
„HACK BEACH SUITES – NOT WELCOME AND STAY UNSAFE“
Ólína Gunnlaugsdóttir
Á Hellnum á Snæfellsnesi, nánar tiltekið í sveitarfélaginu Snæfellsbæ, stendur til að breyta aðalskipulagi fyrir uppbyggingu á ferðaþjónustu í miðju plássinu, fyrir hótel og átta ferðaþjónustuhús. Hagsmunaðilar á Hellnum og fleiri, telja að skipulagið brjóti í bága við svæðisskipulag Snæfellsness, gildandi aðalskipulag Snæfellsbæjar, almenn umhverfisviðhorf, náttúru og friðlýsingu á staðnum, vöktun og þol svæðisins, verndun menningarminja og aðkomu almennings og hagsmunaaðila að skipulagsmálum.
Niðri á bjargbrún um miðbik Hellna, er stök lóð undir verslun og þjónustu, samkvæmt gildandi aðalskipulagi en núna eru áætlanir um að byggja þúsund fermetra hótel þar.
Það verður að viðurkennast að kunnugir trúðu varla eigin augum né eyrum þegar orðrómur komst á kreik um að byggja ætti aftur á bjarginu þar sem nú stendur gamalt timburhús sem í raun ætti að friða. Það var og er ýmislegt sem mælir á móti þessum byggingaáformum og sumt það alvarlegt að það sætir undrun að stjórnendur sveitarfélagsins Snæfellsbæjar, sérfræðingur og ráðgjafi sveitarfélagsins í skipulagsmálum, umsagnaraðilar í skipulagsmálum og síðast en ekki síst, núverandi eigendur að jörðinni Gíslabæ, skuli ætla að reisa þar… ég ætla ekki að taka dýpra í árinni en að segja, slysagildru.

Sjávargangur við Bjargsflöt.
Nýir eigendur Gíslabæjarjarðar eru með rekstur við Vík í Mýrdal, Black Beach Suites og hafa hugsað sér að byggja upp ferðaþjónustu hér á Hellnum á sama hátt. Eftir síðasta kynningarfund Snæfellsbæjar á verkefni þessu, er ljóst að ekki er gætt að öryggismálum í tengslum við umræddar byggingaframkvæmdir. Staðreyndin er sú að til stendur að reisa þúsund fermetra byggingu á bjargbrún sem er úr mjög svo gljúpu og óstöðugu bergi sem reglulega hrynur úr og sjór gengur alveg upp að. Bjargið er margra metra hátt og til stendur að reisa nýja byggingu um 12-13 metra frá bjargbrúninni. Það á ekki einungis að koma þarna fyrir þessu mikla byggingarmagni, heldur á líka að leggja allstórt bílastæði sbr. reglugerð er lýtur að slíkri starfsemi. Vegna strangra reglna um fráveitu og ofanvatnslausnir, er þess krafist að gengið verði frá rotþróarkerfi neðanjarðar og á sjálf rotþróin að vera staðsett undir bílastæðunum sem tilheyra eiga hótelinu. Samkvæmt leiðbeiningarriti um rotþrær og siturlagnir sem Umhverfisstofnum (UST) hefur gefið út, skal varast að aka of nálægt rotþróm og lögnum tengdum þeim nema hugað sé sérstaklega að burðarþoli þeirra. Það verður sem sagt ekki bara grafið og sprengt fyrir byggingunum sjálfum og bjargið þannig veikt enn meira, heldur verður bætt við framkvæmdum sem valda frekari veikingu á jarðveginum.
Sveitarfélaginu er skylt að tilkynna um náttúruvá á skipulagssvæðum en hvar eru umsagnar- og eftirlitsaðilarnir? Veðurstofan gerir ekki athugasemd við skipulagslýsingu þá sem lögð var fram á síðasta ári vegna þessara hugmynda hér á Hellnum, þar með talið á lóðinni við hrynjandi bjargbrúnina.
Fyrir nokkrum árum var farið í gerð sjóvarna um 230 metrum norðan við umrædda lóð, undir svokölluðum Gróuhól og er minnst á þá framkvæmd á bls. 69 í gildandi aðalskipulagi, í kaflanum um takmarkanir á landnotkun vegna náttúruvár. Á Gróuhóli er einungis óformlegt bílastæði á bjargbrún fyrir ofan höfnina á Hellnum og þótti staðkunnugum í nokkuð dýra og umsvifamiklar framkvæmdir farið fyrir óljósa hagsmuni þar sem hægt var að beita öðrum ráðum til að lágmarka hættu, eins og að takmarka notkun bílastæðisins við fáa og smærri bíla eða leggja það í raun af eins og hugmyndir hafa verið um. M.a. kom það fram í gildandi aðalskipulagi Snæfellsbæjar á bls. 47 fyrir Hellna og eru þessar hugmyndir í takt við þau viðhorf í dag varðandi ferðamannastaði, að farartæki séu geymd í ákveðinni fjarlægð frá áfanga- og áningastöðum og fólk fari meira gangandi eða á annan hátt að skoða það sem fyrir augu ber í umhverfinu.
Það eru semsagt áform um að byggja hótel þar sem öryggi væntanlegra hótelgesta og annarra sem þar munu dvelja, er hunsað og í raun er umræðan þögguð eða gert lítið úr eins og aðrar athugasemdir hagsmunaaðila. Vegna jarðvegsgerðar, veðrunar og ágangs sjávar, er bjargið að hrynja og ekki fæst séð að þarna hafi verið gerðar jarðvegsrannsóknir eða styrkur jarðvegs á byggingarsvæðinu mældur.
Svo virðist sem helgunarlína við sjó sé mæld á óraunhæfum forsendum en ætti að vera mæld frá umræddri bjargbrún og ætla má að línunni sé hagrætt til að koma fyrir umræddum byggingum. Að þessu stendur hópur fólks, bæði hjá Snæfellsbæ og hjá núverandi eigendum Gíslabæjar, sem virðast keppast við að halda þessum ,,váboðum” leyndum og hugsanlega blekkja umsagnaraðila í þeim tilgangi að styrkja sína eigin hagsmuni hvað varðar þessar framkvæmdir.
Það eru tvö stór öryggisatriði sem skipta máli á Hellnum eins og víðar þegar kemur að umhverfi og skipulagi; brunavarnir og samgöngur. Það þriðja er vaxandi í umræðunni, landbrot og hækkun sjávarmáls. Það er ótrúlegt til þess að vita að fagaðilar sem að þessum byggingaáformum koma og sveitarfélagið sjálft, sé ekki hættan ljós og ætli nú að tyldra dvalarstað ferðamanna fram á hrynjandi bjargbrún. Það er svo sannarlega ekki traustvekjandi innlegg í samfélagið hér, hvað þá fyrir ferðaþjónustuna. Upp í hugann kemur þetta slagorð fyrir Hellna, ,,not welcome, stay unsafe.“