
Hagkerfi heimabyggðar – hvernig þín viðskipti hafa áhrif
Guðrún Magnea Magnúsdóttir
Við gerum okkur flest grein fyrir mikilvægi þess að halda verslun og þjónustu í heimabyggð – en hversu staðföst erum við í að fylgja því eftir? Hversu mikið leggjum við raunverulega upp úr því að viðskipti haldist innan samfélagsins okkar? Viðskipti í heimabyggð stuðla almennt að sjálfbærni, þar sem þau hafa jákvæð áhrif á þrjár grunnstoðir hennar; samfélagið, efnahaginn og umhverfið.
Hugtakið „heimabyggð“ er afstætt, allt eftir því hvernig hver og einn lítur á umhverfi sitt. Er heimabyggðin bundin sveitarfélagsmörkum? Nær hún yfir nágrannasveitarfélög? Landshlutann? Eða jafnvel allt landið? Telst það stuðningur við heimabyggð að versla í stórfyrirtæki í heimabænum, eða er það fremur að versla í rótgrónu íslensku fyrirtæki í næsta bæjarfélagi? Hvort tveggja styður við verslun á svæðinu en getur þó haft mismunandi áhrif. Það sem við þurfum að leitast við er að velja þá kosti sem styrkja staðbundna starfsemi meira en aðila sem hafa lítil eða engin félagsleg og efnahagsleg áhrif á nærumhverfið.
Ekki er allt gull sem glóir
Lítil, staðbundin og oft fjölskyldurekin fyrirtæki eru hryggjarstykki landsbyggðarinnar. Þau einkennast af persónulegri þjónustu og sterkum hefðum, auk þess sem þau mæta þörfum samfélagsins með nýsköpun og sköpunargáfu. Þegar við styðjum við staðbundið frumkvöðlastarf, stuðlum við að blómlegu umhverfi fyrirtækja og samfélags þar sem fjármagn helst innan svæðisins og allir njóta góðs af.
Þessi persónulega þjónusta í smærri byggðum er verðmæt og í raun ómetanleg. Þó er þróunin á þann veg að fleiri og fleiri velja að versla vörur á netinu. Það getur auðvitað verið hentugt, sérstaklega þegar vöruúrval er takmarkað í nærumhverfinu eða kostnaður lægri annars staðar. En þegar samfélagið í heild fer að treysta alfarið á vörur og þjónustu utan svæðisins, jafnvel erlendis frá, þá lækkar þjónustustigið í nærumhverfinu. Það kann að hljóma klisjukennt, en saman getum við spornað gegn þessari þróun og tryggt að þjónusta og lífsgæði haldist á landsbyggðinni.
Grænni valkostir á heimavelli
Viðskipti í heimabyggð hafa einnig verulegan umhverfislegan ávinning. Þegar við verslum staðbundið dregur það úr flutningsfjarlægð, eldsneytisnotkun og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Að auki hafa lítil, staðbundin fyrirtæki stundum minna umhverfisfótspor og tileinka sér sjálfbærari aðferðir, eins og að nota vistvæn efni og hráefni úr heimabyggð og að styðja hringrásarhagkerfið með endurnýtingu og endurvinnslu. Á móti koma stærri keðjur, sem setja fjöldaframleiðslu í fjarlægum löndum og miklar umbúðir í forgang, oft á kostnað umhverfisins.
Félagshagfræðileg áhrif – samfélagið í forgang
Viðskipti í heimabyggð hafa líka mikil félagsleg og efnahagsleg áhrif. Í sumum tilfellum byggja samfélög á landsbyggðinni afkomu sína nánast alfarið á örfáum fyrirtækjum sem halda tannhjólunum gangandi. Viðskipti í heimabyggð skapa atvinnu, skila skatttekjum í formi útsvars, fasteignagjalda og styrkja til félagsstarfs. Þau laða einnig að sér nýja íbúa og sérhæfða starfskrafta, sem geta eflt atvinnulífið og samfélagið í heild.
Við getum litið á tvö nærtæk dæmi:
Sviðsmynd 1: Einstaklingur fær vinnu í verslun á Snæfellsnesi og flytur þangað með fjölskyldu sinni. Makinn, sem hefur færni sem samfélagið hefur skort, fær starf hjá sveitarfélaginu. Fjölskyldan tekur virkan þátt í íþróttastarfi og félagasamtökum, sem styrkir samfélagið enn frekar.
Sviðsmynd 2: Stórfyrirtæki kemur inn á svæðið og býður upp á vörur sem áður voru seldar af rótgrónum fjölskyldufyrirtækjum. Með lægri verðum, meiri markaðssetningu og meiri sveigjanleika í fjárþörf hrekur það smærri fyrirtækin úr rekstri. Eftir nokkur ár breytist rekstrarstefna stórfyrirtækisins, störfum fækkar og fólk flytur á brott. Lífsgæðin í bænum dala og fjölbreytni atvinnulífsins minnkar.
Viðlíka atburðarás er því miður kunnugleg í mörgum samfélögum á landsbyggðinni.
Á síðustu árum hefur störfum fækkað hjá opinberum stofnunum, bönkum og tryggingafélögum á Snæfellsnesi, en þrátt fyrir það býr svæðið enn við gott úrval smærri verslana og þjónustu þó eitthvað hafi verið um breytingar eða lokanir. Þessar staðbundnu verslanir bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval og þjónustu sem er aðgengileg í næsta nágrenni, sem styrkir bæði samfélagið og efnahag svæðisins. Smærri aðilar, eins og bakarí, veitingastaðir, byggingarvöruverslanir og prentþjónusta veita íbúum tækifæri til að versla án þess að þurfa að fara langar leiðir. Ef þessi fyrirtæki fá stuðning frá íbúum, eru þau mikilvægur hlekkur í lífsgæðum á svæðinu og stuðla að atvinnu, þjónustu og sjálfbærni á staðnum.
Að standa vörð um heimabyggðina
Viðskipti í heimabyggð eru ekki aðeins spurning um hagkerfi – þau snúast um lífsgæði, samfélagsanda og framtíðarsýn. Með því að velja staðbundna þjónustu og vörur eflum við atvinnulífið en um leið eflum við samfélagið og lágmörkum umhverfisáhrif, sem færir okkur nær sjálfbærara samfélagi. Á endanum er það okkar ákvörðun: Viljum við styðja nærumhverfið okkar – eða færa völdin í hendur stórfyrirtækja sem hafa engin tengsl við samfélagið? Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Bíðum ekki með að velja verslun og þjónustu í heimabyggð, því við gætum lent í þeirri stöðu að hafa ekki það val!
Guðrún Magnea Magnúsdóttir
Höf. er verkefnastjóri EarthCheck vottunar á Snæfellsnesi