Heilbrigðisþjónusta – þéttum raðirnar og þjónustuna

Ólafur Adolfsson og fleiri

Norðvesturkjördæmi er víðfeðmt og aðstæður ólíkar eftir svæðum, legu og íbúafjölda. Um allt kjördæmi er heilbrigðisstarfsfólk sem brennur fyrir starf sitt og geislar af metnaði og fagmennsku. En það eru holur í heilbrigðiskerfinu í kjördæminu okkar líkt og í vegakerfinu og heilbrigðisþjónustuna þarf að reyna að jafna eftir megni þannig að íbúar og þeir sem á viðkomandi svæði dvelja um lengri eða skemmri tíma upplifi sig öruggari. Viða hefur óskráð búseta mikil áhrif og skapar ójafnvægi varðandi mönnun og/eða veitt fjármagn gagnvart skráðum íbúum á svæðinu. Þar spila inní áhrif atvinnulífs og ekki síst ferðaþjónustu.

Getur skattkerfið hjálpað?

Svokallaður mönnunarvandi hvað varðar fagmenntaða heilbrigðisstarfsmenn á því miður víða við sérstaklega hvað varðar lækna. Við þurfum að þora að hugsa í lausnum hvað þann mikilvæga þátt varðar t.d.  skattkerfið eða hvort ríkið í samstarfi við sveitarfélög á einstökum svæðum snúi bökum saman hvað varðar allan aðbúnað lækna svo náist að manna með öruggum hætti heilsugæsluna á landsbyggðinni.

Festum heilsugæsluna í sessi

Talandi um heilsugæsluna þá þurfum við að tryggja þann þátt heilbrigðiskerfisins í sessi sem fyrsta viðkomustað þeirra sem  glíma við veikindi en jafnframt er mikilvægt að reyna með öllum tiltækum ráðum að einfalda alla ferla þannig að sjúklingur fái aðstoð, þegar þarf, með sem einföldustum hætti og  læknirinn eða annað heilbrigðisstarfsfólk festist ekki í svokallaðri skriffinnsku í stað þess að sinna þeim sem aðstoð þurfa.

Færum þjónustuna til fólksins

Víða er skortur á sérfræðilæknum og sérfræðiþjónustu og má þar nefna tannlækna, augnlækna, sjúkraþjálfara og áfram mætti telja. Ein leið sem við viljum fylgja eftir  að reynt verði eftir fremsta megni að mæta hinum dreifðu byggðum á þann hátt að sérfræðingum eins og þeim sem hér eru nefndir verði gert kleift að færa sig á milli svæða með stuðningi Sjúkratrygginga  og þannig mætt fólki á þeirra heimavelli. Tryggt þannig að fólk þurfi ekki í massavís að ferðast til og frá landsbyggð til höfuðborgar og missa þar með úr vinnu um lengri eða skemmri tima.  Ferðast akandi um langan og oftast vondan veg og rétt er að nefna aldrað fólk sem oft hefur engan kost til að sækja nauðsynlega þjónustu. Hugsum í lausnum  og látum kerfið virka með hagsmuni fólks i huga.

Byggjum hjúkrunarheimili

Síðast en ekki sist verður að ræða hlut hjúkrunarheimila sem er gríðar mikilvægur þjónustuþáttur í kjördæminu. Víða eru fámenn hjúkrunarheimili og mikilvægt að ríkið stígi þar inn og sinni þjónustunni af myndarbrag með samþættingu við heilsugæslu og heilbrigðisstofnun á viðkomandi svæði.

Annar stór þáttur er sá mikli biðlisti á sumum stöðum sem segir okkur að annað hvort er fólk bundið heima, háð aðstoð  ástvina, eða þá fast inn á sjúkrahúsi og þar með orðinn hluti af því leiðinlega orði sem fangar fráflæðisvanda sjúkrahúsanna. Þarna þarf að stíga inn af myndarskap og byggja  fleiri rými, bæði í núverandi húsakosti sem þegar er til staðar eða með því að byggja nýtt. Báðir kostir eru þjóðhagslega hagkvæmir því hver dagur á öldrunarheimili kostar kerfið okkar, ríkiskassann sjálfan, mun minna en dagur á sjúkrahúsi. Sjúkrahúsin eiga  í raun einungis að sinna bráðatilfellum og langveikum sem eru of lasburða til að vera inn á hjúkrunarheimilum eða heima.

Finnum bestu lausnirnar

Hér að ofan höfum við stiklað á stóru hvað heilbrigðismálin varðar, af nógu er að taka.. Við teljum að með betra skipulagi og meira samstarfi við fagmenntað starfsfólk á hverjum stað ásamt aukinni samþættingu og notkun tæknilausna megi gera mikla bragabót á heilbrigðiskerfinu okkar án þess að kostnaður þurfi að stóraukast. Mannauðurinn er magnaður og getur bent okkur á og aðstoðað við að finna bestu lausnir á hverju sviði.

Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins erum klár í slaginn og óskum eftir stuðningi kjósenda í Norðvesturkjördæmi við okkur þannig að þeir Óli og Bjarki geti lagt lið með reynslu sinni í dugnaði í málaflokknum.

Ólafur Adolfsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Auður Kjartansdóttir, Dagný Finnbjörnsdóttir og Kristófer Már Maronsson.

Höf. eru frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í 1-5. sæti.