kom í heimsókn í Innri-Fagradal á Skarðsströnd kona frá Ástralíu, Stephany Evans Steggall, ásamt manni sínum Bob. Hún hafði þá dvalið á Íslandi í nokkrar vikur, lengst af í Stykkishólmi þar sem hún sinnti ritstörfum. Stephany hefur gefið út nokkrar skáldsögur sem lesa má um á heimasíðu hennar

Innri-Fagridalur

 

En af hverju var hún stödd á Íslandi og hvaða erindi átti hún hingað á Skarðsströndina? Jú, það kom þannig til að Stephany rakst á umfjöllun um björgunarafrek í tengslum við eitt stærsta sjóslys í sögu Ástralíu. Þá brotnaði seglskipið Dunbar í spón þegar það sigldi inn í klettana sunnan við innsiglinguna í höfnina í Sidney 20. ágúst árið 1857. Allir skipverjar fórust nema einn sem fannst tveimur dögum eftir slysið og það var ungur Íslendingur sem bjargaði þessum eina skipverja. Íslendingurinn var Árni Ólafur Thorlacius og var rétt um tvítugt þegar þetta gerðist. Eftir að hafa rekist á umfjöllun um björgunarafrek Árna fór Stephany að kynna sér betur söguna og varð fljótlega mjög áhugasöm um þennan unga Íslending sem var að öllum líkindum fyrsti Íslendingurinn sem fluttist til Ástralíu og settist þar að til frambúðar. Hún setti sig í samband við Sigmund Valgeirsson, formann Íslendingafélagsins í Ástralíu, og kom ekki að tómum kofanum hjá honum. Sigmundur, eða Simmi eins og hann er jafnan kallaður, sér um heimasíðu Íslendingafélagsins og þar er einmitt ítarleg umfjöllun um ævi Árna og þátt hans í björgun eina mannsins sem komst lífs af frá þessu skelfilega slysi, sjá hér: https://iaa.asn.au/arni-olafsson-thorlacius/

Árni fæddist í Innri-Fagradal á Skarðsströnd 28. nóvember 1836. Hann var yngstur fimm bræðra og hann var ekki nema rétt rúmlega 2ja mánaða gamall þegar hann missti föður sinn, Ólaf Thorlacius, 8. febrúar 1837. Móðir hans var Helga Sigmundsdóttir, barnabarn Magnúsar Ketilssonar sýslumanns í Búðardal á Skarðsströnd. Eftir að hún var orðin ekkja þá fluttist hún vestur á Bíldudal og giftist Þorleifi Jónssyni kaupmanni á Bíldudal. Þorleifur hafði gifst Guðrúnu tengdamóður Helgu árið 1827 en hún hafði misst mann sinn 1815, Ólaf riddara Thorlacius kaupmann á Bíldudal. Helga tók eldri börnin með sér vestur á Bíldudal en Árni var settur í fóstur hjá hjónunum Guðnýju Pálsdóttur og Hans Pálssyni Hjaltalín í Elliðaey á Breiðafirði. Þau fluttu nokkrum árum síðar í Fagurey og þaðan að Jaðri í Stykkishólmi. Fósturfaðir Árna dó 1843 og Guðný giftist síðar Árna Péturssyni. Það slys vildi til í mars árið 1847 að bátur fórst á leiðinni frá Stykkishólmi að Krossnesi í Eyrarsveit og fórust sjö manns, þar á meðal þau hjón Guðný og Árni. Árni Thorlacius var þá 10 ára og þá fór hann til föðurbróður síns og alnafna, Árna Ólafssonar Thorlacius kaupmanns í Stykkishólmi sem bjó í norska húsinu eins og það er kallað og er nú byggðasafn Stykkishólmsbæjar. Árni kaupmaður var stórmerkilegur maður sem fékkst við margt en er sennilega þekktastur fyrir veðurathuganir sínar. Hann hóf árið 1845 veðurathuganir í Stykkishólmi þar sem hann mældi í fyrstu bæði hita og loftþrýsting nokkrum sinnum á dag en hóf síðar úrkomumælingar og sjávarhitamælingar. Þetta munu hafa verið fyrstu reglulegu, skráðu veðurathuganir á Íslandi.

En það er langur vegur frá því að alast upp við Breiðafjörð á Íslandi og að vera síðan búsettur í Sidney í Ástralíu. Eins og áður segir þá var Árni rétt orðinn 10 ára þegar hann fluttist til frænda síns í norska húsið í Stykkishólmi 1847. Ekki er ljóst hversu lengi Árni hefur verið hjá föðurbróður sínum í Stykkishólmi en fljótlega eftir að hann fermdist 1850 hefur hann farið til Danmerkur þar sem hann dvaldist í einhver ár hjá elsta bróður sínum, Ólafi, og Önnu konu hans á eynni Rømø við vesturströnd Jótlands. Eins og kemur fram í samantektinni á heimasíðu Íslendingafélagsins í Ástralíu þá hefur Árni komið til Danmerkur fljótlega eftir manntalið 1850 en er svo farinn frá Danmörku þegar næsta manntal er gert árið 1855. Líklegast er að Árni hafi farið til sjós þegar hann hafði aldur til og unnið á fraktskipum og hann var staddur í Hong Kong í ágúst 1855 þegar hann réð sig á fraktskip sem sigldi til Sidney þangað sem Árni kom í október sama ár. Við komuna til Sidney hefur Árni breytt um nafn og kallaði sig nú Antonio Woolier, hann var þá rétt að verða 19 ára. Árni settist að í Sidney og tveimur árum síðar var hann orðinn nemi í úrsmíði og hann var einmitt með meistara sínum að skoða slysstaðinn þar sem skipið Dunbar fórst þegar hann vann umrætt björgunarafrek.

