Hamfarir af mannavöldum

Stefán Skafti Steinólfsson

Athygli mína vakti ágæt grein 1. þingmanns NV kjördæmis, Haraldar Benediktssonar í Skessuhorni 27. mars síðastliðinn. Þar fer Haraldur ágætlega yfir grafalvarlega stöðu sjávarútvegsfyrirtækja í ljósi álagningar veiðigjalda. Ég er hjartanlega sammála. En ég er ekki sammála Haraldi með rót vandans. Vandinn liggur í stórgölluðu fiskveiðistjórnunarkerfi. Kvótakerfi í sjávarútvegi. Það er rétt að benda á það að samfélagið var byggt upp fyrir daga kvótakerfisins. Sem sagt án kvótakerfis og veiðigjalda. Veiðigjöld eru ekkert annað en auka landsbyggðarskattur til að reyna að beina einhverju af tekjum auðlindarinnar til samfélagsins. Þarna höfum við flækt líf okkar að óþörfu. Tekjurnar komu áður gegnum fyrirtækin sem voru fyrir samfélagið en ekki öfugt.

Gríðarlegt ósætti er með kvótakerfið þrátt fyrir þöggun þar um. Ósætti sem hefur á einn og annan hátt leitt til hörmunga og fólksflótta í 17 byggðarlögum hið minnsta. Hugsjónin í 1. grein um stjórn fiskveiða er snýr að byggðafestu hefur algjörlega snúist í andhverfu sína. Afleiðingar eru að við veiðum helmingi minna en fyrir daga kerfisins. Sjómenn búa við afarkosti og í raun gamla lénsskipulagið og kúgun. Frjálsa framsalið sem flokkur Haraldar var fyrst á móti (því skal halda til haga) en snerist svo með, er þjóðarmein. Það er kaldhæðni að einna harðast kom höggið niður í túnfætinum hjá 1. þingmanni NV kjördæmis.  HB Grandi hvarf frá Akranesi. Útgerðarfyrirtækið Haraldur Böðvarsson var áður en það sameinaðist Granda árið 2004 með 350 manns í vinnu  og greiddi tvo milljarða í laun og á Akranesi var landað um 170 þúsund tonnum af bolfiski. Afleidd störf mörg hundruð. Það er mikilvægt að stjórna veiðum á annan hátt og það er smjörklípa að ekki hefði meðferð afla og verðmæti aukist í öðru kerfi en kvóta. Það er sanngjarnast að taka upp sóknarkerfi og frjálsar krókaveiðar smábáta.

Nú berast fréttir annarsstaðar úr kjördæminu af vandræðum bæði útgerða og fiskvinnslu.  Hver hefði trúað því að HB Grandi færi frá Akranesi, Fiskiðjan Bylgja myndi loka og það yrðu uppsagnir á bátum hjá Soffaníasi Cecilsyni? Öðruvísi mér áður brá. En hver verður næstur undir öxi kvótakerfisins?  En ég er með ráð til Haraldar. Beittu þér fyrir því að leggja af óréttlátt kvótakerfi í sjávarútvegi og veiðigjöld í sömu andrá. Veittu ungu fólki von um frelsi til veiða og að geta bjargað sér líkt og þinn flokkur á að standa fyrir. Þá mun vel farnast.

Góðir menn í þínum flokki sáu að kvótakerfið var ekki gott. Matthías Bjarnason valdi sóknarkerfi og segja má að hann hafi verið síðasti sjávarúvegsráðherrann sem eitthvað kvað að. Flokksbróðir þinn Þorsteinn Pálsson byrjaði á þeirri ógæfu að fara eftir ráðgjöf Hafró í einu og öllu. Þrátt fyrir að stofnunin hefði „týnt“ 350 þúsund tonnum af þorski á einhvern óskiljanlegan hátt. Annar flokksbróðir þinn sá mæti maður Einar Oddur Kristjánsson sagði orðrétt um kvótakerfið: „Þarna hefur okkur mistekist hrapalega“. Ég vona að sonur hans sá ágæti maður Teitur Björn hafi skilið orð föður síns.

Ekki þurfa landshlutasamtök Í NV kjördæmi að gera sjálfstæða greiningu á þeirri alvarlegu stöðu sem kvótakerfið hefur valdið því það er allt skjalfest og skýrt.  Einungis þarf að viðurkenna vandann og bregðast við. Þar er valdið á hinu háa Alþingi.  Losum okkur við veiðigjöldin og kvótakerfið. Það er ekki í boði að gera ekki neitt.  Baráttukveðjur.

Stefán Skafti Steinólfsson

Höf. er kjósandi.