Hamfarir í orðavali

Reynir Eyvindsson

Þann 21. mars sl. birtist grein hér í Skessuhorni sem kallaðist „Hamfarir af mannavöldum“.  Greinina skrifar Haraldur Benediktsson 1. þingmaður NV-kjördæmis.  Þar talar hann um ýmiskonar rekstrarvanda sem útgerðin á við að etja:

„..Verkfall sjómanna, lækkandi verð á fiski, staða gengismála og sú staðreynd að veiðigjöld voru að stórhækka. Tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum hækka gríðarlega á milli ára, á sama tíma og afkoma útgerðar hrynur“.

Hann lítur á þetta sem hamfarir.  Veiðigjöldin hækka milli ára, voru 4,6 milljarðar fiskveiðiárið 2016/2017 *), og voru orðin 5,35 milljarðar fyrir hálft fiskveiðiárið 2017/2018.  **).  Greinarhöfundi finnst rétt að lækka veiðigjöldin til að bjarga útgerðarfélögunum. Inntakið í rökstuðningnum fyrir lækkuðum veiðigjöldum er minnkaðar tekjur útgerðarinnar vegna gengisþróunar annarsvegar og hækkun olíu sem minnkar hagnað þeirra hinsvegar.

Haraldur segir:  „Tekjur í sjávarútvegi drógust saman um 25 milljarða króna eða 9% milli áranna 2015 og 2016. Tekjur lækkuðu hlutfallslega mest hjá sjávarútvegsfyrirtækjum með mestu aflaheimildirnar“.

 

Tekjur og hagnaður sjávarútvegsins

Hann nefnir hvergi í greininni heimildir, en á vef Fiskistofu má finna innihaldið í þessari töflu:

 

Ár Tekjur Hagnaður
2008 173 -156.4
2009 205 28.6
2010 220 33.3
2011 263 44.9
2012 265 46.5
2013 271 60.7
2014 241 36.3
2015 258 48.3
2016 220 52.8

 

Tekjurnar dragast saman um (258-220) / 258 = 15% milli áranna 2015 og 2016.  Haraldur segir 9%, en ég veit ekki hvaðan hann hefur sínar tölur.

Í töflunni má líka sjá að tekjurnar hafa dregist saman um (241-220) / 241 = 9% á tveimur árum.  Og ef farið er aftar í tímann eru tekjurnar af sjávarútvegi nokkuð stöðugar og hagnaðurinn sömuleiðis.  Þarna má sjá að tekjurnar árið 2010 voru 220 milljarðar, nákvæmlega jafn miklar og 2016.  Þetta var í tíð vinstri stjórnarinnar.  Hún hækkaði veiðigjöldin.  Í lok kjörtímabilsins voru þau mun hærri en þau eru núna.  Það var fyrsta verk stjórnar Sjálfstæðis og Framsóknar árið 2013 að lækka veiðigjöldin.  Eins og sést á töflunni, voru engar hamfarir akkurat í kortunum hjá útgerðunum á þeim tíma.

Það er eftir að vita hverjar tekjurnar verða 2017, en þó að þær haldi áfram að dragast saman um einhverja tugi milljarða, þá er ekki hægt að líta á það sem hamfarir.

 

Raunverulegar hamfarir

En það má lesa úr töflunni að á einu ári hafa orðið hamfarir.  Það var árið 2008, þegar Geir Haarde gat ekki annað en beðið Guð að blessa Ísland, því það var allt að fara á hausinn eftir 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. ***) Árið 2008 voru tekjur sjávarútvegsins 173 milljarðar, en hagnaðurinn -156 milljarðar.  Þarna eru hamfarir.

Kvótakerfið skapar hamfarir.  En ekki þessar sem Haraldur talar um.  Þegar kvótakóngur í sjávarútvegsplássi ákveður að selja kvótann, skilur hann fólkið eftir atvinnulaust og með verðlausar eignir í höndunum.  Það eru hamfarir.  Þessu þarf að breyta.  Það þarf að gera mönnum erfiðara að selja kvótann milli landsfjórðunga.  Það verður að binda hann meira við byggðirnar.  Það myndi minnka hagnaðarvon útgerðarmanna, en það eru ekki hamfarir.

 

Niðurlag:

Ég mæli með að við notum ekki of dramatísk orð í stjórnmálaumræðunni.  Það er oft ástæða til að nota þau, en ekki um mögulegan, minnkandi hagnað útgerðarmanna.

 

Kveðja,

Reynir Eyvindsson, Akranesi.

 

*) sjá http://www.fiskistofa.is/fiskveidistjorn/veidigjold/

**) fiskveiðiárið er frá 1 sept til 31 ágúst.

***) Ath, ef menn hugsa núna að það hafi alls staðar verið hrun, þá er það ekki rétt.  Hér var hrunið miklu verra en annarsstaðar.  Ísland þurfti aðstoð AGS.  Eina vestræna landið sem hefur þurft aðstoð þaðan.  Grikkland kemst næst Íslandi.  En þar, eins og á Íslandi, var stjórnað af fádæma ábyrgðarleysi fyrir hrun.