Heima er best, fyrir utan Reykjavík

Geir Konráð Theódórsson

Það tók sinn tíma en á endanum náði ég að komast alla leiðina heim til Ísland frá Níger í Afríku. Ég hef hlakkað mikið til að koma heim yfir jólin og hitta fjölskylduna aftur, en ég verð að játa að ég hef líka verið ögn smeykur. Ég er bara orðinn frekar vanur lífinu í Niamey, það hefur nefnilega verið svo gott. Fyrir utan hvað það er dásamlegt að búa loksins með kærustunni þá hef ég líka búið við hálfgert dekur þarna úti. Mér þykir gott að vakna og stinga mér til sunds í lauginni í garðinum okkar á meðan leðurblökurnar koma sér fyrir í trjánum eftir erilsama nótt. Að sjá sólina rísa á „venjulegum“ tíma og finna ávallt 30+°C ylinn í loftinu. Allt í lagi, að upplifa þetta eilífa sumar hefur ekki verið bara hálfgert dekur, þetta hefur verið alveg ógurlegt dekur í alla staði. Það er erfitt að játa þetta en hér úti bý ég eins og yfirstéttarfólk. Hinn almenni maður hérna hefur ekki möguleika á að stinga sér til sunds í sundlauginni sinni, eða búa í stóru húsi með þjónum og öryggisvörðum, hvað þá að fara út að borða næstum hvert einasta kvöld. Ég veit að heimurinn minn hérna í Níger er fullur af forréttindum, en ég er bara mannlegur og það er furðulega auðvelt að venjast því að láta dekra við sig. Ég mun sakna þess því ég veit að ég mun ekki komast upp með neitt múður og ekki geta skipað neinum fyrir yfir jólin heima hjá mömmu og pabba á Ystu-Nöf í Borgarnesi. Að koma forréttindarlöppunum strax aftur á jörðina er líklegast fyrir bestu.

Það er alveg ótrúlega gott að koma heim þrátt fyrir myrkrið, regnið og kuldann. En ég verð að segja að mér finnst Reykjavík minna mig á sumt sem er slæmt í Níger. Við vorum auðvitað pikkföst í umferðinni í svifryksmenguðu Reykjavík á leiðinni frá flugvellinum. Ég hló þegar ég hugsaði til þess að pólitíkusar hér í borginni ætla að leysa þetta með reiðhjólum og bruðli á almanna fé, það kæmi mér ekkert á óvart ef pólitíkusar í Níger væru með nákvæmlega sömu plön. Kannski eru allir pólitíkusar eins. En afsakið tuðið í mér, ég hef aldrei verið hrifinn af Reykjavík og alltaf liðið best úti á landi.

Það var því mikill léttir að keyra loks burt úr borginni og komast heim í blessaða Borgarnesið. Faðir minn minnti mig á loforðið sem ég skrifaði hérna í Skessuhorninu fyrir löngu að ég ætlaði að kyssa 30 km hraðatakmörkunarskiltið á Borgarbrautinni, en við vorum of mikið að flýta okkur heim í mat. Ég geri það bara á morgun. Við keyrðum framhjá fegursta jólatré sem ég hef séð í Skallagrímsgarðinum og yfir mig kom loksins jólaandinn í allri sinni dýrð. Svo þegar heim var komið hámaði ég í mig grjónagraut, kjötsúpu og drakk með þessu glas af ískaldri mjólk. Maður áttar sig ekki á því hvað íslenska mjólkin er góð fyrr en maður neyðist til að smakka afrískt mjólkurduft blandað við vatn. Mikið er gott að vera kominn heim þrátt fyrir að það sé pínu kalt hérna.

Geir Konráð Theódórsson

Höfundur er Borgnesingur, kominn á Ystu-Nöf eftir búsetu í Níger.

Fleiri aðsendar greinar