
Heimastjórnarflokkurinn hættir við framboð að þessu sinni
Eiríkur Þór Theodórsson
Við stofnendur Heimastjórnarflokksins í Borgarbyggð fundum í upphafi ríkan meðbyr og áhuga. En ekki nægjanlegan, þegar á leið, til að halda áfram að þessu sinni og því var einboðið að draga sig til hlés.
Við getum samt sem áður verið stolt af þeim árangri sem við náðum frá því að flokkurinn var stofnaður í desember sl. Meirihlutinn í Borgarbyggð tók vel við sér á síðustu metrunum fyrir kosningarnar, eftir ítrekaðar ábendingar okkar og hysjaði upp um sig í nokkrum af þeim stórmálum sem að við beittum okkur fyrir. Má þar nefna að rykið var dustað af hugmyndum um byggð í Ölduhryggnum vestan við Borg á Mýrum. Einnig var reynt að koma á heildrænum fyrirætlunum varðandi uppbygginguna í Brákarey og fá lausn á vanda þeirra félagasamtaka sem voru rekin úr gamla sláturhúsinu.
Síðan komum við líka öðrum málum á dagskrá eins og að breyta leið þjóðvegarins í gegnum bæinn sem ekki hefur verið minnst á í langan tíma og nauðsynlegt er að ræða og taka ákvarðanir um. Þá var friðun Borgarvogsins dregin til baka, eftir ábendingum frá okkur, sem er algjör kúvending því mikil áhersla var lögð á það mál fyrir stuttu síðan. Það opnar fyrir landfyllingu og stækkun íþróttamiðstöðvarinnar sem við lögðum til.
Ég bið mitt fólk og þá sem ætluðu að gefa okkur atkvæðið sitt að kynna sér vel loforð og efndir og forðast fagurgala. Að sitja heima er afstaða og það að skila auðu segir líka sitt. Ég vona að allt verði vel innsiglað á kjörstöðum og að rétt verði talið upp úr atkvæðakössunum bæði hér og annars staðar.
Þó svo að Heimastjórnarflokkurinn bjóði ekki fram lista í komandi kosningum verður hann áfram til og mun halda uppi gagnrýnni umræðu og veita sitjandi sveitarstjórn aðhald.
Fyrir hönd Heimastjórnarflokksins í Borgarbyggð,
Eiríkur Þór Theodórsson formaður