Heilsugæslan?
Guðsteinn Einarsson
Flestum er ljóst að heilbrigðiskerfið er ekki í góðu lagi. Það vantar lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og fleira sérhæft starfsfólk. Heilsugæslan er þar engin undantekning. Undirritaður ætlaði að panta sér tíma hjá lækni nú í morgun hjá Heilsugæslunni í Borgarnesi.
Efnisleg niðurstaða var, eftir viðtal við starfsmann sem svaraði í símann, að engan tíma væri að fá í janúar, engan í febrúar, og vaktaskipulag lægi ekki fyrir varðandi mars, en ef eitthvað alvarlegt væri að mætti ræða málið.
Staðan í heilbrigðiskerfinu er ekki núverandi starfsfólki að kenna. Það er að gera sitt best við erfiðar aðstæður. Það vantar menntað fólk, það vantar meiri fjármuni, það er eitthvað að grundvallar skipulagi heilbrigðiskerfisins.
Það er pólitíkin sem er ekki að vinna vinnuna sína, allavega ekki með hagsmuni hins almenna borgara í huga. Á undanförum vikum höfum við heyrt ráðherra heilbrigðismála helst tjá sig þannig að best sé að einkavæða, semja við fjárfesta og fyrirtæki um umönnun aldraðra, opna einkavædda neyðarmóttöku og þ.h.
Uppgjöf ráðherrans er algjör. Reynslusögur erlendis frá um einkavæðingu heilbrigðisþjónustu eins og umönnun aldraðra segja okkur að arður rekstraraðila kemur framar þjónustu við skjólstæðinga viðkomandi stofnana. Launakostnaður er stærsti rekstrarliður hjúkrunarheimila og því er þar helst að leita hagræðingar en afleiðingin er oftast sú að dregið er úr þjónustu við skjólstæðinga.
Væri ekki ráð að skipta út getulausum, duglausum ráðherra heilbrigðismála, hreinsa til í ráðuneyti sem starfsmenn augljóslega ráða ekki við verkefni sín, og fá í staðinn fólk sem kann og getur leyst málin?
Ef fjármagn vantar þá má hækka veiðigjöld á stórútgerðir, þó líklega trufli það helstu eigendur þeirra í uppkaupum á heildsölum, smásölum, pylsu- og hamborgara sjoppum, tryggingafélögum og skipafélögum.
Borgarnesi, 25. janúar 2024,
Guðsteinn Einarsson, Borgarnesi.