Háleistar og helíum

Kristján Gauti Karlsson

Þjóðhátíðardeginum var fagnað með miklu pompi og prakt um land allt 17. júní síðastliðinn. Þetta er alltaf mikill hátíðisdagur og mér þykir alltaf vænt um 17. júní. Þá leyfa Íslendingar sér að sýna smá jákvæða þjóðerniskennd, þjappa sér aðeins saman. Það má sýna þjóðerniskennd, allt að rembingi, á 17. júní, svona eins og þegar Ísland spilar boltaleik.

Víða var boðið upp á þjóðhátíðarköku, enda 75 ára afmæli lýðveldisins. Það er alltaf næs að fá köku. Ég sakna þess hins vegar að á 17. júní séu grillaðar pylsur ofan í liðið. Að mínum dómi er fátt þjóðlegra að sumri en grillaðar pylsur sem eru brenndar að utan en kaldar í miðjunni. Þá er hátíð í bæ og gleðilegt sumar. Einnig saknaði ég hins þjóðlega kandífloss að þessu sinni, en það er eina sælgætið sem svífur um eins og biðkolla ef vindurinn nær að grípa það. Ef það hins vegar lendir í hárinu á hrokkinhærðu barni fer gamanið að kárna.

Annað fyrirbæri sem gjarnan sést svífa með himinskautum á hátíðardaginn eru blessaðar gasblöðrurnar. Eftir að mæður og feður hafa gengið um götur með gasblöðru í andlitinu allan daginn virðist alltaf óhjákvæmilega koma að því að börnin missi takið á risastóru helíumfylltu hundablöðrunum sínum, svo þær rísa tignarlega upp til skýjanna eins og loftbelgur Fíleasar Foggs á leiðinni í kringum jörðina.

Eitt langar mig að segja um gasblöðrur og nú ætla ég að gera það sem ég geri best; tuða. Það er viðvarandi helíumskortur í heiminum og hefur verið lengi (þess vegna eru gasblöðrurnar ógeðslega dýrar) og því galið að spreða hluta af því litla helíum sem til er á jarðkúlunni í plastbelgi, þaðan sem það lekur síðan út í andrúmsloftið eftir að hafa svifið í blöðru milli landshluta. Helíumblöðrur veita börnunum vissulega ánægju, það er allt saman gott og gilt, en getum við ekki notað eitthvað annað en helíum?

Ágæti lesandi, þegar hér er komið við sögu ætla ég að leggja fram „lausn“ á blöðruvandanum. Lausn hef ég innan gæsalappa, því þetta er alls engin lausn, enda ekki til siðs að tuða yfir einhverju og leggja til lausn í sama vetfangi. Ég legg til að hin stórskemmtilega gastegund brennisteinshexaflúoríð verði notuð á gasblöðrur í stað helíums. Ef maður andar því að sér hljómar röddin mjög djúp, því hljóðbylgjurnar eru lengur að ferðast í gegnum hana, öfugt við hina margfrægu helíumrödd. Ástæðan er sú að brennisteinshexaflúoríð er umtalsvert þyngra en andrúmsloftið og miklu þyngra en helíum. Ímyndið ykkur hvað það væri fyndið að sjá blessuð börnin á 17. júní skrapa jörðina með risastórum Hvolpasveitarblöðrum.

Yfir í aðra sálma. Ég hef alltaf verið mjög svag fyrir þjóðbúningi kvenna, með upphlutnum og öllum græjum. Hann er sérstaklega fallegur og sveipar hverja konu sem honum klæðist auknum glæsileika, hátíðleika. Og bláa fjallkonudressið, halló! Djöfull er það flott. Ég kikna í hnjánum í hvert sinn sem fjallkona verður á vegi mínum (þetta er ekki endilega grín). Fjallkonubúningurinn er ótrúlega glæsilegur og ég hef aldrei séð konu sem ekki tekur sig vel út í þessu dressi og það sama fullyrði ég um hin hefðbundna þjóðbúning.

Þegar kemur að þjóðbúningi karla kemur annað hljóð í strokkinn (mig). Fæst orð bera þar minnsta ábyrgð. Ég læt það hins vegar ekki stoppa mig í að lýsa því yfir að ég hef ekki smekk fyrir honum. Smalagallinn er þeim eiginleikum gæddur að geta látið hvern hávirðulegan herra líta út eins og strákpjakk. Og þessir háleistar gera bara ekki neitt fyrir neinn. Öðrum er vitaskuld frjálst að vera á öndverðum meiði með allt sem fer hér að ofan. Þetta er bara það sem mér finnst. Leiðarinn er víst skoðanadálkur.

Greinin birtist sem leiðari í 25.tbl. Skessuhorns 19. júní.