Háskólinn á Bifröst og samfélagið í Borgarbyggð

Vilhjálmur Egilsson

Það er ánægjulegt fyrir Háskólann á Bifröst að oddvitar fjögurra framboðslista í Borgarbyggð fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar skulu allir vera Bifrestingar. Ég hef fjallað um m.a. í útskriftarræðu að það sé hluti af samfélagslegri ábyrgð skólans að hvetja starfsfólk til þátttöku í stjórnmálum óháð því í hvaða flokki það vill hasla sér völl.  Það er nauðsynlegt fyrir lýðræðið í landinu og samfélagið hér í Borgarbyggð að gott fólk skipi alla framboðslista sem er tilbúið til að vinna af heilindum og metnaði fyrir sína heimabyggð.

Alltof oft heyrist amast við því að fyrirtæki og stofnanir séu að styðja við stjórnmálastarfsemi og alltof oft eru fyrirtæki og stofnanir að setja starfsfólki sínu skorður varðand þátttöku í stjórnmálum. Samt liggur fyrir að lýðræðið gengur út á að stjórnmálastarf fái stuðning úr samfélaginu og að sem flestir fái tækifæri til að láta til sín taka.  Háskólinn á Bifröst hefur ekki verið í færum til að veita stjórnmálaflokkum fjárstuðning en hefur hins vegar leitast við að veita starfsfólki svigrúm til að sinna störfum í sveitarstjórn og taka annan þátt í störfum stjórnmálaflokka.

Sú staðreynd að framboðslistarnir eru vel mannaðir Bifrestingum sýnir líka hversu stórt hlutverk Háskólinn á Bifröst hefur í samfélaginu í Borgarbyggð. Skólinn hefur menntað margt fólk sem býr í sveitarfélaginu og er þýðingarmikill vinnustaður, sérstaklega fyrir háskólamenntaða einstaklinga.  Háskólinn byggði líka upp hótelrekstur á heilsársgrunni sem nú hefur verið seldur frá skólanum en vonandi verður hótelið öflugur vinnustaður í framtíðinni sem skapar tekjur og fjölbreytni í sveitarfélaginu í kjölfar þess að staðnám á Bifröst hefur dregist saman.

Guðveig Eyglóardóttir sem skipar forystusætið á lista Framsóknarflokksins hefur leitt uppbyggingu Hótels Bifrastar ehf. frá árinu 2015.  Hún starfar áfram sem hótelstjóri eftir eigendaskiptin. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, foringi Vinstri grænna, er námsráðgjafi Háskólans á Bifröst.  Hún hefur líka verið í frumkvöðulsstarfi við að byggja upp ísgerð í héraðinu.  Lilja B. Ágústsdóttir sem leiðir lista Sjálfstæðisflokksins er samskiptastjóri Háskólans á Bifröst.  Hún er nýútskrifuð úr meistaranámi í lögfræði frá skólanum og hefur ennfremur lokið bóklegum hluta náms til lögmannsréttinda.  Magnús Smári Snorrason sem fer fyrir lista Samfylkingarinnar var árum saman á Bifröst í námi og starfi, síðast sem forstöðumaður símenntunar Háskólans á Bifröst en hefur undanfarið starfað hjá VIRK.

Allt þetta fólk hefur staðið sig vel við störf í Háskólanum á Bifröst og getið sér þar gott orð.  Háskólasamfélagið á Bifröst má vera stolt af því að þessir verðugu einstaklingar njóti slíks trausts í öllum flokkum að vera valið til að leiða þessa fjóra framboðslista.  Hvernig sem úrslit kosninganna verða nákvæmlega sýnist mér að sveitarstjórnin í Borgarbyggð muni verða vel mönnuð fólki sem er vant að vinna saman og hefur sýnt að það hefur tileinkað sér hin góðu gildi Háskólans á Bifröst; frumkvæði samvinnu og ábyrgð.

 

Vilhjálmur Egilsson, rektor