Hálsasveit og Hvítársíða

Þorsteinn Þorsteinsson

Þessi hluti Borgarfjarðar var til forna áfangastaður ferðamanna sem áttu leið um Kaldadal og Arnarvatnsheiði. Efstu bæirnir Kalmanstunga og Húsafell voru vinsælir gististaðir, það var þingmannaleið til Þingvalla, og norður í Húnavatnssýslu eða Skagafjörð allt að tvær þingmannaleiðir. Í Kalmanstungu og Húsafelli var löngum seld gisting og annar greiði. Það var í frásögur fært þegar Danaprins gisti í Kalmanstungu fyrir nokkrum öldum. Stefán Ólafsson bóndi í Kalmanstungu 1858 – 1889 seldi greiða og gistingu.

Grímur Thomsen minnist á Húsafell í kvæði sínu Skúlaskeið. Skúli sprengdi Sörla sinn á bökkum Hvítár á flótta yfir Kaldadal. „Sörli er heygður Húsafells í túni,” segir Grímur í kvæðinu.

Á tuttugustu öldinni er Húsafell kunnur gististaður, bæði fyrir reisendur og setugesti. Ásgrímur Jónsson einn af ástsælustu listmálurum þjóðarinnar dvaldst á Húsafelli, fyrst á sumrin 1915 – 1917, og síðar á hverju sumri 4 -6 vikur í senn. Húsafellsmyndir hans eru þjóðkunnar. Á Húsafelli dvöldu fleiri þjóðkunnir listamenn, Gunnlaugur Scheving, Þorvaldur Skúlason, Júlíana Sveinsdóttir, Jón Stefánsson og fleiri. Á sínum efri árum teiknaði Ásgrímur kirkju fyrir Húsafell og var hún reist upp úr 1960. Er hún mikið djásn og setur svip á staðinn.

Á Húsafelli lagði Kristleifur bóndi niður búskap með búfé og byggði sumarhús fyrir gesti. Nú er á hans parti jarðarinnar mikil sumarhúsabyggð, hótel og fjórar rafstöðvar. Kristleifur var móðurbróðir Páls listamanns.

Páll Guðmundsson ólst upp á Húsafelli. Hann nam málara- og höggmyndalist, bæði hér á landi og erlendis. Þegar hann hafði lokið námi í Þýskalandi 1986 settist hann að á Húsafelli. Hann er nú þjóðkunnur fyrir listaverk sín, bæði úr steinum sem hann finnur í landinu og svo málverk og grafík. Einnig býr hann til steinhörpur úr hellugrjóti og flautur úr birki og rabarbara. Hann breytti fjósi og súrheysgryfju í listasmiðjur og er sú nýting í stíl við það sem bændur hafa gert þegar þeir hafa breytt gripahúsum í gististaði. Má þar nefna hótelið á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Þar bjó þjóðskáldið Guðmundur Böðvarsson á lítilli jörð. Hann jók tekjur sínar með list sinni og smíðum. Síðar breyttu afkomendur hans útihúsum í hótel þar sem allt er gert af smekkvísi og listfengi. Ekki má gleyma Fljótstungu þar sem um langt skeið hefur verið tekið á móti gestum í sumarhúsum og nú er þar haglega gerð aðstaða til að sýna gestum einn af hinum frægu hraunhellum landsins Víðgelmi.

Eiríkur Ingólfsson keypti skemmu og átti frumkvæði að því að hún yrði flutt að Húsafelli og þjónaði þar listaverkum Páls. Arasynir fluttu hana úr Borgarnesi í heilu lagi að launum fyrir listaverk og stendur hún nú á sama hlaðinu og gamla fjósið og þar sýnir Páll myndverk sín og hljóðfæri og sómir skemman sér vel.

Aðdáendur Páls reistu hús fyrir liðinna tíma listaverk í steinum. Eru það legsteinar flestir höggnir eftir afkomendur séra Snorra sem var prestur á Húsafelli 1757 – 1803. Elstur legsteinasmiðanna var sennilega séra Helgi Grímsson. Legsteinn yfir séra Grími Jónssyni föður hans er höggvinn úr rauðum steini úr Bæjargilinu, mesti dýrgripur. Grafskrift er á latínu og á kanti steinsins má sjá hebreskt letur. Sonur Snorra Jakob hjó legstein yfir Snorra föður sinn úr rauðum steini með langri grafskrift. Hann er nú mjög laskaður af veðrum og vindi. Þorsteinn sonur Jakobs var eftirsóttur legsteinasmiður. Verk hans sjást víða t.d. í Snóksdal í Dölum og á Möðruvöllum í Hörtgárdal svo eitthvað sé nefnt. Annar sonur Jakobs Snorrasonar Gísli hjó legsteina með grafskriftum og var einn óskemmdur í Húsafells kirkjugarði. Eru verk þessara legsteinasmiða haglega gerð og falleg.

Legsteinahúsið var reist með byggingarleyfi skipulagsyfirvalda. Nú vill svo undarlega til að leyfið er afturkallað með þeim rökum að húsið þjóni ekki landbúnaði. Þetta ber skilyrðislaust að afturkalla. Á Húsafelli hefur ekki verið búskapur með skepnum í 50 ár, en öldum saman hefur Húsafell verið ferðamannastaður og ber að skipuleggja með tilliti til þess. Páll hefur nú starfað á Húsafelli í milli 30 og 40 ár. Kirkjuból, Fljótstunga og Húsafell eru mikils virði fyrir land og þjóð og eiga yfirvöld allt að gera til að hlynna að slíkum stöðum. Staður Páls á Húsafelli er lndsfrægt djásn og óskiljanlegt ef yfirvöld viðurkenna það ekki.

 

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur er frá Húsafelli.

Athugasemd ritstjóra: Vegna misskilnings var birt röng mynd með meðfylgjandi grein bæði í prentmiðli Skessuhorns og hér á vef, en hefur nú verið leiðrétt. Í fyrstu var birt mynd af Þorsteini Þorsteinssyni frá Skálpastöðum, alnafna höfundar. Beðist er velvirðingar á þessu.

Fleiri aðsendar greinar