Hamingjan og líkaminn

Steinunn Eva Þórðardóttir

Það er ótrúlegt en satt að sálfræðin hefur mjög lítið horft til líkamans. Þó að tvíhyggja eigi að vera löngu aflögð, lúrir hún enn í vitund okkar, hugmyndin að veruleikinn skiptist í efnislegan og andlegan hluta og við séum þar af leiðandi bæði andi og líkami, með miklu meiri áherslu á því andlega, hugræna, sálinni eða hvaða orð fólk vill nota. Enn í dag er t.d. gerður greinarmunur á líkamlegum og sálrænum einkennum þunglyndis, þar sem líkamleg einkenni gætu verið harðlífi og verkir en sálræn einkenni depurð eða svartsýni. Líkamlegur verkur er reyndar svolítið beggja blands. Auðvitað eru vísindamenn sammála um að þetta sé allt líkamlegt en svona er orðfærið og það stýrir síðan hugsuninni, alveg óvart. Með ferskum vindum jákvæðrar sálfræði hefur þáttur líkamans aukist, ekki síst vegna áhuga á vellíðan og hamingju. Líkamleg vellíðan og sæla er ekki aðeins stór þáttur í upplifun okkar, heldur ER upplifun okkar. Hvernig ætlar þú að upplifa ánægju og sælu ef ekki í gegnum skynfærin og heilann?

Hamingja, sátt og merkingarfullt líf byggir beinlínis á því að taugakerfi okkar sé í ákveðnu jafnvægi, einkum því að semjukerfi ósjálfráða taugakerfisins sé ekki ofvirkt. Þegar semjukerfið er virkt þá erum við tilbúin að takast á við ógnir, kortisól og adrenalín flæða, vöðvar spennast, melting minnkar og við erum árvökul. Þetta er frábært þegar við þurfum að bjarga lífinu í hættulegum aðstæðum en brýtur niður líkamann ef þetta er varanlegt ástand, bæði vöðvar og bein rýrna bókstaflega þegar streituhormónið kortisól er virkt í líkamanum að staðaldri, auk þess sem svefn truflast og ónæmiskerfið bælist. Það er okkur eðlislægt að vera á varðbergi og því þurfum við mörg að vera meðvituð um að virkja utansemjukerfið. (Aðeins annað kerfið er virkt í einu.) Þegar utansemjukerfið er virkt erum við í ró, melting fer af stað og líkaminn sinnir uppbyggingu, græðir sár, byggir upp vefi og hreinsar til, líka í heilanum. Hugsun verður frjórri og lausnamiðaðri. Jákvæðar tilfinningar, von, þakklæti, bjartsýni og ást koma frekar fram, tengsl við annað fólk byggjast upp. Vellíðan og hamingja er upplifuð.

Hvernig virkjum við utansemjukerfið til að koma á jafnvægi? Á margvíslegan hátt, það eru sem betur fer margir gluggar að því að virkja þetta kerfi, annars værum við varla með hýrri há. Allt sem lætur okkur finna ró, öryggi, gleði, þakklæti, samkennd og svo framvegis, eins og útivera, það að kúra og lesa með börnum, fara út í garð að stússast, stunda jóga eða hugleiðslu, sinna dýrum, ganga á fjöll, biðja, hitta vini og hlæja, ástunda þakklæti, sýna öðrum vinsemd.

Einfaldar skyndilausnir eru að beina athygli að öndun (núvitund), finna eitthvað þrennt sem þú ert þakklát/ur fyrir núna (þakklætisæfing) eða senda sér og/eða öðrum, í huganum, óskir um heilbrigði, ró og hamingju (metta-æfing). Þessar æfingar hver um sig, stilla kerfið samstundis og ástundunin gerir þig að meistara.

 

Steinunn Eva Þórðardóttir.