Á þessum árum var fjöldi fólks að flytja frá Bretlandi til Ástralíu og eitt þeirra skipa sem sigldu þangað var farþega- og flutningaskipið Dunbar. Það sigldi frá Plymouth á Englandi í lok maí 1857 og kom í leiðindaveðri og slæmu skyggni til Sidney þann 20. ágúst. Þetta olli því að skipið hitti ekki á réttu innsiglinguna heldur sigldi beint í klettana suður af innsiglingunni þar sem það brotnaði í spón, allir um borð fórust fyrir utan einn mann sem skolaði upp á klettasyllu og náði að koma sér í öruggt skjól. Tveimur dögum seinna fara þeir á vettvang, Árni og meistari hans, til að sjá flakið og björgunarstörf. Árni, sem var ungur og liðugur, fékk leyfi til að klifra aðeins niður í klettana til að sjá betur og hann sá þá að einhver veifaði hendi með klút lengst niður í klettunum. Árni flýtti sér aftur upp og lét vita, hann var svo látinn síga niður til mannsins sem var hífður upp og er eins og áður segir eini maðurinn sem bjargaðist úr þessu hörmulega slysi. Ítarlegri lýsing á slysinu og af ævi Árna er í áðurnefndri umfjöllun á heimasíðu Íslendingafélagsins.

Bob, Stephany, Þórólfur og Guðjón Torfi

Eftir að Stephany setti sig í samband við Simma hjá Íslendingafélaginu þá hafði hann upp á föður mínum; Sigurði Þórólfssyni frá Innri-Fagradal og sammæltust þeir um að Stephany og Bob maðurinn hennar myndu koma og hitta okkur hér á fæðingarstað Árna. Eftir heimsóknina í Innri-Fagradal var svo á dagskránni hjá þeim hjónum að sigla út í Elliðaey þar sem Árni var settur í fóstur á sínum tíma, því næst ætluðu þau að eyða tíma í Danmörku og reyna að fræðast betur um hvað á daga Árna hafði drifið þar áður en þau héldu aftur heim til Ástralíu. Stephany er sem sagt að skrifa sögulega skáldsögu, sjóslysið og aðdragandi þess er útgangspunkturinn í sögunni en sagan er jafnframt byggð á ævi Árna sem og skipverjans sem var bjargað en hann hét John Johnson og mun hafa verið írskur.

Áður en ég lýk þessum pistli þá verð ég að geta þess að Árni var ekki sá eini í fjölskyldunni sem bjargaði fólki í lífsháska. Þannig björguðu foreldrar hans, þau Helga og Ólafur í Innri-Fagradal, tveimur mönnum sem urðu innlyksa í Fagurey á Breiðafirði yfir jólin árið 1836 þegar þeir hugðust ganga í land á ís frá Akureyjum en hröktust af leið. Helga var að viðra föt úr kistli sínum á annan dag jóla og í kistlinum geymdi hún einnig sjónauka. Þegar hún horfði yfir fjörðinn í sjónaukanum kom hún auga á menn í Fagurey og í framhaldinu fór Ólafur maður hennar með mannskap á bát og bjargaði mönnunum sem höfðu þá hafst við í eyjunni við illan leik í fjóra sólarhringa. Og elsti bróðir Árna, Ólafur Ólafsson Thorlacius, eða Ólafur danski eins og hann var oft kallaður eftir áralanga dvöl í Danmörku, var sjómaður og vorið 1864 var hann stýrimaður á skonnortu sem var að flytja vörur frá Kaupmannahöfn til Bíldudals. Í vondu veðri ekki allangt frá ströndum Englands gerðist það að háseti á skipinu féll fyrir borð – Ólafur, sem mun hafa verið afburða sundmaður, stakk sér í sjóinn og náði að bjarga manninum. En þetta afrek dró dilk á eftir sér því Ólafur veiktist í kjölfarið og mun hafa fengið lungnabólgu. Hann komst þó lifandi til Bíldudals og var fluttur helsjúkur heim til foreldra sinna þar sem hann dó svo ekki löngu síðar, rétt rúmlega 40 ára gamall.

Að lokum er gaman að geta þess að Þorleifur bróðir Árna Ástralíufara, næstyngstur af bræðrunum, er langa- langafi Guðna Thorlacius Jóhannessonar forseta Íslands.

Þórólfur Sigurðsson