Heima í Borgarbyggð

Sigrún Ólafsdóttir

Eitt af mínum hjartans málum, sem ég tel þörf á að ræða, er staða mála hjá Heilsugæslunni okkar í Borgarnesi. Þar eigum við frábært starfsfólk sem leggur sig allt fram um að veita góða þjónustu. En það er ekki nóg því ef ekki tekst að manna sumar stöður nema um stundarsakir þá þurfa hinir að hlaupa hraðar.

Heilbrigðisþjónusta í Borgarbyggð er grunnurinn að öryggisneti íbúanna. Einnig er mikilvægt að aðrir þeir sem eiga ferð um sveitarfélagið eða dvelja þar um skemmri hríð geti treyst á öryggisnetið þegar þeir þurfa á því að halda. Fólksfjöldi margfaldast í héraðinu yfir sumartímann og einnig flestar helgar. Það er ekki tekið með í reikninginn þegar fjöldi stöðugilda er ákveðinn. Ákall um ríkari þjónustu hefur lengi verið upp á borðinu og verður það eitt af forgangsmálum á komandi kjörtímabili hjá okkur í Framsókn.

Heilsugæslan í öndvegi

Við þurfum aukna viðveru heilsugæslulækna, til að sinna þeim sem sækja þjónustu á heilsugæslunni í Borgarnesi. Það er illa þolandi að þurfa jafnvel að bíða í tvær til fjórar vikur eftir tíma hjá heilsugæslulækni þegar eitthvað bjátar á. HVE þarf að tryggja að það séu fleiri en einn læknir búsettur í Borgarbyggð til þess að stöðugleiki komist á í heilbrigðisþjónustu við íbúana. Þetta þýðir að sveitarstjórn Borgarbyggðar þarf að taka upp samtal við HVE og ríkisvaldið til að takast á við þetta verkefni. Við þurfum að fá úrbætur í þessum málaflokki en á sama tíma þurfum við að horfa víðar yfir sviðið í allri þjónustu við íbúa og sér í lagi eldra fólk.

Við viljum hjálpa afa og ömmu að vera lengur heima

Áskoranir varðandi eldra fólk eru sífellt að aukast í okkar samfélagi. Meðalaldur er að hækka og á næstu árum er sífellt stærri hópur sem er að komast á eftirlaun og þarf á þjónustu að halda. En hvernig leysum við þann vanda? Ein leiðin er að styðja vel við okkar ágæta dvalarheimili Brákarhlíð sem hefur unnið frábært starf á undanförnum áratugum, en við þurfum fleiri úrræði og leiðir til að ná settum markmiðum.

Aukin hreyfing og efling lýðheilsu eldra fólks, bætir lífsgæði og hjálpar þessum hópi að vera lengur án þess að þurfa að nýta sér hjúkrunar- eða dvalarrými sem eru dýr og af skornum skammti.

Með fjarlækningum, aukinni utanspítalaþjónustu og tæknivæðingu samhliða heimaþjónustu er hægt að hafa mun betri stuðning við þennan hóp og þar viljum við vera í fararbroddi. Það er ekki nóg að vilja hafa fólk sem lengst heima það verður að gera fólki það kleift á sínum forsendum.

Við viljum móta stefnu til þess að hjálpa afa og ömmu að vera lengur heima.  Stefnu þar sem við tvinnum saman þá þjónustu sem er í dag, utanspítalaþjónustu hins opinbera og með tæknilausnum sem virka. Við þurfum að setja í algjöran forgang að geðheilbriðgisþjónusta fyrir alla aldurshópa sé alltaf aðgengileg. Við sem skipum lista Framsóknar í Borgarbyggð viljum veg Heilsugæslunnar sem mestan og bestan.

Bætt heilbrigðisþjónusta er forgangsmál okkar allra.

 

Sigrún Ólafsdóttir

Höfundur skipar 5. sæti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.