Hafin er endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar

Einar og Erla Bryndís skrifa

-Skipulags- og matslýsing í kynningu

Endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar er hafin. Í gildi er aðalskipulag frá 2011 en gert er ráð fyrir að endurskoðað aðalskipulag taki gildi árið 2022. Vinnan hefst með kynningu á skipulags- og matslýsingu sem er einskonar verkáætlun fyrir endurskoðunina og er fyrsta skref í aðkomu almennings að skipulagsferlinu. Með endurskoðun aðalskipulagsins gefst íbúum tækifæri til að hafa áhrif á stefnu sveitarfélagsins um landnotkun til næstu ára.

Í aðalskipulagi Borgarbyggðar er sett fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu. Þar er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Við endurskoðun aðalskipulags er fjallað um áskoranir sem blasa við til framtíðar í skipulagsmálum og mörkuð stefna til næstu 12 ára. Teknar eru ákvarðanir um hið byggða umhverfi sem skapar umgjörð um daglegt líf fólks á svæðinu.

Sveitarfélagið byggir á sterkum stoðum, í það minnsta er það upplifun undirritaðra sem koma að því að undirbúa skipulagsferlið og taka saman skipulags- og matslýsingu fyrir endurskoðun aðalskipulagsins. Samfélagið á djúpar rætur í sögu og menningu svæðisins, auk þess að státa af öflugum menntastofnunum á öllum skólastigum. Allar forsendur eru því fyrir fjölgun þekkingarstarfa, nýsköpun og vexti skapandi greina, auk rannsókna og kennslu á háskólastigi. Hefðbundnar greinar eru þó kjölfestan og fjölbreytni atvinnulífs á svæðinu skapar seiglu og sveigjanleika til að takast á við samfélags- og umhverfisbreytingar. Í því sambandi hefur Borgarbyggð m.a. ráðist í stórátak við uppbyggingu innviða fjarskiptakerfa með lagningu ljósleiðarakerfis í dreifbýli.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur lagt til hvaða málefni verða einkum til endurskoðunar í aðalskipulaginu. Fjallað verður m.a. um þróunarmöguleika þéttbýlisstaða í sveitarfélaginu, sjálfbærni byggðar og aðgengi að opnum svæðum. Einnig með hvaða hætti fella má nýja byggð að því sem fyrir er og að staðsetning og fyrirkomulag nýrrar uppbyggingar og þjónustu styrki bæjarbrag og þá starfsemi og samfélag sem fyrir er. Auk þess verður fjallað um og greindir raunhæfir valkostir um legu þjóðvega í og við þéttbýli, svo sem hjáleið eða aðra mögulega kosti í samstarfi við Vegagerðina og fleiri stofnanir.

Sveitarstjórn leggur áherslu á að fjallað verði í aðalskipulagi um uppbyggingu ferðaþjónustu með hliðsjón af áskorunum sem við blasa og uppbyggingu greinarinnar til lengri tíma litið, byggt á sterkri ímynd, staðaranda og styrkleikum svæðisins. Auk þess leggur sveitarstjórn til að vegir í náttúru Íslands verði kortlagðir þ.e. vegir og vegslóðar, aðrir en þjóðvegir. Einnig að fjallað verði um flokkun landbúnaðarlands og mörkuð stefna um nýtingu og eftir atvikum vernd landbúnaðarlands í aðalskipulagi.

Skipulags- og matslýsing vegna endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar er nú í kynningu. Áætlað er að skipulagsferlið taki um tvö ár. Tíma áætlun miðast við að vinnslutillaga aðalskipulagsins verði kynnt í mars 2021, aðalskipulagstillagan verði auglýst í október sama ár og að aðalskipulagið taki gildi í apríl 2022. Rík áhersla er lögð á aðkomu íbúa og hagsmunaaðila að skipulagsvinnunni. Ákveðið er að hafa allt ferlið opið og gegnsætt og að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar verði upplýstir um gang mála. Markmiðið er að afla sem bestra gagna og gefa sem flestum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Undirrituð vilja vekja athygli á því að skipulags- og matslýsingin er nú í kynningu og hægt er að koma á framfæri skriflegum ábendingum eða athugasemdum á framfæri við umhverfis- og skipulagssvið Borgarbyggðar til mánudagsins 20. júlí 2020. Skipulags- og matslýsingin liggur frammi í Ráðhúsinu og á vef Borgarbyggðar.

 

Einar Jónsson, skipulagsfræðingur og Erla Bryndís Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt. Verkís.