Hefja samstarf Grunnskóla Borgarness og skóla í Tékklandi

Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Í maí á þessu ári var staðfest formlega samstarf Grunnskólans í Borgarnesi og grunnskólans ZSK Jerábka sem er í bænum Roudnice nad Labem í Tékklandi, 13.000 íbúa bæ í ca. 30 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborginni Prag. Sótt var um EEA styrk til verkefnisins. Þetta er sjóður sem hefur það markmið að stuðla að samstarfi menntastofnana á Íslandi, í Lichtenstein og Noregi við menntastofnanir í öðrum löndum í Evrópu. Undirbúningsferli umsóknar tók nokkra mánuði, en lagt var upp með að sækja um kennaraskipti skólaárið 2021 – 2022, þar sem kennarar tækju virkan þátt í kennslu – og nemendaskipti skólaárið 2022 – 2023.  Seinni umsóknin er enn í vinnslu. Í ZSK Jerábka eru u.þ.b. 580 nemendur á aldrinum 6 – 15 ára. Lagt var upp með að verkefnið tengdist útikennslu, sögu og menningu. Helsta áskorunin í verkefninu hefur verið að samskiptin fara öll fram á ensku og einnig þau gögn sem unnið er með.

Fjórir kennarar við Grunnskólann í Borgarnesi sóttu kollega sína í ZSK Jerábka heim dagana 31. október til 8. nóvember sl. Tvo daga tóku kennarar þátt í kennslu í skólanum, fengu þar einnig fræðslu um skólastarfið, m.a. kennsluaðferð í stærðfræði, náttúrufræðikennslu og skóla margbreytileikans. Kennarar voru einnig með kynningu á Íslandi fyrir nemendur og starfsfólk, þar sem meðal annars var sýnt myndband til að kynna skólann okkar. Myndbandið var unnið af stjórn nemendafélags GB, um tónlistarflutning sá skólahljómsveitin. Enginn í skólanum hafði áður hitt Íslendinga.

Þrjá kennsludaga tóku kennarar þátt í útikennsluverkefni með nemendum í 8. bekk. Verkefnið var á útikennslusvæði skólans. Þangað er ferðast með lest og gengnir 4 – 5 kílómetrar.  Á útikennslusvæðinu er gömul mylla og í verkefninu fékk hópurinn fræðslu um sögu tveggja fjölskyldna sem bjuggu á þessu svæði og áttu hvor sína mylluna. Allar námsgreinar voru fléttaðar saman í verkefni þar sem nemendur voru settir í hlutverk fjölskyldumeðlima, þurftu m.a. að gera sáttmála, sjá um heimilishald, setja upp leikþætti og búa til skreytingar.

Fjórir kennarar frá ZSK eru væntanlegir í Borgarnes 12. – 20. mars 2022. Þeir munu taka þátt í kennslu í verkefni sem byggir á söguhefð okkar og menningu.

Samstarf er til góðs fyrir báða skólana. Það er gott og gagnlegt að kynnast ólíkum kennsluháttum, annarri menningu og ólíku starfsumhverfi. Það er líka gagnlegt að fá að kynna sitt starf, menningu og umhverfi fyrir öðrum kennurum.  Það sem telst orðið venjulegt hér, finnst öðrum stórfenglegt. Við höfum gott af því að upplifa það.

 

Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Höf. er deildarstjóri sérkennslu við Grunnskólann í Borgarnesi