Heimamaður og svarið er…

Geir Konráð Theódórsson

„Á íslensku má alltaf finna svar,“ orti heimamaðurinn Þórarinn Eldjárn á Íslandi. Sem ferðamaðurinn Geir Konráð, sem staddur er í steikjandi hita á götumarkaðnum í Níger í Vestur-Afríku, er ég bara alls ekki sammála skáldinu. Á skraufþurrum vörum mínum er tungan orðin þokkalega þjál, en bara á árans íslensku! Svörin sem ég finn á íslensku gagnast mér ekki neitt þegar ég þarf nauðsynlega að gera mig skiljanlegan fyrir fólki sem aldrei hefur séð eða sungið með auglýsingunni frá Mjólkursamsölunni.

Þökk sé óhóflegu glápi á Simpsonfjölskylduna með íslenskum texta í æsku þá er ég þó þokkalega fær í að tjá mig á enskri tungu, en öll önnur tungumálafög hafa reynst mér mjög erfið á minni menntagöngu í gegnum lífið. Ég hef samt verið lánsamur með góða og skemmtilega kennara og ég man til dæmis vel eftir því að hafa haft mjög gaman af því að syngja með Kim Larsen lögum í dönskutíma hjá Lóa í Grunnskólanum í Borgarnesi. En þrátt fyrir góðu kennarana í gegnum tíðina þá einhvern veginn lærði ég aldrei neitt tungumál af skólabók, sama hvað ég reyndi og rembdist við að gera mitt besta. Ég fæ martraðir enn í dag sem eru oftast á þá leið að ég er sveittur og stressaður að hamast við að lesa glósur og orðinn of seinn í upptökupróf í dönsku eða þýsku.

Það var ekki fyrr en ég fór að ferðast um heiminn að mér gekk aðeins betur að læra önnur tungumál. Ég bjó um tíma í Níkaragúa í Mið-Ameríku og náði á endanum að gera mig skiljanlegan á spænsku og meira að segja lesa fyrsta partinn af Don Kíkóta eftir Miguel de Cervantes á upprunalega tungumálinu. Ég vil taka það fram að allir fagrir frasar úr þessum frábæra miðaldardoðrant, sama hve flottir þeir hljómuðu á spænsku, hjálpuðu engan veginn við að gera hosur mínar grænar fyrir þeim senjoritum er ég taldi mest líkjast Dulcinea del Toboso. Konulaus kom riddarinn ég aftur heim til Íslands og eftir kreppu flutti ég, líkt og margir aðrir Íslendingar, til Noregs. Blessaða norskan er náttúrulega bara léttari útgáfa af íslenskunni þannig að ég tel það ekki mikið afrek að ég náði á endanum að gera mig skiljanlegan fyrir frændum okkar þar í landi.

En núna er ég í Níger og mér til mikillar mæðu þá er kunnátta mín í norsku, spænsku og Simpsonsfrösum alveg gangslaus hérna á götumörkuðum. Landið er með ellefu opinber tungumál og ég kann ekkert af þeim. Ég hins vegar dáist af íbúum þessa lands fyrir tungumálakunnáttu þeirra. Margir innviðir hérna í landinu eru vanþróaðir og sérstaklega þá menntakerfið. Einungis í kringum 30% íbúa landsins kunna að lesa, en það er samt á réttri leið því í byrjun aldarinnar var læsi aðeins um 14%. Ríkistjórnin í samvinnu við alþjóða hjálparstofnanir hefur sett á skólaskyldu og unnið er að því að bæta menntamálin hérna í landinu. Ég gat varla trúað þessum tölum fyrst þegar ég las um Níger. Einmitt „las um Níger,“ ég get ekki ímyndað mér hvernig veröldin mín væri ef ég gæti ekki lesið. Ég kom til landsins með þetta ofarlega í huga og ætlaði einhvern veginn að hafa auga með þessu þegar ég væri á meðal fólks. Ég veit ekki við hverju ég bjóst við en það sést að sjálfsögðu ekkert á fólki hvort það getur lesið eða ekki.

Menntun og gáfur eru auðvitað ekki hið sama. Ég hef oft hitt og spjallað við menntað fólk sem mér þótti mjög vitlaust og svo hef ég hitt fólk sem gekk illa í skóla en er klárlega fluggáfað. Hérna í borginni Niamey á götumarkaðinum hef ég fylgst með venjulegu fólki hoppa á milli að minnsta kosti þriggja, stundum jafnvel fimm, mismunandi tungumála sem eru algjörlega málfræðilega ólík. Áður fyrr þótti mér fólk heima, sem gat í samtali hoppað á milli þýsku, dönsku, ensku og íslensku, vera alveg magnað og sýna miklar gáfur og færni, en höfum í huga að þessi tungumál eru öll germönsk tungumál og málfræðilega skyld. Reynum að ímynda okkur hvernig það væri að hoppa á milli íslensku, kínversku og finnsku í daglegu tali, jafnvel arabísku og grænlensku líka. Mörg tungumálanna sem eru töluð hérna í Níger eru svona ólík. Fólkið hérna er kannski ekki mikið menntað, en það er klárlega fluggáfað.

Zarma-songhai, hausa, fulfulde og franska, öll þessi tungumál og fleiri til í kringum mig hérna en ég skil ekki neitt með minn tungumálaakkillesarhæl. Ég er auðvitað að reyna að læra en það gengur illa. Ég valdi frönsku því það er mest talaða málið á mörgum svæðum sem og indóevrópskt og því málfræðilega skylt þeim tungumálum sem ég tala fyrir, ólíkt hinum. Þrátt fyrir að uppáhalds höfundarnir mínir Jules Verne, Alexandre Dumas og Voltaire séu allir franskir þá er ég samt alls ekki hrifinn af franska tungumálinu, og það er líklegast Frökkum að kenna. Margir Frakkar, eins og mágkona mín hún Marie, eru alveg dásamlegt fólk. En alltof margir eru hræsnarar sem þykjast ekki skilja neitt sem maður segir við þá, nema stundum svara þeir glottandi á öðru tungumáli, með miklum frönskum hreim, einungis til að segja manni að framburðurinn minn á frönsku sé ógeðslegur og óskiljanlegur. Það virðist vera þjóðaríþrótt hjá þeim að hæðast að þeim sem dirfast að reyna að læra þetta fáránlega tungumál þeirra.

Sem betur fer er fólkið hérna í Níger algjör andstæða við frönsku hræsnarana. Flest fólk er einstaklega vinalegt og tilbúið að taka sér smá stund til að skilja hvað maður er að reyna að gera skiljanlegt með furðulegri frönsku og handabendingum. Snjallsímar eru líka galdratæki sem brúa mörg bil í dag, margir eru með forrit sem geta þýtt talað mál, en stundum fer rafmagnið af borginni og ekkert virðist virka. Það er þá sem ég er sérstaklega þakklátur fyrir menninguna hérna, hvað flestum þykir eðlilegt að vera bara vinalegur og viljugur til að skilja hvað aðrir eru að meina. Kannski er þetta afleiðing þess að alast upp í kringum öll þessi tungumál?

Á íslensku má alltaf finna svar, en það á örugglega líka við öll önnur mál. Svörin eru víða og því sakar ekki að reyna að læra fleiri mál þó það sé stundum erfitt, þessu langar mig að minnsta kosti til að trúa, trúa, trúa.

 

Geir Konráð Theódórsson

Fleiri aðsendar greinar