Háir fasteignaskattar í Borgarbyggð!

Guðsteinn Einarsson

Í um margt dæmalausri grein forseta sveitarstjórnar Borgarbyggðar í síðasta Skessuhorni, um hlutfall fasteignaskatta, þá segir í greininni efnislega að ef fasteignskattar yrðu lækkaðir til samræmis við Reykjavík þá yrði tekjutap sveitarfélagsins Borgarbyggðar 164 milljónir á ári og ekkert fé yrði til afborgana af lánum og til framkvæmda.

Það er rétt að benda forseta bæjarstjórnar á að hún er að segja að íbúar sveitarfélagsins þurfi að borga aukalega 164 milljónir króna á ári til þess að viðhalda óhagkvæmum rekstri sveitarfélagsins Borgarbyggðar.

Þetta gerir aukaskatt á íbúa sveitafélagsins uppá 656 milljónir króna á kjörtímabilinu. Dágóð upphæð, sem líklega er betur komin og betur nýtt af íbúunum sjálfum.

Í dæmi mínu þýðir þetta 156 þúsund krónur á ári í aukakostnað við íbúðarhúsnæði mitt á ári, eða 624 þúsund krónur á kjörtímabilinu.

Að óbreyttu er Borgarnes ekki samkeppnishæft til búsetu vegna hás kostnaðar og óstjórnar. Varla er lóð að hafa undir raðhús, parhús eða fjölbýlishús og því lítið byggt, auk þess sem lóðagjöld, gatnagerðargjöld, fasteignagjöld og frárennslisgjöld eru í hæstu hæðum.

Það hefur lengi verið ljóst að endurskoða þarf rekstur sveitarfélagsins Borgarbyggðar, og þá ekki síst grunnskólanna.  Það væri rétt fyrir forseta sveitastjórar að lesa sér til um þá stöðu í  Skólavoginni 2017.

Þar kemur fram að launakostnaður grunnskóla sveitarfélagsins er 353 þúsund krónum yfir landsmeðaltali á hvern nemanda, og því til viðbótar þá er launakostnaður á hvern nemanda í Borgarnesi 1.181 þúsund krónur á meðan launakostnaður á hvern nemanda í Grunnskóla Borgarfjarðar er 2.160 þúsund krónur, eða 979 þúsund krónum hærri á hvern nemanda.  Þar sem nemendur eru 186 er þessi aukakostnaður 182 milljónir króna á ári eða 728 milljónir króna á kjörtímabilinu.

Ef síðan er horft til launa í þessum skólum, þá segir skýrslan að meðalárslaun í Grunnskóla Borgarness séu 6.475 þúsund króna, en í Grunnskóla Borgarfjarðar séu meðalárslaun 8.115 þúsund krónur eða 1.640 þúsund krónum og 25% hærri en í Borgarnesskólanum.

En þó svo að alltaf sé dýrara að reka minni skóla en þá stærri þá er þessi munur alveg út úr korti.

En samkvæmt samstarfssáttmála núverandi meirihluta á ekkert að gera í málinu, en á meðan eiga íbúar sveitarfélagsins að punga út 164 milljónum króna á ári til þess að tryggja rekstrarhæfi sveitarfélagsins.

Það er rétt að minna forseta sveitarstjórnar á að eftirspurnin eftir áframhaldandi forystu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var ekki meiri en svo að flokkarnir guldu afhroð í sveitarstjórnarkosningunum á síðasta ári, þó svo að þeim tækist að halda meirihlutanum með því að verða sér út um hækju til að haltra við eitt kjörtímabil enn.

 

Borgarnesi, 30. mars 2019

Guðsteinn Einarsson.