Heilun samfélagsins

Halla Signý Kristjánsdóttir

Við erum að renna inn í þriðju viku samkomubanns og samfélagið dregur sig inn í skel. Margir vinna heima og aðrir eru komnir heim, þar sem fyrirtæki hafa stoppað meðan þessi stormur gengur yfir. Það má vera ljóst að fólk óttast ekki einungis um heilbrigði sitt heldur líka um afkomu sína og hvaða raunveruleiki blasi við þegar plágan er gengin hjá. Nú reynir á stoðir nærsamfélagsins og hver og einn skiptir máli í því sambandi.

Skóli er skjól

Ég sannfærist meira með hverjum deginum að það var hárrétt ákvörðun hjá Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra að loka skólum samfara samkomubanninu. Nemendur háskóla og framhaldsskóla voru sendir heim.  Starfsemi grunn- og leikskóla var sett í hendur sveitarfélaga að meta aðstæður á hverjum stað með áframhaldandi starfsemi. Margar ástæður eru fyrir því. Vissulega er það áskorun starfsfólks skólanna að halda úti starfsemi í samkomubanni, þar sem ekki mega vera fleiri en 20 einstaklingar í rými, en svo virðist sem skólastjórnendur hafi leyst vel úr því. Vinna starfsfólks grunn- og leikskóla er mikilvæg á svona tímum.

Mörg börn búa við bágar aðstæður á heimili og oft er skólinn þeirra skjól. Í þessum óvenjulegum aðstæðum er hætta á að viðkvæmir hópar fái ekki nægilegan stuðning, gleymist, eða verði útundan.

Ofbeldi, fíknisjúkdómar og aðrir viðkvæmir sjúkdómar magnast innan veggja heimila og börnin eru fórnarlömbin. Það hefur sýnt sig hér og erlendis að tilkynningum til barnaverndar hefur fækkað í þessu ástandi og er það kannski vegna þess að það er skólinn sem fylgir því eftir í flestum tilvikum. Það er því brýnt að við öll séum vakandi yfir velferð barna okkar og samfélagsins. Það eru margar litlar sálir sem ekki eiga víst skjól á heimili sínu.

Allir í almannavörnum

Öflugt heilbrigðiskerfi ásamt almannavörnum takast nú á með öllu afli við veiruna og til þess að það náist þarf hver og einn að taka þátt, ekki bara Jón og Gunna á móti. Það er mikilvægt að allir hagi sér samkvæmt því sem ráðlegt er. Þannig léttum við byrði fólks sem heldur heilbrigðiskerfinu gangandi. Mikið álag hvílir á þeim sem sinna umönnun  innan heilbrigðisstofnana og þeim sem starfa hjá fólki með fötlun og sinna heimahjúkrun. Fólk í viðkvæmri stöðu á erfitt þegar hversdeginum er kippt úr sambandi.

Ber er hver að baki

Líkt og sannaðist á Norðurlandi vestra í síðustu viku getur ástandið orðið viðkvæmt þegar smit fara að berast með hraða um samfélagið. Þá sýnir það sig best að hver og einn skiptir máli; viðhorft einstaklingsins hefur aldrei skipt eins miklu máli og nú. Heimasíminn gengur í endurnýjun líftíma og nágranninn verður hluti af fjölskyldunni. Heima með Helga verður að Juróvision landans og allir taka undir. Við slíkar aðstæður reynir virkilega á samvinnu lítilla samfélaga.

Það vorar

Við erum komin nokkrum dögum frá jafndægri á vori; birtan varir lengur en myrkrið og enn vex hún. Stjórnvöld gera meira og  nærsamfélögin eru að gera meira. Þannig náum við þeirri viðspyrnu sem þarf til að ná okkur á strik aftur. En það verður ekki gert nema við berum traust hver til annars og sýnum umhyggju. Þannig heilum við samfélagið.

 

Halla Signý Kristjánsdóttir.

Höf. er þingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmi

Fleiri aðsendar greinar