Hafa skal það sem sannara reynist

Ásgeir Sæmundsson

Svar Ásgeirs Sæmundssonar við grein sveitarstjóra Borgarbyggðar

 

Á dauða mínum átti ég von, en að sveitarstjóri míns fyrrverandi sveitafélags myndi reyna að sverta og ráðast á mannorð mitt með hroka og rangfærslum í greinaskrifum, á því átti ég ekki von. Ég hef alltaf verið stoltur af því að tilheyra Borgarbyggð og hef af alúð sinnt sjálfboðaliðastarfi beint og óbeint fyrir sveitarfélagið í yfir 30 ár. Ekki síður er ég undrandi yfir því að einstaklingur með þá gríðarlegu reynslu af sveitarstjórnarmálum sem reyndin er hér, skuli ekki kynna sér mál betur áður en stílvopnið er mundað. Vegna alls þessa varð ég mjög sleginn við lestur á grein Gunnlaugs A Júlíussonar sveitastjóra Borgarbyggðar í Skessuhorni þann 4. júlí sl.

Sveitarstjóri byrjar á að nefna að svör hans séu vegna tveggja greina sem ég birti en kýs svo að halda sig við aðra þeirra í sínum skrifum. Umræddar greinar voru unnar uppúr dagbók sem ég hef haldið um samskiptin við sveitarfélagið, ásamt tölvupóstum, fundargerðum og formlegum erindum sem ég hef sent á Byggðarráð Borgarbyggðar og hefur sveitarstjóri öll þessu gögn undir höndum. Skrif mín í téðum greinum voru ekki mín upplifun af tveggja manna tali, eins og sveitarstjóri lætur í veðri vaka, heldur byggðar á þeim gögnum sem ég nefndi fyrr. Sveitarstjóri hefur mitt leyfi til að birta öll þessi gögn opinberlega, ef hann vill. Ef hann hefur týnt þeim get ég látið hann hafa ný afrit.

Í grein sinni skrifar sveitarstjóri að ég hafi ítrekað nefnt að starfsmenn sveitarfélagsins séu ósannsöglir. Vegna þessa las ég greinar mínra yfir að nýju og fann bara eitt tilvik þar sem ég tala um ósannsögli starfsmanns Borgarbyggðar. Það er í frásögn af fundi sem fram fór 11. október 2017. Ég fór þar fram á að rituð væri fundargerð sem sveitarstjóri taldi sjálfsagt mál, en engin fundargerð var svo rituð. Á þeim fundi sagði formaður skipulagsnefndar að ekki þyrfti að grenndarkynna ef mál væri auglýst opinberlega en þar fór formaðurinn með fleipur og veit það.

Sveitarstjóri segir að reiturinn, þar sem ég vil byggja, standi á Húsafellstorfunni og hún sé undir umhverfisvernd. Það er ekki rétt. Svæðið tilheyrir landi vestan við Húsafellstorfuna. Á umræddu svæði eru 3 sumarhús og eigendur landspildanna í kringum mína spildu eru nú þegar byrjaðir að skipuleggja þar tugi sumarhúsalóða. Það stóð hins vegar ekki í Borgarbyggð að lauma í gegn, án vitundar nágranna, heilu safni með tveimur húsum, á sjálfa Húsafellstorfuna. Fróðlegt væri að fregna af hverju þurfi núna að vera samvinna allra á svæðinu sem ekki þurfti þegar staðsetning safnsins var afgreidd í laumi hjá Borgarbyggð.

Jafnframt segir sveitastjóri að allir eigendur nærliggjandi landspildna hafi gert alvarlegar athugasemdir við grenndarkynningu. Samkvæmt þeim gögnum sem ég fékk frá sveitarfélaginu er þetta ekki rétt. Reyndar var það einn af eigendum nærliggjandi landspildna sem seldi föður mínum þetta land til að byggja á sumarhús.

Sveitarstjórinn fullyrðir að ekki liggi fyrir staðfesting á vegtengingu við landspilduna sem um ræðir. Mitt ráð til hans er að hann kynni sér málið betur áður hann tjáir sig um það, því það liggur vegur að eldri bústöðum á svæðinu í gegnum landspilduna og klýfur hana reyndar í tvennt. Þetta kemur líka skýrt fram í deiliskipulagstillögu af landinu sem hann hefur undir höndum.

Varðandi orð sveitarstjóra um meintar ónafngreindar aðdróttanir í skrifum mínum, í garð kjörinna fulltrúa, þá hefur Borgarbyggð ekki viljað birta erindi mín þegar ég hef nafngreint einstaklinga í þeim og því nafngreindi ég ekki kjörinn fulltrúa í minni grein. Eins og ég hef ítrekað sagt þá hefur sveitarstjóri öll þau gögn sem ég vitna í og skora ég hér með á hann að birta þau opinberlega ef hann telur vegið að einhverjum. Einnig skora ég á hann að birta dagbók mína varðandi viðskipti mín við Borgarbyggð opinberlega.

Hvað varðar lögfræðikostnað þá vitnaði ég einfaldlega í Umboðsmann Alþingis og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem hefur ítrekað dæmt um ólöglegar gjörðir í skipulagsmálum í Borgarbyggð og er ég þá ekki að meina eingöngu í máli okkar feðga. Sveitarfélagið hefur eytt miklum fjármunum í að verjast í þeim málum sem voru augljóslega ólögleg. Ég hef skorað á sveitarstjórn áður og geri það hér aftur að kynna sér stjórnsýslulögin og starfa eftir þeim svo ekki verði vandamál í skipulagsmálum.

Ég mun svo birta aðra grein þar sem ég varpa fram nokkrum spurningum um lögmæti.

Að lokum tel ég eðlilegt að sveitarstjóri biðji mig opinberlega afsökunar á þessum aðdróttunum sem fram koma í greinarskrifum hans, þær eru honum ekki til sóma.

 

Ásgeir Sæmundsson