Hamast þú nú Borgarbyggð

Stefán Skafti Steinólfsson

Góðir lesendur. Hamast þú nú Borgarbyggð, að atvinnu þinni og sjálfboðaliðum. Það er samlíking milli atburða vel þekktra úr Egils sögu er æði rann á Skallagrím Kveldúlfsson og stefnu Borgarbyggðar í Brákarey. Veittist hann að syni sínum Agli en ambáttin Brák sem var þó Skallagrími mikilvæg, bjargaði Agli en galt fyrir með lífi sinu í Brákarsundi er Skallagrímur setti stein milli herða henni og kom hvorki upp síðan. Nú hefur sveitarstjórn sett þungan stein milli herða sjálfboðaliða sem og atvinnulífs í Brákarey og tvísýnt að hvort komi úr kafinu aftur.

Þetta hefur áhrif eins og neyðarköll sjálfboðaliða hafa sýnt undanfarna mánuði. Sú gríðarlega vinna sjálfboðaliða sem unnin er í þágu samfélagsins er brothætt, svo mjög brothætt að æ erfiðara er að manna stjórnir og nefndir. Með því að bregða fæti fyrir gott sjálfboðstarf og jafnvel neita öllu samtali er illa komið fyrir litlu samfélagi.  Nú virðist komið að ögurstundu í mörgu sjálfboðaliða starfi.

Skýrt hefur komið fram á síðum þessa blaðs að ekki njóta sjálfboðaliðar meðalhófs varðandi lokanir í Brákarey. Hvað atvinnuna varðar er ekki ein báran stök í viðleitni við að kasta frá sér atvinnunni. Þó ekki sé það tengt eyjunni þá er skemmst að minnast þess er nýjasta og fullkomnasta mjólkurbúi landsins var fórnað til að „bjarga“ gjaldþrota kaupfélagi og drífa atvinnuna til Reykjavíkur og Selfoss. Hallar nú undan búi í landnámi Skallagrims, en mjólkurbú og kvóti sogast til Skagafjarðar sem og þingmenn Norðvesturkjördæmis. En það er efni í aðra grein. Virðist fram undan að fæla alla atvinnu úr Brákarey og fórna henni á altari arkitekta og byggingarverktaka. Verkfræðistofur líta svæðið girndaraugum og er mikilvægt að fá annað álit þegar kemur að því að dæma hús ónýt eður ei.

Eftir skipulagsklúðrið með Sláturhús Vesturlands þar sem opnun þess tafðist um a.m.k. eitt ár, mætti halda að Borgarbyggð sæi að sér í skipulagsmálum og væri stolt af þeirri atvinnustarfsemi sem rekin er í eyjunni. Í eyjunni er eitt besta renniverkstæði landsins, sláturhús sem er ört vaxandi í landbúnaðarhéraði, öflugt verktakafyrirtæki, plastskipasmiðir, nýsköpunarfyrirtæki sem flytur út vöru í milljónavís svo fátt eitt sé nefnt. Síðast en ekki síst er gríðarmikil sjálfboðavinna fornbílafélagsins, skotfélagsins, golfklúbbsins og fleiri. Sú sjálfboðaliða vinna hefur laðað að iðandi mannlíf og heimsóknir gesta í eyjuna.

Það er hart að sá steinn er sveitarfélagið setti milli herða þeirra er stunda sjálfboðaliðastörf valdi samtalsleysi, því sjálfboðaliðar hafa ætíð verið boðnir og búnir að bæta húsnæðið með sjálfboðaliðavinnu. Það er dauðans alvara að rífa vel uppsteypt hús. Þar er kolefnissporið mikið. Sú örskotsstund er tók að finna nýtt húsnæði fyrir bæjarskrifstofur sýnir að afkomendur Skallagríms geta sýnt kjark og þor. Það ætti ekki að taka örskotsstund að rífa það sem ónýtt er, laga einn þakræfil og gera þann húsakost til sóma er í eyjunni stendur. Vilji er allt sem þarf og korter í sveitarstjórnarkosningar.

 

Stefán Skafti Steinólfsson

Höfundur er sjálfboðaliði.