
Heilsársstörfum fórnað í pólitískum leik
Ólafur Adolfsson
Undirritaður átti orðastað við innviðaráðherra á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnum í fyrradag um útgáfu reglugerðar um ráðstöfun afla úr svokölluðum 5,3% potti. Þetta var sannarlega ekki fyrsta samtal fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við innviðaráðherra um þetta mál en hann hefur dregið að gefa út reglugerð um ráðstöfun afla úr pottinum þrátt fyrir ákall minni útgerða og fiskvinnsla. Veiðitímabilið hefst 1. september ár hvert og í nafni fyrirsjáanleika ætti reglugerðin því að liggja fyrir eigi síðar en í júlí.
Afla í pottinum hefur að jafnaði verið ráðstafað í rækju- og skelbætur, sértækan- og almennan byggðakvóta, línuívilnun og strandveiðar.
Ákall um aðgerðir
Nýlega barst okkur þingmönnum ákall frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga þar sem stjórn félagsins lýsti yfir hættuástandi í atvinnumálum á Vestfjörðum vegna fyrirhugaðs afnáms línuívilnunar, rækjubóta og skerðinga á byggðakvóta. Bent var á að færu stjórnvöld í þessar aðgerðir gætu afleiðingarnar orðið þær að heilsársútgerð og heilsársvinnsla í smærri sjávarbyggðum á Vestfjörðum legðust af. Vísað var til þess að allt að 176 störf væru í hættu á Drangsnesi, Flateyri, Hólmavík, Suðureyri, Súðavík og Þingeyri, slíkt samsvarar um 16.000 manna hópuppsögn í Reykjavík. Kæmu þessar áætlanir stjórnvalda til framkvæmda yrði sú blóðtaka algjört reiðarslag fyrir smærri sjávarbyggðir á Vestfjörðum.
Hér undir er til dæmis uppbygging heilsárs fiskvinnslu á Hólmavík sem er háð óbreyttu kerfi línuívilnunar, óskertum byggðakvóta og uppbótum fyrir rækju og skel. Línuívilnun hefur hvað mest áhrif á litlar og meðalstórar vinnslur og útgerðir sem starfa á ársgrundvelli þar sem áhersla er lögð á að skapa verðmæti með gæðum og sjálfbærum veiðiaðferðum. Fyrirhugaðar breytingar munu hafa stórfelld áhrif á atvinnu, tekjur og stöðugleika hjá smærri fiskvinnslum og útgerðum með tilheyrandi hópuppsögnum í greininni.
Reglugerð fæðist
Ráðherra kom loksins fram með reglugerðina sl. föstudag, á síðasta degi fyrsta tímabils línuívilnunar eða heilum þremur mánuðum eftir að fiskveiðiárið hófst. Helstu tíðindi eru þau að skorið er niður í þorski um helming þó bætt sé í ýsu á móti.
Á næstu vikum og mánuðum kemur væntanlega í ljós hvort niðurskurður í aflaheimildum til þeirra sem sendu frá sér ákall um aukið atvinnuöryggi fiskverkafólks og sjómanna leiði af sér uppsagnir og tilheyrandi óvissu fyrir sjávarbyggðirnar.
Óneitanlega vaknar nú upp sú spurning hvort sá afli sem tekinn hefur verið úr áðurnefndum pottum muni fara í strandveiðar, en þær hafa verið eitt helsta baráttumál Flokks fólksins. Ráðherra og samflokksmenn hans lofuðu strandveiðimönnum öllu fögru í aðdraganda kosninga en rákust síðan á vegg við stjórnarborðið í sumar með þeim afleiðingum að atvinnuvegaráðherra gafst upp og afhenti innviðaráðherra málaflokkinn í pólitískum hrossakaupum.
Sýnt á spilin
Innviðaráðherra verður nú að sýna á spilin sem fyrst til að hafa einhvern fyrirsjáanleika í málaflokknum og þá verður fróðlegt að sjá hvort hann ætli virkilega að leggja af heilsársstörf á Vestfjörðum og víðar um land til að fjölga dögum á strandveiðum. Það verður blóðugt fyrir Vestfirðinga að fara í hópuppsagnir svo Flokkur fólksins geti uppfyllt eitt af kosningaloforðum sínum á þeirra kostnað. Það má öllum vera ljóst að áðurnefndir pottar munu ekki duga til að búa til 48 daga á strandveiðum, að óbreyttum fjölda strandveiðibáta og hámarksafla á dag. Niðurskurður í línuívilnun mun til dæmis einungis gefa af sér rúmlega hálfan dag í strandveiðum. Ráðherra getur ekki dregið það að taka ákvarðanir um framhald þessa máls nema í örfáa daga án þess að illa fari.
Ólafur Adolfsson
Höf. er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Norðvesturkjördæmis.