Harald í fyrsta sæti

Gunnar Sigurðsson

Það var mikið gleðiefni fyrir sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi þegar Haraldur Benediktsson gaf kost á sér til þess að leiða lista flokksins í kjördæminu. Eftir umrót liðinna ára í stjórnmálum hafa margir reyndir stjórnmálamenn horfið á braut og forystustörf sem þessi í hugum margra ekki ýkja eftirsóknarverð.

Ég hef um árabil fylgst náið með störfum Haraldar. Hann er ekki maður sviðsljóssins heldur vinnur sín störf af festu og að vel athuguðu máli. Hann hefur komið að mörgum stórum málum sem þingmaður og alltof langt mál að telja þau öll upp.

Ég get þó ekki stillt mig um að nefna eitt dæmi. Framganga hans í málum er tengjast úrbótum í fjarskiptum er stórvirki. Að hægt væri að kippa stærstum hluta hinna dreifðu byggða inn í nútímann með ljósleiðaravæðingu var draumur sem fæstir töldu að gæti ræst á jafnstuttum tíma og raunin er að verða.

Haraldur hefur með störfum sínum sýnt að hann er traustsins verður. Sjálfstæðismenn eiga því að treysta honum og kjósa hann til þess að leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

Gunnar Sigurðsson

Höf. er fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akranesi.